- Í öllu skólastarfi er lögð áhersla á að hver og einn nemandi fái tækifæri til að efla hæfni sína á eigin forsendum, án tillits til kyns, trúar, félagsstöðu, kynhneigðar, búsetu eða annars sem gæti mismunað nemendum. Þessu er fylgt eftir samkvæmt jafnréttisáætlun skólans þar sem nemendur fá meðal annars fræðslu um jafnrétti í víðum skilningi. Í þeirri fræðslu er til dæmis lögð áherslu á styrkleika beggja kynja, skyldur og réttindi.
- Meðal gilda skólans er virðing og í skólastarfinu er nemendum gert ljóst að þeim beri að sýna öllu fólki virðingu. Til dæmis ber þeim að hlusta kurteislega á aðra og virða skoðanir annarra óháð kyni, stétt, námslegri getu eða öðru slíku
- Skólinn býður upp á öflugt fjarnám sem gefur fólki kost á að taka stúdentspróf óháð búsetu, aldri eða öðru sem hindrað gæti það í námi. Áfangar fjarnámsins eru sambærilegir þeim áföngum sem kenndir eru í dagskólanum.
- Í fyrstu áföngum stærðfræðinnar er jafnrétti eflt með því að nemendur sýni hver öðrum virðingu óháð getu og hvernig þeir koma undirbúnir úr grunnskóla.
- Í mörgum greinum skólans, s.s. tungumálum, íslensku, náttúrugreinum og félagsgreinum fá nemendur möguleika á að velja verkefni og framsetningu þeirra. Einnig er mikið unnið í hópum þar sem allir hópmeðlimir eiga jafnan rétt til að tjá skoðanir sínar, meta vinnuframlag samnemenda sinna og hafa þannig áhrif á vinnuna og endurgjöf innan hópsins. Þá skipa þeir hver annan í hlutverk innan hópsins.
- Í dönsku og þriðja máli kynnast nemendur stöðu og réttindum ýmissa þjóðfélagshópa í ólíkum menningarheimum í gegnum ýmsa miðla (kvikmyndir, blaðagreinar, tónlist, texta).
- Í íslensku eru lesnar skáld- og smásögur sem fjalla um málefni sem tengjast jafnrétti kynjanna og samskiptum karla og kvenna með ýmsum hætti. Nemendur fá til dæmis það verkefni að hlusta á predikun í kirkju og eiga að rita um hana rökstudda gagnrýni. Ritgerðin á að snúast um hvaða erindi trúarbrögð eigi í nútímasamfélagi. Nemendur læra að bera saman afstöðu trúaðra við afstöðu trúlausra.
- Í íþróttum er nemendum gert að þekkja stöðu sína gagnvart samnemendum þannig að hver og einn leitist við að taka mið af eigin hreyfigetu, óháð kyni, líkamsþyngd og –getu. Leitast er við að gera hvern og einn sáttan við líkama sinn.
- Í hagfræði vinna nemendur verkefni í tengslum víð íslenskan vinnumarkað. Þar er komið inn á jafnrétti kynjanna í tengslum við laun, rétt til fæðingarorlofs o.fl.
|
- Á fyrsta ári fá allir nýnemar fræðslu um námstækni og mismunandi námsaðferðir frá námsráðgjöfum skólans. Þar læra þeir að skipuleggja tíma sinn, meta eigin styrkleika og veikleika og aðferðir til að efla námshæfni sína. Námsráðgjafar eru auk þess alla daga til staðar til að aðstoða nemendur í námi sínu.
- Skólinn leggur áherslu á fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir sem reyna á mismunandi hæfni nemenda. Mikið er um fjölbreytta verkefnavinna í formi samvinnunáms þar sem nemendur meta vinnuframlag hver annars eða sjálfs sín í formi jafningjamats og sjálfsmats. Í mörgum greinum eru nemendur látnir gera sér grein fyrir námslegri stöðu sinni. Má þar nefna að í öllum áföngum þriðja máls byggja kennslubækur á evrópska tungumálarammanum þar sem nemendur meta hæfni sína í viðkomandi tungumáli í þar til gerðum sjálfsmatsramma. Það gera þeir einnig í áföngum í dönsku og í stærðfræði kanna nemendur sjálfir stöðu sína, t.d. með gagnvirkum æfingum.
