Námsbraut

Titill brautar: Námsleið: Námslok:
Rafvirki - samningsleið (Staðfestingarnúmer 289) 18-289-3-8 rafvirki hæfniþrep 3
Lýsing: Nám á rafvirkjabraut er bæði verklegt og bóklegt og er ætlað að veita nemendum iðnmenntun í rafvirkjun. Námið samanstendur af bóklegum og verklegum áföngum í rafvirkun og almennum áföngum í bóklegum greinum sem veita undirstöðuþekkingu. Nám á rafvirkjun er 260 eininga löggilt iðnnám sem lýkur með burtfararprófi á 3. þrepi. Námið skiptist í bóklegt og verklegt nám í skóla og starfsþjálfun á vinnustað 48 vikur. Að námi og starfsþjálfun loknu útskrifast nemandi með prófskírteini sem vottar að hann hafi lokið námi með fullnægjandi árangri. Að fengnu prófskírteini sem vottar útskrift af viðkomandi námsbraut og vottorði um að starfsþjálfun sé lokið getur nemandi sótt um að taka sveinspróf sem leiðir til útgáfu sveinsbréfs.

Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar

Inntökuskilyrði: Inntökuskilyrði á brautina eru að nemendur hafi lokið kjarnagreinum grunnskóla með fullnægjandi árangri. Námsárangur í kjarnagreinum mun einnig hafa áhrif á inn á hvaða þrep nemandinn innritast. Ef fleiri sækja um nám á brautinni en skólinn getur tekið við getur inntökuviðmið orðið hærra en lágmarkið.
Skipulag: Nám í rafvirkjun er bæði bóklegt og verklegt. Námið er 260 einingar og skipulagt sem 6 annir í skóla og 48 vikna starfsþjálfun. Námi lýkur á þriðja þrepi. Nemendur geta einnig stefnt að stúdentsprófi samhliða námi. Að námi loknu útskrifast nemandi með prófskírteini sem vottar að hann hafi lokið námi með fullnægjandi árangri.
Námsmat Lögð er áhersla á leiðsagnarmat og símat sem gefur nemendum uppbyggilega og hvetjandi leiðsögn og metur vinnuframlag þeirra jafnt og þétt yfir námstímann. Námsmat er fjölbreytt og aðferðir taka mið af fjölbreyttum kennsluháttum, námsmarkmiðum og hæfni nemenda. Námsmat á brautinni er fólgið í símati og lokaprófi eða eingöngu símati. Nánari tilhögun námsmats s.s. skiladagar verkefna og vægi kemur fram í námsmatsreglum skólans.
Starfsnám: Nemandinn þarf að fara á námssamning í 48 vikur hjá meistara. Starfsþjálfun er 80 einingar. Gert er ráð fyrir að ferilbók fylgi nemanum þar sem listaðir eru upp þeir þættir sem meistarinn ber ábyrgð á að nemandinn öðlist þjálfun og færni í.
Reglur um námsframvindu: Námstími er 3 ár í skóla og 48 vikur í starfsþjálfun. Til að standast námsmat í áfanga og fá heimild til að hefja nám í eftirfarandi áfanga þarf lágmarkseinkunnina 5. Reglur um námsframvindu eru birtar í skólanámskrá.
Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

  • setja upp og hafa eftirlit með raflögnum og rafbúnaði í byggingum, skipum, bátum og raforkudreifikerfum, í samræmi við gildandi reglugerðir og staðla.
  • annast viðhald rafvéla og raftækja ásamt nýlögnum og rekstri rafkerfa í farartækjum á sjó og landi.
  • lesa raflagnateikningar vegna uppsetningar, bilanaleitar og viðhalds rafbúnaðar. Hann getur útskýrt virkni búnaðarins út frá teikningunum og magntekið og unnið verkáætlanir eftir þeim.
  • þekkja búnað raftækja, rafvéla, iðntölvustýringa, stýribúnaðar og forritanlegra raflagnakerfa og annast uppsetningu þeirra og viðhald.
  • nýta grunnþekkingu á vélbúnaði og hugbúnaði tölvukerfa og þekkja helstu hugtök er varða lýsingartækni og ákvarða lýsingarþörf við mismunandi aðstæður.
  • nota viðeigandi mælitæki við störf sín, gera bilanaleit og gera við rafbúnað og raflagnir.
  • trygga öryggi og viðhafa viðeigandi varnarráðstafanir í rafiðnaði og þekkja tengsl við eftirlitsstofnanir vegna eftirlits og öryggismála.
  • sýna fagmennsku og siðferðisvitund við allar aðstæður og geta viðhaldið faglegri þekkingu sinni með námskeiðum, öflun upplýsinga á internetinu og með öðrum hætti, á íslensku og a.m.k. einu erlendu tungumáli.
  • tjá sig af öryggi, munnlega og skriflega, s.s. með verkdagbókum, vinnuseðlum og skýrslum.
  • vinna sjálfstætt, meta eigin getu og forgangsraða viðfangsefnum, greina hvaða aðferðir eiga við hverju sinni og rökstyðja aðferðir sem hann notar.
  • leiðbeina öðrum, sýna leikni í samstarfi og samskiptum við samstarfsfólk og taka fullt tillit til þarfa viðskiptavina og aðstæðna.
  • þekkja skipulag og uppbyggingu fyrirtækja og stofnana rafiðnaðarmanna og gera sér grein fyrir hlutverki þeirra.

