- Áhersla er lögð á jafnrétti í öllu starfi skólans og jafnrétti endurspeglast í starfsháttum skólans, samskiptum og skólabrag.
- Jafnréttisstefna sem birt er á vef skólans hljóðar svo: Skólinn hefur jafnrétti í heiðri og brýnir fyrir nemendum og starfsfólki að jafnrétti skuli ríkja, hvort sem er jafnrétti kynja, jafnrétti einstaklinga eftir trú, kynhneigð, stétt, aldri, kynþætti og litarhætti eða jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra. Umburðarlyndi og víðsýni eru gildi skólans og grannt er fylgst með því að nemendur og starfsmenn virði þau.
- Nemendur í hinum ýmsu deildum skólans eru á öllum aldri, fullorðnir og börn, með ólíkan bakgrunn og af ýmsu þjóðerni, ófatlaðir, líkamlega fatlaðir og fólk með þroskahömlun. Stuðlað er að opnum samskiptum innan skólans til að auka víðsýni og umburðarlyndi, m.a. með heimsóknum milli deilda og sameiginlegum sýningum ólíkra hópa.
- Í verklegu námi er gætt að samþættingu kynjasjónarmiða í kennslu og stuðlað að sjálfsvirðingu og sjálfstæði beggja kynja. Áhersla er lögð á fjölbreyttar kennsluaðferðir og kennsluefni til að mæta ólíkum þörfum og áhuga nemenda og þess er gætt að vitna í heimildir sérfræðinga af báðum kynjum eftir því sem tök eru á.
- Í fagsögu og listasögu er þess gætt að nemendur kynnist verkum listamanna af báðum kynjum og ólíkum kynþáttum. Nemendur skoða list frá öllum heimshlutum.
- Í námi á teiknibraut er lögð áhersla á að nemendur kynnist sem fjölbreyttustum sjónarmiðum teiknara, lista- og fræðimanna og fái innsýn í mismunandi samfélög.
|
- Nám á teiknibraut er góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám í teikningu og tengdum greinum eins og t.d. hreyfimyndagerð, grafískri hönnun og myndlist. Námið er metið til háskólaeininga og geta nemendur sótt um að ljúka háskólagráðu við innlenda eða erlenda háskóla en það er undir viðkomandi háskóla komið, hvort námið er metið til fulls eða að hluta til.
- Í skólanum er markvisst unnið að því að efla sjálfstæði nemenda í vinnubrögðum. Áföngum lýkur ávallt með yfirferð þar sem nemendur gera grein fyrir hugmynd og vinnuferli. Þátttaka í umræðum um verk samnemenda er mjög mikilvæg. Þannig læra nemendur að meta eigin vinnubrögð og annarra með sjálfsmati og jafningjamati og að gagnrýna á ábyrgan hátt. Kennslu- og námsaðferðir eru fjölbreyttar og reyna á ýmsa hæfni. Jöfnum höndum er unnið að því að kynna nýja þekkingu fyrir nemendum og að gefa þeim kost á að vinna með efni og hugmyndir. Eftir því sem lengra líður á námið eru gerðar meiri kröfur um sjálfstæði í vinnubrögðum og að nemendur nýti þekkingu sína og fyrri námsreynslu við lausn nýrra viðfangsefna.
- Í öllum áföngum þurfa nemendur að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum og takast á við ýmsar áskoranir. Nemendur þurfa stöðugt að meta eigið vinnuframlag og læra þannig að þekkja styrk sinn og veikleika og að setja sér raunhæf markmið. Í listrænni vinnu er sjaldnast eitt rétt svar. Því er viðmið hvers nemanda hans eigin verk og markmiðið að bæta eigin frammistöðu í stað þess að miða sig við félagana.
- Í listasögu, fagsögu, heimspeki og málstofuáföngum er rík áhersla lögð á að nemendur fái þjálfun í að skrifa og byggja upp læsilegan texta, meta gildi og áreiðanleika heimilda og tengja tilvitnanir eigin umfjöllun og leggja út af þeim.