- Í öllu námi í skólanum er nemendum ætlað að vera ábyrgir og sjálfstæðir í námi sínu, t.d. með því að skrifa sjálfstæðar ritanir og/eða gera verkefni og gagnvirkar æfingar í skólanetkerfinu Moodle.
- Í flestum fögum byggist kennsla og nám á samvinnunámi þar sem nemendum er ætlað að deila þekkingu sinni með öðrum, t.d. í gegnum verkefnavinnu, umræður og kynningar, sem tengjast viðkomandi fagi, eða gerð veggspjalda. Við það nota þeir fjölbreyttar námsaðferðir sem byggja á sjálfstæðum vinnubrögðum.
- Í íslensku skrifa nemendur heimildaritgerðir þar sem rík áhersla er lögð á að þeir temji sér sjálfstæð og nákvæm vinnubrögð og skipuleggi tíma sinn vel. Auk þess skrifa nemendur greiningar og gagnrýni á bókmenntatexta sem gagnast samnemendum þeirra til undirbúnings fyrir lokapróf. Með þessum hætti taka nemendur sameiginlega ábyrgð á því að námsefnið skili sér til allra.
- Í íslensku bera nemendur ábyrgð á því að semja verkefni fyrir aðra nemendur sem nýtist þeim í náminu. Þeir lesa og endursegja nokkuð þunga texta sem verða síðan aðgengilegir öllum nemendum á Moodle.
- Í íþróttum læra nemendur um gildi reglulegrar hreyfingar og fjölbreytts fæðuvals sem orðatiltækið „heilbrigð sál í hraustum líkama“ endurspeglar. Nemendum er sýnt fram á að ef fólk temur sér heilbrigða lífshætti varðandi hreyfingu og mataræði líði því almennt betur og þar með styrkir það hæfni sína og getu til náms.
- Í flestum stærðfræðiáföngum eru notaðar fjölbreyttar námsaðferðir, s.s. hópvinna, einstaklingsvinna og það að einn nemandi kenni öðrum, töflukennsla, spegluð kennsla, uppgötvunarnám o.s.frv. Með fjölbreyttum kennsluaðferðum er vonast til að námshæfni nemenda aukist og að allir fái nám við hæfi í einhverju formi.
- Í tölvum læra nemendur á ritvinnsluforrit, töflureikna o.fl. sem tengist upplýsingatækni. Þá þekkingu og leikni geta þeir nýtt sér við nám í öðrum áföngum, t.d. við framsetningu viðfangsefna almennt, t.d. með því að setja upp ritgerðir og vinna með skjöl úr töflureikni, þ.e. Excel.
- Í lokaáföngum brautarinnar vinna nemendur stórt verkefni sem reynir á námshæfni þeirra. Þar þurfa þeir að nota fjölbreytt gögn, vera sjálfstæðir í vinnubrögðum og sýna fram á að þeir hafi tamið sér vinnubrögð sem krafist er í háskólanámi.
|
- Félagslíf skólans er afar öflugt og fer þar fram mjög fjölbreytt skapandi starf. Má þar nefna söngleik, sem settur er upp ár hvert, leikrit, sívaxandi nemendakór, útgáfu ýmissa skólarita, vinsælt myndbandsefni og stuttmyndagerð. Í skólanum gefst nemendum einnig tækifæri til að taka þátt í ræðuliði og Gettu betur liði skólans. Má segja að sérhver nemandi ætti að geta fundið sér skapandi starf við hæfi.
- Í öllum áföngum þriðja máls og dönsku er lögð mikil áhersla á skapandi verkefni sem reyna á ímyndunarafl nemenda. Sem dæmi má nefna að nemendur búa til leikrit sem þau flytja fyrir samnemendur sína. Þau gera einnig útvarps- og/eða sjónvarpsþætti, auglýsingar, blaðagreinar, póstkort, boðskort, podcast, veggspjöld (rafræn og á pappír). Þeir semja einnig smásögur, ljóð og blaðagreinar um ýmis málefni.