Einingafjöldi Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni

260  fein.

Kjarni Skylduáfangar brautarinnar


Brautarkjarni
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Hlutfall eininga á þrepum í kjarna
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
 
 
 
 

Bundið áfangaval

2 af 5
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Fjöldi eininga (framhaldsskólaeininga) sem nemendur þurfa að velja: " 2 af 5

Frjálst Val Aðrir óskilgreindir áfangar sem nemendur geta valið/metið á námsbrautinni

Nei, frjálst val er ekki leyft

Grunnþættir og lykilhæfni Hvernig unnið er með grunnþætti og lykilhæfni

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar:
  • Mikið reynir á talna- og upplýsingalæsi nemenda í fjölmörgum áföngum brautarinnar þ.á.m. lokaverkefninu. Þar eru gerðar kröfur um vinnubrögð á háskólastigi, þ.e. að nemendur séu læsir á upplýsingar frá ólíkum miðlum, geti nýtt sér margvíslega tækni í upplýsingaleit, aflað gagna, flokkað þau og nýtt sér upplýsingarnar á gagnrýninn hátt. Nemendur fá þjálfun í að lesa, meta, túlka og kynna tölfræðilegar og myndrænar upplýsingar.
Námshæfni:
  • Á námstímanum er unnið að því að efla sjálfstæð vinnubrögð nemenda og gera þá ábyrga í náminu. Nemendur greina styrkleika sína og veikleika og fá aðstoð við að setja sér raunhæf námsmarkmið, forgangsraða verkefnum, skipuleggja nám sitt og vinnutíma. Kennslu- og námsaðferðir eru fjölbreyttar og nemendur þjálfast í að vinna ólík verkefni sem reyna á ýmsa hæfni. Þeir fá þjálfun í að deila þekkingu sinni með öðrum og er það gert t.d. í gegnum hópavinnu, paravinnu, kynningar á verkefnum samvinnunám og fleira. Nemendur læra að meta eigið vinnuframlag og annarra t.d. með sjálfsmati og jafningjamati. Með stigvaxandi kröfum í námi lærir nemandi að takast á við ný verkefni og áskoranir, yfirstíga hindranir og nýta fyrri reynslu, þekkingu og skilning við úrlausn nýrra verkefna.
Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar:
  • Í gegnum skólastarfið nýta nemendur sköpunarkraft sinn á margvíslegan hátt í lífi og starfi innan skólans og utan. Í skólanum eru settar upp leiksýningar, listsýningar, söngkeppnir og ýmsar skemmtanir sem krefjast þess að nemendur sýni frumkvæði, sjálfstæði og skapandi hugsun og nýti þekkingu sína til að skapa og búa til eitthvað nýtt og draga lærdóm af. Félagslífið skipar þar stóran sess og má helst nefna leiklist og tónlist í því sambandi. Í gegnum félagslífið öðlast nemendur skilning á tengslum menningar og listar við atvinnusköpun og samfélagsþróun. Í náminu vinna nemendur verkefni og skila þeim af sér með ólíku sniði t.d. sem myndbandi, vefsíðu, veggspjaldi, bæklingi, úrklippum, munnlegri kynningu, ferilmöppu eða smásögu. Þá reynir á frumkvæði og skapandi hugsun og að nemendur geti miðlað þekkingu sinni og hæfni á skapandi hátt og með ólíkum leiðum.
Menntun til sjálfbærni:
  • Í öllu skólastarfinu er lögð áhersla á sjálfbærni og sjálfbæra hugsun. Unnið er að því að nemendur verði virkir og ábyrgir borgarar bæði í samfélaginu og umhverfi sínu. Lögð er áhersla á að nemendur skilji hvernig vistkerfi jarðar setur manninum takmarkanir, sanngjarna skiptingu auðlinda og skynsamlega nýtingu þeirra. Nemendur vinna með upplýsingar um eigin neysluvenjur og setja í samhengi við nýtingu náttúruauðlinda. Einnig taka þeir þátt í samræðum sem varða umhverfisvitund og sjálfbærni á ábyrgan og rökrænan hátt. Nemendur taka ábyrga og upplýsta afstöðu til umhverfismála og nýtingu náttúruauðlinda. Lögð er áhersla á að nemendur virði mannréttindi, skoðanir annarra og umhverfi sitt.
Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum:
  • Nemendur eru hvattir til að tjá sig á erlendum tungumálum í því tungumálanámi sem þeir leggja stund á. Nemendur fá fjölbreytta texta til að vinna með, tjá sig bæði munnlega og skriflega um innihald textanna og auka orðaforða sinn um leið. Einnig er lögð rík áhersla á samræðu og tjáningu í ræðu og riti t.d. um bókmenntir og kvikmyndir. Í tungumálanáminu er leitast við að veita nemendum innsýn í ólíka menningarheima og siði sem einkennir þau landsvæði þar sem viðkomandi mál er talað. Í mörgum öðrum greinum en tungumálum kynna nemendur sér ítarefni og nýta sér heimildir á erlendu tungumáli í tengslum við verkefnavinnu og fá þannig þjálfun í að lesa viðkomandi fagmál. Skólinn leitast við að taka þátt í samskiptum við skóla og skyldar stofnanir erlendis og er lögð áhersla á að nemendur taki þátt í erlendum samstarfsverkefnum.