- Í verklegum áföngum fá nemendur verkefni sem þeir kljást við í samráði við leiðbeinanda. Niðurstaða áfanganna er gjarnan sett fram á opinberri sýningu á vegum skólans. Það leggur mikla ábyrgð á herðar nemenda sem þurfa að sýna sjálfstæð og skapandi vinnubrögð og setja fram raunhæfa tímaáætlun. Uppsetning sýningarinnar og utanumhald er sömuleiðis ábyrgðarstarf en á sýningunni koma nemendur fram sem fulltrúar skólans út á við. Nemendur þurfa að geta lagt mat á eigið vinnuframlag og þróað verkefni sín samkvæmt endurgjöf leiðbeinanda.
|
- Í öllum námsgreinum á teiknibraut reynir á frumkvæði og skapandi hugsun nemenda en sköpun er rauði þráðurinn í öllum áföngum, bæði verklegum og bóklegum. Nemendur þurfa í öllum áföngum að nýta sköpunargáfu sína í fjölbreyttri verkefnavinnu og kynningu á niðurstöðum sínum
- Nemendur tileinka sér aðferðir við að halda utan um og hafa yfirsýn yfir gögn um eigin verk. Þeir fá leiðsögn í ferilmöppugerð með því að taka og vinna myndir af verkum sínum. Ennfremur fá nemendur leiðbeiningar í tengslum við hönnun möppu, uppsetningu á ferilskrá og ritun yfirlýsingar listamanns um eigin verk. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð og að nemendur leggi mat á eigin vinnu og velji lykilverk til að koma á framfæri í möppu.
- Í upphafi verklegra áfanga vinna nemendur að nokkuð skýrt tilgreindum verkefnum sem er ætlað að dýpka skilning þeirra á viðfangsefninu og þjálfa ákveðna tækni. Eftir því sem leikni þeirra eykst reynir meira á hugmyndaauðgi og frumkvæði.
|
- Unnið er að því að nemendur verði virkir og ábyrgir borgarar bæði gagnvart samfélaginu og umhverfi sínu. Skólinn er þátttakandi í grænfánaverkefni Landverndar. Í öllu skólastarfi er lögð áhersla á sjálfbærni og sjálfbæra hugsun. Allt sorp er flokkað og nemendur eru eindregið hvattir til að nýta allt efni sem best.
- Áhersla er lögð á að kynna fyrir nemendum hvernig lágmarka má umhverfisáhrif af þeim efnum sem unnið er með, ýmist með endurnýtingu eða frágangi á sorpi.
- Virðing fyrir samnemendum, kennurum og öðrum er mikilvægur þáttur í daglegu skólastarfi. Þegar fjallað er á gagnrýninn hátt um verkefni nemenda er lögð rík áhersla á að nemendur átti sig á muninum á smekksdómum og gagnrýni sem studd er faglegum rökum.
|
- Nám á teiknibraut krefst þess að nemendur séu hæfir í að afla sér upplýsinga á erlendum tungumálum og geti metið texta og myndir erlendra höfunda á gagnrýninn hátt.
- Nemendur eru hvattir til að rita ferilskrá og kynningarmöppu á ensku til að auka möguleika sína á þátttöku í list á erlendri grund.
- A.m.k. einn erlendur gestakennari heimsækir nemendur á hverri önn, þekktur atvinnumaður á sínu sviði í sínu heimalandi. Nemendur tjá sig á erlendu tungumáli við kennarann og yfirferðir undir handleiðslu viðkomandi kennara fara einnig fram á erlendu tungumáli.
- Stjórnendur skólans eru vakandi fyrir möguleikum á ýmis konar samstarfi, bæði innanlands og utan en skólinn leitast markvisst við að taka þátt í fjölbreyttum alþjóðlegum samskiptum, s.s. námsferðum til útlanda og kennara- og nemendaskiptum til þess að auka víðsýni nemenda, efla skilning þeirra á mikilvægi tungumálakunnáttu og veita þeim innsýn í líf og störf fólks erlendis.
|
- Í skólastarfinu er lögð áhersla á heilsusamlegan lífsstíl m.a. í tengslum við næringu og hreyfingu. Gengið er út frá því að nemendur beri ábyrgð á sjálfum sér og eigin gjörðum.