- Í ensku lesa nemendur bæði smásögur og skáldsögu og vinna ýmis skapandi verkefni í tengslum við innihaldið þar sem þeir velja sjálfir viðfangsefni og aðferðir. Má þar nefna myndbönd, skapandi textaskrif eða leikrit og ljóð. Þeir skrifa einnig ræðu og flytja um sjálfvalið efni þar sem þeir þurfa að færa rök fyrir máli sínu.
- Skapandi vinna er mikilvægur þáttur í öllum áföngum íslenskunnar. Nemendur gera t.d. stuttmyndir eða leikþætti úr sögum goðafræðinnar og teikna heimsmyndina og semja nemendur leikþátt úr fornsögum, gefa út tímarit í tengslum við fornsögur og teikna fornsagnahetjur eftir textalýsingu. Í sama áfanga skrifa nemendur smásögur og semja lög og tóngjörninga við nútímaljóð. Þegar tilefni gefst til eru nemendur hvattir til að fara í leikhús saman og sjá leikrit sem síðan er rætt og unnið með.
- Í öllum áföngum íþrótta hagnýta nemendur sér þekkingu sem þeir afla sér varðandi hreyfingu. Í styrktarþjálfun er t.d. mikilvægt að geta framkvæmt æfingarnar á réttan hátt, til að forðast meiðsli og í golfi er eftirsóknarvert að geta framkvæmt ákveðnar hreyfingar til að ná sem bestum tökum á sveiflunni. Auk þess fá allir nemendur skólans kennslu í dansi.
- Í náttúruvísindaáföngunum velja nemendur sér sjálfir viðfangsefni, semja og kynna fyrir samnemendum sínum og kennara á fjölbreyttan hátt. Til dæmis velja nemendur sér stað, einhvers staðar úti við til að taka sýnishorn af bakteríum til ræktunar, teikna upp sýni sem þeir skoða og vinna áfram með.
- Í stærðfræði er beitt ólíkum lausnaraðferðum og nemendur eru þjálfaðir í að hafa augum opin fyrir því að hægt er að leysa verkefni á fjölbreytilegan hátt.
- Í tölvum vinna nemendur með fjölbreytt verkefni sem reyna á sköpunarhæfni þeirra og ímyndunarafl. T.d. semja nemendur glærukynningu um sig sjálf og kynna fyrir bekknum. Auk þess semja þeir, hanna og setja upp heilsíðuauglýsingu. Þeir viða að sér upplýsingum og setja fram texta á skýran og læsilegan hátt eftir því sem við á eða á myndrænan hátt, t.d. myndrit o.fl. í Excel.
|
- Skólinn er þátttakandi í verkefninu „Heilsueflandi framhaldsskóli“ sem byggist á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu. Þessi stefna skiptist í fjóra þætti: næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl. Með þátttöku í verkefninu er nemendum gerð grein fyrir mikilvægi þessara þátta til sjálfbærni.
- Skólinn er einnig þátttakandi í verkefninu „Skóli á grænni grein“ sem er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu skóla. Í því sambandi hefur rusl verið flokkað í skólanum síðan árið 2012 með góðum árangri. Grænfáninn eykur þekkingu nemenda og skólafólks og styrkir grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla.
- Í þriðja tungumáli lesa nemendur og læra um framtíð jarðarinnar og vistsporið sem við skiljum eftir. Ýmsir textar, sem lesnir eru, fjalla um umhverfismál og sjálfbærni, t.d. gildi þess að hjóla í vinnuna, flokka rusl og svo framvegis.
- Í ensku er sérstaklega valið námsefni sem virkar hvetjandi á nemendur og vekur áhuga þeirra á og forvitni um mismunandi samfélög, menningu og náttúru. Til dæmis veita margir lestextar innsýn í aðra menningarheima og efla alþjóðavitund og samfélagslega ábyrgð nemenda.
