Námsþættinum er ætlað að auka hæfni þátttakenda í grunnþáttum forritunar, ná færni í að nota hugtök forritunar og skilja meginatriði hennar. Einnig verður forritunarumhverfið skoðað og þátttakendur læra að búa til forrit og tölvuleiki undir leiðsögn kennara (t.d. með aðstoð Scratch forritsins) og vinna með staðlaðar aðferðir við villuleit. Farið er í grunnvirkni tölva, skilyrðissetningar, lykkjur, aðgerðir, fylki og strengjavinnslu. Farið verður yfir tvíundakerfið og farið yfir hvernig tölvan notar það við allar aðgerðir. Lögð er áhersla á að nemendur temji sér snyrtilegan frágang og öguð vinnubrögð, sjálfstæði og frumkvæði.
Engar forkröfur.
námsmaður skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
Undirstöðuatriðum og grunnhugtökum forritunar
Uppbyggingu forrita
Tvíundakerfi (Binary numeral system) (núll og einn)
Muninum á vélmálum og forritunarmálum
Skilyrðissetningum og lykkjum
Texta-, strengja- og fylkjavinnslu
Aðgerðum – forritunartungumálum
Þarfagreiningu, hönnun og prófun forrita
námsmaður skal hafa öðlast leikni í að:
Vinna með grunnskipanir í forritun
Vinna með inntak og úttak í forritun
Hanna og forrita á læsilegan og skiljanlegan hátt
Finna og laga villur í forritum (aflúsun)
Finna hjálp og upplýsingar á netinu
Velja viðeigandi breytur
Vinna með villuleit – prófannaskýrsla
Beita sjálfstæðum vinnubrögðum
námsmaður skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
Nota grunnskipanir og grunnhugtök til að búa til einföld forrit
Lesa inn upplýsingar, vinna með þær og skila þeim aftur út á skjáinn í lok úrvinnslu
Nota slaufur og skilyrðissetningar í forritun á markvissan hátt
Nýta þekkingu sína til áframhaldandi náms í forritun