- Nemendur hafa aðgang að eldhúsi og matsal í skólanum. Þar geta þeir geymt nesti sitt í kæliskáp og þar eru tæki til að hita upp mat, rista brauð og annað.
- Nemendur bera ábyrgð á þrifum á mataraðstöðu sinni og er fylgst með því að þar sé gætt fyllsta hreinlætis og að umgengni sé til fyrirmyndar.
|
- Í öllum áföngum vinna nemendur verkefni sem reyna á samskiptahæfni og tjáningu bæði í rituðu og töluðu máli. Nemendur þurfa að geta svarað spurningum á málefnalegan hátt og rökstutt skoðanir sínar og niðurstöður. Viðfangsefni nemenda eru oftar en ekki mjög huglæg og því er mikilvæg áskorun fólgin í að skerpa hugsunina og setja hana fram á skýran og skilmerkilegan hátt.
- Í listasögu, fagsögu, heimspeki og málstofuáföngum þurfa nemendur að gera grein fyrir þekkingu sinni og skoðunum og taka þátt í samræðum. Ennfremur vinna nemendur með ritað mál. Með aukinni þjálfun verður mál þeirra blæbrigðaríkara, orðaforði fjölbreyttari og málskilningur dýpri. Það eykur möguleika þeirra á að koma list sinni á framfæri.
|
- Allt nám við skólann miðar að því að gera nemendur að virkum og ábyrgum þátttakendum í lýðræðissamfélagi með því að hvetja þau til að mynda sér skoðun og deila henni í umræðum.
- Leitað er eftir viðhorfum nemenda til ákveðinna þátta í þeim tilgangi að bæta skólastarfið. Í lok hvers námskeiðs er nemendum boðið að fylla út kennslumatskönnun þar sem þeir fá tækifæri til að láta í ljós álit sitt á skipulagi og innihaldi áfanga, námsefni og kennsluháttum. Niðurstöðurnar eru notaðar til þess að bæta það sem betur má fara.
- Nemendur eru hvattir til að sýna umburðarlyndi og virðingu fyrir mismunandi lífsgildum.
|
- Myndræn frásögn og myndlæsi eru lykilatriði í náminu en vinna með myndræna þætti er meginþáttur í öllum verklegum áföngum og ríkur þáttur í þeim bóklegu áföngum sem kenndir eru á teiknibraut.
- Á teiknibraut er hugað að hlutföllum og stærðum, bæði í tengslum við listsköpun nemenda og ígrundun þeirra á verkum annarra. Nemendur vinna með margskonar geómetrískar upplýsingar í tengslum við myndbyggingu og snið og framsetningarmöguleika myndefnisins, hvort sem um ræðir bækur, skjái eða t.d. tölvuleiki. Nemendur skapa söguþráð í mynd eða myndröðum og kynna sér í því samhengi margskonar efni, allt frá barnabókum til kvikmynda. Í litablöndun er unnið með hlutföll lita og eiginleikar mismunandi litarefna eru skoðaðir. Í módelteikingu er unnið með hlutföll og skala, ýmist af mikilli nákvæmni en á öðrum stundum er frjálslega farið með staðreyndir og ríkari áhersla lögð á listræna sköpun og túlkun.
- Vinna með skissubók gengur sem rauður þráður gegnum allt nám á teiknibraut. Í skissuvinnunni öðlast nemendur þjálfun í að skoða, greina og teikna það sem fyrir augu ber í daglegu lífi, auk þess sem þeir þjálfast í tjáningu í umræðum um þennan mjög svo persónuleg þátt í náminu. Skissuvinnan er tæki sem hjálpar nemendum að halda utan um og þróa persónulegar hugmyndir sínar en þær upplýsingar sem skissubókin geymir nýtast í allri verkefnavinnu.
- Nemendur kynna verk sín fyrir samnemendum og kennurum í lok hvers áfanga og fá þannig reglulega þjálfun í tjáningu.
|