- Í öllum áföngum í íslensku er lögð sérstök áhersla á að vinna með íslenska tungu og menningararf með nemendum þannig að hvorttveggja nái að skila sér með óbrengluðum hætti á milli kynslóða.
- Í mörgum áföngum skólans er kennsluefni oft á tölvutæku formi (t.d. snorraedda.is, dönsk málfræði) og rafræn skil eru á ýmsum verkefnum. Hefur aukin nýting tækninnar leitt til mikils pappírssparnaðar.
- Í íþróttum fá nemendur reglulega hreyfingu utanhúss og þar með eflist vitund þeirra um nærumhverfi og heilsu. Þeir öðlast reynslu í læsi á eigin heilsu með tilliti til gildis hreyfingar og heilnæms mataræðis en þetta tvennt stuðlar að góðri heilsu og líðan alla ævi.
- Í náttúruvísindum er lögð áhersla á að nemendur séu meðvitaður um gildi góðrar umgengni mannsins á jörðinni. Rætt er um breytni mannsins við dýr og umhverfi með fræðslu um ofveiði fiskistofna, gróðurhúsaáhrif, mengun, sorp o.fl. Nemendur læra um vistkerfi jarðar, samspil lífvera innbyrðis og áhrif manna á jörðina. Einnig fræðast nemendur um endurnýtanlegar orkulindir og vinna verkefni í tengslum við það.
- Í stærðfræði er reynt að efla sjálfstæða hugsun nemenda og sýna fram á að utanbókarlærdómur í stærðfræði er ekki til að byggja á til lengdar. Það er stuðlað að því að nemendur sjái þannig að þeir geti áfram byggt á því sem þeir lærðu á síðustu önn.
- Í skólastarfinu öllu er trú nemenda á eigin getu efld með kennsluaðferðum þar sem nemendur læra og kennarinn leiðbeinir og hjálpar nemandanum að ná settu marki. Þannig öðlast nemandinn sjálfstraust í námi sem fylgir honum væntanlega síðar hvert sem hann fer.
- Í hagfræði eru nemendur minntir á mikilvægi náttúruauðlinda og hvernig hægt sé að nýta náttúruauðlindir á sem hagkvæmastan hátt. Einnig fræðast nemendur um svokallaða græna þjóðhagsreikninga en þeir felast í því að meta nýtingu auðlinda og náttúrunnar í gerð þjóðhagsreikninga.
- Í náttúrugreinum læra nemendur um mikilvægi góðrar og heilbrigðrar umgengni mannsins á jörðinni. Þeir læra um áhrif orkumikilla geisla (UV, Röntgen, gamma), mengun í umhverfinu af völdum ýmissa skaðlegra efna, um eyðingu ósonlagsins, gróðurhúsaáhrif og hlýnun jarðar.
|
- Í erlendum tungumálum leita nemendur að upplýsingum á erlendum heimasíðum á mismunandi tungumálum, vinna úr þeim og tjá sig um innihaldið í ræðu og riti.
- Í öllum áföngum erlendra tungumála er unnið með texta á markmálinu á margvíslegan hátt og nemendur tjá sig í ræðu og riti. Þeir eiga í samskiptum sín á milli á markmálinu (leikrit/samtöl, bréf, hlustanir/kynningar og fleira). Nemendur eru hvattir til að tjá sig á erlenda málinu um leið og þeir geta og við hvert tækifæri sem gefst til þess, bæði innan kennslustofunnar og utan.
- Í áföngum erlendra tungumála kynnast nemendur vel menningu viðkomandi málsvæða og þess lands eða þeirra landa þar sem tungumálið er talað sem móðurmál. Þeir læra einnig að að sækja um skóla og vinnu í viðkomandi landi.
- Skólinn veitir nemendum tækifæri til að taka þátt í margvíslegum erlendum samskiptum þar sem þeir kynnast menningu, venjum og siðum annarra þjóða. Einnig fá þeir tækifæri til að dvelja á heimilum og kynnast siðum og menningu viðkomandi þjóðar. Jafnframt fá þeir þar með þjálfun í málnotkun. Að auki taka þeir á móti og hýsa erlenda nemendur. Þessi samskipti auka m.a. víðsýni og umburðarlyndi nemenda, og þjálfa þá í menningarlæsi.