Heilbrigði:
  • Skólinn tekur þátt í verkefni um heilsueflandi framhaldsskóla. Lögð er áhersla á heilsusamlegan lífsstíl, næringu, hreyfingu og geðrækt. Nemendur eru ábyrgir fyrir eigin heilsu, líkamlegri og andlegri og taka ábyrga afstöðu til eigin velferðar og heilbrigðis. Að loknu námi þekkja nemendur gildi reglulegrar hreyfingar og mikilvægi fjölbreyttrar og næringarríkrar fæðu. Við skólann er markvisst unnið að fræðslu sem tengist forvörnum. Markmið slíkrar fræðslu er að nemendur séu meðvitaðir um skaðsemi tóbaksnotkunar, áfengisneyslu og notkunar annarra vímuefna ásamt því að þeir taki afstöðu gegn einelti og öðru ofbeldi og hverskonar mismunun. Fjallað er um neyslu og fíkn, tengsl hugar og líkama og ýmsa félagslega þætti sem stýra hegðun og athöfnum einstaklinga og hafa áhrif á heilbrigði og lífsstíl.
Læsi, tjáning og samskipti á íslensku:
  • Með auknu símati í skólanum er lögð áhersla á vinnu nemenda þar sem reynir á alla þætti læsis, tjáningar og samskipta. Í skólastarfinu reynir á samskiptahæfni og samskipti nemenda t.d. í félagslífinu og við alls kyns verkefnavinnu. Má þar nefna kynningar nemenda á verkefnum sínum, í gegnum samræðu í para- og hópavinnu, í umræðum og með þátttöku í félagsstörfum. Nemendur fá þjálfun í að svara spurningum á málefnalegan hátt og að rökstyðja skoðanir sínar og niðurstöður í ræðu og riti. Með aukinni þjálfun, stíganda í námi og sérhæfingu verður orðaforði nemenda fjölbreyttari og málið blæbrigðaríkara.
Lýðræði og mannréttindi:
  • Í skólanum er stuðlað að því að gera nemendur að virkum og ábyrgum þátttakendum í lýðræðissamfélagi t.d. með nemendaþingi þar sem nemendum er skipt í smærri hópa og þeir fá ákveðið viðfangsefni til að fjalla um, mynda sér skoðun á og skila tillögum/ábendingum um hvað vel er gert eða betur má fara. Ýmis málefni geta verið í brennidepli t.d. skólareglurnar, félagsstörfin, aðbúnaður og þjónusta. Í skólanum er kennslumat lagt fyrir nemendur en í slíku mati meta nemendur kennslu, aðstöðu og námsefni í þeim áföngum sem þeir eru skráðir í. Niðurstöðurnar eru notaðar til að bæta gæði kennslunnar. Að auki er lögð fyrir nemendur þjónustukönnun en þar er lagt upp með að meta ýmsa þjónustu sem skólinn veitir nemendum t.d. þjónustu bókasafns, skrifstofu, mötuneytis o.s.frv. Að auki eiga nemendur fulltrúa í skólaráði og skólanefnd, í skólanum er einnig starfrækt hagsmunaráð nemenda og nemendafélag. Nemendur vinna ýmis verkefni sem fjalla t.d. um mannréttindi, siðferðisvitund og lýðræði og eru hvattir til umburðarlyndis og virðingar fyrir mismunandi lífsgildum. Með virkri þátttöku í skólastarfinu, náminu og með þeim tækifærum sem nemendum bjóðast til áhrifa þjálfast þeir í því að vera virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðissamfélagi.
Jafnrétti:
  • Í skólanum er í gildi jafnréttisáætlun sem segir að stuðla skuli að því að hver einstaklingur nýti hæfileika sína og krafta sem best, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, kynferði, kynhneigð, litarhætti, þjóðerni, trú, búsetu eða efnahag. Jafnframt er stefnt að því að tryggja hverjum og einum viðfangsefni og menntun við hæfi. Lögð er áhersla á að starfið á brautinni stuðli að jöfnum rétti kynja til náms og að nemendur séu hvattir til að velja sér nám eftir áhuga. Með þessu er leitast við að gera nemendur meðvitaða um áhrif fyrirmynda og staðalmynda á eigin ímynd og lífsstíl og að þeir geti myndað sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu. Nemendur vinna ýmis verkefni sem tengjast jafnrétti í víðum skilningi t.d. fordómum, fjölmenningu, kynhneigð, fötlun og trúarbrögðum. Þá læra nemendur að greina áhrif ýmissa þátta á líf einstaklinga og hópa, t.d. stéttar, trúarbragða, þjóðernis, kynhneigðar, litarháttar, búsetu o.fl.