- Í kennslu erlendra tungumála er orðaforði, lesskilningur og máltilfinning nemenda efld smám saman.
- Í sumum áföngum er námsefnið á ensku og þar af leiðandi tileinka nemendur sér ákveðinn orðaforða á ensku jafnhliða íslenskunni.
- Í öllum áföngum erlendra tungumála lesa nemendur fjölbreytta texta á markmálinu og vinna með þá á margvíslegan hátt. Þeir fá þjálfun í að hlusta á tungumálið ásamt því að tala málið við mismunandi aðstæður.
|
- Í skólastarfinu er lögð áhersla á heilbrigðan lífsstíl. Verkefnið „Heilsueflandi framhaldsskóli“ er til dæmis orðinn hluti af öllu skólastarfi. Þar eru fjórir þættir sem unnið hefur verið með: næring, hreyfing, geðrækt og lífsstíll. Í skólastarfinu er það viðhorf almennt lagt til grundvallar að nemendur beri ábyrgð á sjálfum sér og eigin gjörðum.
- Vellíðan er meðal gilda skólans. Það styður við stefnu skólans í því að öllum í skólasamfélaginu líði vel. Skólinn hefur virka eineltisáætlun og minnir árlega á skaðsemi eineltis til dæmis á árvissum degi gegn einelti.
- Í nýnemafræðslu er lögð áhersla á að stuðla að og efla góðan bekkjaranda þar sem hver og einn nemandi fær að blómstra og njóta sín á eigin forsendum.
- Í erlendum tungumálum lesa nemendur ýmsa texta sem fjalla um heilbrigðan lífsstíl ungs fólks, t.d. um gildi holls mataræðis og daglegrar hreyfingar. Nemendur fræðast einnig um hvernig lífsstíll getur haft áhrif á námsárangur.
- Í ensku eru lesnar smásögur, skáldsögur og greinar sem fjalla um hamingju og flæði sem tengist jákvæðri sálfræði. Einnig eru lesnar smásögur og skáldsögur sem fjalla um erfið málefni, svo sem ofbeldi, mismunun, einelti, vímuefnanotkun og sálarflækjur. Efnið er rætt í kennslustundum.
- Í allri kennslu og samskiptum við nemendur er áhersla lögð á jákvæð samskipti milli nemenda innbyrðis, sem og nemenda og kennara. Slík samskipti stuðla að félagslegu heilbrigði.
- Í flestum áföngum í skólanum er sjálfsöryggi nemenda styrkt, til dæmis með æfingu í að tjá sig og flytja fyrirlestra
- Í íslensku eru lesnar smásögur og textar þar sem tekið er á þáttum eins og mismunun, ofbeldi, einelti, kyngervi, kynhegðun og fleiru. Nemendur þurfa oft að ræða efni sagnanna í hópum, taka afstöðu og færa rök fyrir niðurstöðum sínum.
- Í íþróttum er fjallað sérstaklega um andlega, félags- og líkamlega færni og vellíðan í forvarnarskyni.
- Í öllum áföngum íþrótta er unnið gegn versnandi heilsufari með fjölbreyttu æfingaformi. Nemendur eru hvattir til að nýta sér þekkingu og reynslu sína til að tileinka sér heilbrigt líferni og að verða færir um að efla á eigin spýtur heilsu sína – alla ævi.
- Í íþróttum eru nemendur hvattir til að ala með sér jákvætt viðhorf til heilsuræktar með því að gera þeim ljóst að hver og einn getur framkvæmt hreyfingar eftir sinni eigin getu. Þeir eru jafnframt hvattir til að auka við getu sína með endurteknum æfingum.
- Í bóklegum tímum í íþróttum er m.a. fjallað um skaðsemi reykinga, áfengis- og vímuefnaneyslu og síðast, en ekki síst, skaðsemi steranotkunar, sérstaklega í sambandi við líkamsrækt.
- Í íþróttum er fjallað um mataræði og varað við einhæfu mataræði. Nemendur eru hvattir til að skoða vel hvort rannsóknir liggi að baki því sem mælt er með hverju sinni og meta með gagnrýnum huga það sem þeir lesa eða heyra um mataræði.
- Í öllum áföngum íþrótta er nemendum hjálpað til að þekkja stöðu sína gagnvart jafningjum þannig að hver og einn leitist við að taka mið af eigin hreyfigetu og að vera sáttur í „eigin skinni“.
- Í íþróttum er leitast við að draga úr einelti eða útilokun með því að allir taki þátt í leikjum eða keppni. Kennsluform í íþróttum er mismunandi en oft er unnið í hópum eða liðum sem stuðlar að samkennd nemenda.
- Í náttúrufræði fá nemendur kynfræðslu sem eflir meðvitund þeirra um kynheilbrigði, um mikilvægi heilbrigðs kynlífs, getnaðarvarnir o.fl.
- Í náttúrufræði öðlast nemendur þekkingu á ýmsum tegundum baktería og áhrifum þeirra. Þeir læra næringarfræði og læra að meta gildi holls mataræðis á heilsu manna.
- Í náttúrufræðiáföngunum læra nemendur um mikilvægi góðrar og heilbrigðrar umgengni mannsins á jörðinni. Þeir læra um áhrif orkumikilla geisla (UV, Röntgen, gamma), læra um mengun í umhverfinu af völdum ýmissa skaðlegra efna, um eyðingu ósonlagsins, gróðurhúsaáhrif og hlýnun jarðar.
- Í tölvum læra nemendur að temja sér réttar vinnustellingar við tölvuna. Unnið er með ýmsa texta sem fjalla um hollt mataræði, líkamsrækt og almennt heilbrigði.
- Í viðskiptagreinum eru lesnir textar sem fjalla um atriði sem snerta nemendur beint í daglegu lífi. Slíkir textar geta stuðlað að betra fjármálalæsi og á þann hátt haft áhrif á velferð þeirra.
|
- Í öllum áföngum íslensku er lögð áhersla á tjáningu af ýmsu tagi en í fyrsta áfanga eru sérstakir tjáningartímar í viku hverri. Dæmi um tjáningarefni má nefna lestur barnabóka, fyrirlestur um framtíðarstörf, leiklestur á atriði úr leikriti, tækifærisræður, bókarkynningu, fréttaflutning og margt fleira. Með lestri og textagreiningu er unnið að því að efla lesskilning nemenda í öllum áföngum íslensku.
- Í mörgum áföngum brautarinnar er námsefni á íslensku þannig að nemendur lesa texta með fjölbreyttum orðaforða sem stundum er þeim nýr. Þeir vinna saman í hópavinnu þar sem þeir nota tungumálið. Auk þess skila þeir skriflegum og munnlegum verkefnum á íslensku á fjölbreyttan hátt.
- Í stærðfræði eru nemendur þjálfaðir í að skilja hugtök stærðfræðinnar, setja verkefni sem eru í raun „orðadæmi“, yfir á táknmál stærðfræðinnar.
- Í bókfærslu kynnast nemendur mörgum nýjum hugtökum sem tengjast bókhaldi og fjármálum. Þeir öðlast færni í að lesa úr bókhaldsgögnum og fá góðan grunn við umsjón eigin fjármála. Áfanginn leggur á þann hátt sitthvað af mörkum til að bæta fjármálalæsi nemenda.
- Í hagfræði er unnið markvisst að því að gera nemendur læsa á þær fréttir líðandi stundar sem tengjast íslensku og erlendu efnahagslífi. Nemendur lesa dagblöð og fylgjast með fréttum og vinna verkefni í tengslum við þær.
- Í nær öllum fögum brautarinnar eru nemendur þjálfaðir í að koma fram fyrir bekkinn og flytja fyrirlestra um hin margvíslegu efni, ýmist einstaklingslega, í pörum eða stærri hópum.
- Í skólanum er öflugt félagslíf og á vegum þess gefa nemendur út alls konar prentað efni ásamt myndböndum. Þar er þeim leiðbeint og þeir hvattir til að nota vandað íslenskt mál.
- Í fyrstu áföngum stærðfræðinnar er sérstaklega unnið að því að nemendur verði læsir á stærðfræðitexta og -formúlur og geti fylgt rökfærslu sem sett er á blað.
- Nemendum með erlendan bakgrunn svo og nemendum sem búið hafa lengi erlendis fá sérstaka aukatíma og aðstoð í íslensku. Þar er m.a. farið í erfiðan orðaforða ýmissa námsgreina og almenna málnotkun.
|
- Í öllu skólastarfinu er leitast við að gera nemendur að virkum og ábyrgum þátttakendum í lýðræðissamfélagi, t.d. með því að leita eftir viðhorfum þeirra til ákveðinna þátta. Ár hvert er lögð fyrir þá kennslukönnun þar sem þeir segja álit sitt á áföngum sem þeir hafa setið. Skólinn hélt nokkurs konar „þjóðþing“ fyrir örfáum árum þar sem nemendur leiddu umræður um málefni skólans. Niðurstöður þessa þings voru m.a. notaðar við gerð nýrrar námskrár.
- Í dönsku og þriðja máli sjá nemendur bæði leiknar myndir og heimildarmyndir um líf flóttafólks og ójöfn kjör í heiminum. Þeir lesa texta um sama efni, kynna sér starf hjálparsamtaka víða um heim og læra að þekkja ólíkar aðstæður fólks.
- Í öllum tungumálaáföngum er námsmati stundum háttað þannig að nemendur sjálfir geta haft áhrif á námsmat sitt og félaga í hópastarfi með sjálfsmati og jafningjamati. Nemendur venjast því að bera virðingu fyrir manngildum hvers og eins meðlims hópsins eins og í stærri lýðræðissamfélögum. Í skólanum er lögð áhersla á nemendasjálfstæði þar sem hver og einn nemandi er ábyrgur fyrir eigin námi og hefur að einhverju leyti val um verkefni áfanga. Þá þurfa þeir að virða skoðanir annarra hópmeðlima.
- Í enskuáföngum eru nemendur þjálfaðir í að taka afstöðu til siðferðislegra álitamála í tengslum við bókmenntir og taka þátt í rökræðum um ýmis mál með því til dæmis að halda ræðu um ákveðin málefni. Þeir lesa einnig texta sem fjalla um mannréttindamál.
- Í íslensku vinna nemendur allnokkur ritunarverkefni um ýmis siðferðileg málefni. Nemendur gagnrýna texta hver annars og setja fram skoðanir og rökstudda afstöðu á verkefnin. Rökstuðningurinn er lykilatriðið í þessu verkefni sem er ætlað að ýta undir að nemendur verði virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðissamfélagi.
- Í öllum áföngum íslensku eru lesin fjölmörg bókmenntaverk þar sem lýðræði og mannréttindi eru í brennidepli.
- Í íþróttum er jákvæð og uppbyggileg félags- og samskiptahæfni þjálfuð með virkri þátttöku. Þar taka nemendur þátt í ýmsum kappleikjum og þar ber þeim að virða ákveðnar reglur leikjanna og hlíta úrskurði dómara.
- Í ýmsum náttúrufræðiáföngum fer starf í kennslustundum oft fram í hópavinnu. Þar læra nemendur að bera virðingu fyrir skoðunum annarra, að setja fram eigin skoðanir og taka þátt í rökræðum. Þá er ætlast til að þeir geti tekið gagnrýna afstöðu til siðferðilegra álitamála, t.d. með umfjöllun um genagalla, kjarnorku, losun geislavirks úrgangs, virkjanir á Íslandi o.fl
- Í skólanum er upplýsingatækni mikið notuð, bæði í dagskóla og í fjarnámi við skólann. Til þess að vera virkur í lýðræðissamfélagi þarf einstaklingurinn að vera upplýsingalæs þar sem tölvur og önnur tækni er sífellt að verða fyrirferðarmeiri þáttur í nútímasamfélagi. Nemendur eru þjálfaðir í að vera upplýsingalæsir en í dag telst slíkt læsi til ákveðinna mannréttinda.
- Í hagfræði vinna nemendur verkefni sem fjalla um réttindi og skyldur á vinnumarkaði, t.d. í tengslum við atvinnuleysi og rétt til atvinnuleysisbóta.
|
- Í öllum áföngum íslenskunnar eru nemendur hvattir til að tileinka sér upplýsingatækni. Í íslensku er fjallað sérstaklega um upplýsingaöflun í sambandi við heimildaritgerð í goðafræði og þar sem fengist er við bókmenntatexta 20. aldar.
- Í erlendum tungumálum nota nemendur upplýsingatækni í þekkingarleit og miðla þekkingu á gagnrýninn og skapandi hátt. Nemendur leita að upplýsingum á veraldarvefnum og víðar og vinna með þær á fjölbreyttan hátt. Þeir nota rafrænar orðabækur og ýmis forrit við úrvinnslu upplýsinga og framsetningu þeirra.
- Í náttúrufræðiáföngunum nota nemendur tölvur, smásjár, víðsjár og önnur hjálpartæki til rannsókna og í hópavinnu. Auk þess afla þeir gagna á Netinu og víðar, m.a. vegna fyrirlestra og verklegrar vinnu. Nemendur eiga að geta flokkað upplýsingar, túlkað og nýtt sér þær á gagnrýninn hátt.
- Í öllum stærðfræðiáföngum er lögð áhersla á að nemendur læri meðferð talna á viðeigandi hátt eftir eðli viðfangsefna. Í stærðfræði er nemendum m.a. gert að nýta sér efni sem sett er fram í tölvutæku formi, t.d. í námsumhverfinu Moodle svo og forrit (t.d. Geogebra) til hjálpar við lausn verkefna og til að efla skilning nemenda á hinum ýmsu viðfangsefnum stærðfræðinnar.
- Í tölvum vinna nemendur alls kyns verkefni í töflureikni, þ.e. Excel, þar sem upplýsingar og tölur eru notaðar og settar fram á ýmsan hátt t.d. í ýmis myndrit.
- Í bókfærslu er mikið unnið með tölur þannig að nemendur verða vel læsir á tölulegar upplýsingar og áhersla er lögð á að þeir geti miðlað þeim til annarra.
- Í hagfræði vinna nemendur með tölulegar upplýsingar í tengslum við ýmis verkefni. Má þar nefna upplýsingar frá Hagstofu Íslands. Þeir vinna líka með túlkun tölfræðilegra gagna, svo sem línurita og með gengi gjaldmiðla ýmissa landa í tengslum við margvísleg verkefni.
- Í náttúrufræðiáföngunum nýta nemendur sér margvísleg mælitæki í verklegri vinnu. Þær upplýsingar, sem aflað er í gegnum ýmsar mælingar, eru flokkaðar og nýttar til að sannreyna hin ýmsu lögmál náttúruvísindanna.
- Í náttúrufræði eru nemendur þjálfaðir í að fara með talnagögn og setja þau fram á skilmerkilegan hátt. Auk þess þurfa þeir að geta lesið og skilið efnajöfnur og notað hlutföll úr þeim til að reikna magnbundna þætti.
- Í jarðfræði er mikið unnið með kort, myndefni og tölur. Má þar nefna staðfræðikort, jarðfræðikort, veðurkort o.fl. Í náttúrufræði öðlast nemendur þekkingu á stórum tölum, t.d. um aldur jarðlaga og magntölur í eldgosum, enn fremur öðlast þeir þekkingu á jökulhlaupum og flóðum. Við öflun upplýsinga um fjölmörg atriði er Netið heilmikið notað
- Í náttúrufræði eru algengar reikniaðferðir og tölfræði notuð við lausn ýmiss konar verkefna. Framsetning og túlkun upplýsinga með hjálp taflna og línurita er þjálfuð. Öflun upplýsinga fer fram í gegnum bækur, heimildarmyndir og Netið.
|