Námsbraut

Titill brautar: Námsleið: Námslok:
Opin braut (Staðfestingarnúmer 145) 17-145-3-6 stúdent hæfniþrep 3
Lýsing: Á opinni braut er áhersla lögð á að byggja upp almennan sterkan þekkingargrunn með því að nemendur aðlaga námið að þörfum sínum og áhugasviðum. Brautinni lýkur með stúdentsprófi og þar með býr nemandinn yfir þekkingu, leikni og hæfni til að takast á við nám á háskólastigi. Við samsetningu námsins tryggir nemandi sér að námið veiti honum réttan undirbúning undir það framhaldsnám sem hann hyggst leggja stund á.

Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar

Inntökuskilyrði: Inntökuskilyrði á opna braut eru að nemandi hafi fengið einkunnina A, B+ eða B í íslensku, ensku og stærðfræði við lok grunnskóla. Hafi nemandi undir því viðmiði (C+) getur hann innritast á stúdentsbraut en tekur áfanga á fyrsta þrepi í viðkomandi greinum.
Skipulag: Nám á opinni braut er alls 200 einingar, það er fyrst og fremst bóklegt og fer fram í skólanum. Á brautinni er lögð áhersla á 90 eininga kjarna, þar sem nemendur taka m.a. þverfaglegan áfanga í náttúru- og menningarlæsi (10 ein). Á brautinni er boðið upp á opið val (110 ein) á 1-4 þrepi. Þar getur nemandinn valið úr öllu námsframboði skólans. Þær einingar geta verið af hvaða tagi sem er en við skipulagningu náms á opinni braut er nauðsynlegt að nemendur hafi samráð við fagaðila innan skólans. Í lok námsins vinna nemendur að valbundnu þverfaglegu viðfangsefni (5 ein). Mikilvægt er að allir nemendur skipuleggi nám sitt með aðgangsviðmið háskóla í huga eftir því sem við á. Kennsluaðferðir eru verkefnamiðaðar. Kappkostað er að skapa nemendum gott námsumhverfi og andrúmsloft þar sem umræður og skoðanaskipti eru eðlilegur hluti af náminu. Í öllum námsgreinum er lögð áhersla á að þar fari fram vinna sem tekur á grunnþáttum menntunar.
Námsmat Námsmat er fjölbreytt, stuðst er við heildrænt námsmat sem felur í sér að námsmat á brautinni byggist á skólastarfi þar sem nemendur fást við sem raunverulegust viðfangsefni. Matið byggir á að þeir beiti þekkingu sinni, leikni og hæfni. Námsmatið skal vera réttmætt og áreiðanlegt og umfang þess í samræmi við nám og kennslu viðkomandi áfanga. Það byggir á margvíslegum námsmatsaðferðum og skal fela í sér traustar heimildir um hæfni nemenda. Námsmatsaðferðir geta verið skriflegar, munnlegar, á rafrænu formi eða verklegar, falið í sér sjálfsmat, jafningjamat, leiðsagnarmat, símat og lokamat. Nánari tilhögun námsmats er í höndum kennara hverrar faggreinar. Við upphaf hvers áfanga skal kynna nemendum kennsluáætlun, námsmarkmið og tilhögun námsmats í áfanganum. Kennarar meta vinnu nemenda yfir önnina og geta nemendur fylgst jafnharðan með einkunnagjöf í rafrænu námskerfi skólans. Við lok annar eiga nemendur þess kost að ræða við kennara um niðurstöður lokamatsins í einstaka áföngum.
Starfsnám:
Reglur um námsframvindu: Námstími til stúdentsprófs er þrjú ár og þarf nemandi að ljúka 33-34 einingum á önn til að ljúka á þeim tíma. Einkunnir eru gefnar í heilum töum frá 1-10. Til að standast áfanga þarf nemandi að fá einkunnina 5. Nemendur þurfa að ná að lágmarki 15-20 einingum á önn. Um frekari námsframvindu er vísað í reglur skólans.
Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

 • afla sér upplýsinga, meta þær, vinna úr þeim og túlka þær
 • sýna frumkvæði og skapandi hugsun við lausnamiðað nám
 • efla eigin sjálfsmynd og nýta styrkleika sína
 • leita fullnægjandi raka fyrir skoðunum sínum og annarra
 • gera sér grein fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni
 • taka þátt í lýðræðislegri samræðu og samstarfi
 • nálgast viðfangsefni sín og umhverfi á víðsýnan, umburðarlyndan og ábyrgan hátt
 • fjalla um og taka þátt í upplýstri umræðu um ýmis mál er tengjast samspili vísinda, tækni og samfélags
 • beita aðferðum þeirra greina sem hann sérhæfir sig í og velja viðeigandi rannsóknaraðferð hverju sinni
 • nýta sérþekkingu sína sem hann hefur öðlast á brautinni til frekara náms eða starfs

Einingafjöldi Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni

200  fein.

Kjarni Skylduáfangar brautarinnar


Kjarni - Opin braut
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Hlutfall eininga á þrepum í kjarna
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
 
 
 
 

Bundið pakkaval

Bundið val - þriðja mál
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Bundið val - þriðja mál
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Bundið val - þriðja mál
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Fjöldi pakka sem nemendur velja: 1 af 3

Bundið pakkaval

Bundið val - stærðfræði (félagsgreinar og alþjóðabraut)
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Bundið val - stærðfræði (raungreinar og viðskipta og hagfræðigr.)
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Fjöldi pakka sem nemendur velja: 1 af 2

Frjálst Val Aðrir óskilgreindir áfangar sem nemendur geta valið/metið á námsbrautinni

Lýsing: Val 110 ein á 1-4 þrepi. Hafa þarf i huga við allt val að einingar á fyrsta þrepi geta verið 66 að hámarki, annars þreps einingar 100 að hámarki og það þurfa að vera að lágmarki 34 einingar á þriðja þrepi.

Grunnþættir og lykilhæfni Hvernig unnið er með grunnþætti og lykilhæfni

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar:
 • Samkvæmt upplýsingatæknistefnu skólans er markmiðið að nýta upplýsingatæknina sem verkfæri í starfi skólans til að þróa framsækna kennsluhætti og námsaðferðir og efla þannig nám og kennslu. Skólinn leggur áherslu á að allir nemendur fái tækifæri til að tileinka sér nauðsynlega tölvufærni og upplýsingalæsi til að afla sér upplýsinga, þekkingar og getu til að vinna úr upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt. Færni í notkun tölva og meðferð upplýsinga er sjálfsögð krafa á vinnumarkaðnum og skólinn vill undirbúa nemendur sína til starfa í alþjóðlegu þekkingar- og upplýsingasamfélagi framtíðarinnar. Skólinn vill sýna frumkvæði og forystu um nýtingu upplýsingatækni til að stuðla að bættum árangri, betra námi og kennslu, betri þjónustu og aukinni skilvirkni.
 • Í fjölmörgum áföngum skólans eru gerðar kröfur um að nemendur séu læsir á ýmis forrit og geti nýtt sér upplýsingar frá ólíkum miðlum. Einnig geti þeir nýtt sér margvíslega tækni í upplýsingaleit, s.s. aflað gagna, flokkað þau og notað upplýsingarnar á gagnrýninn hátt. Allir nemendur taka þverfaglega áfanga í náttúru- og menningarlæsi (20 fein.) þar sem þeir nýta sér bækur, blöð, internet, kvikmyndir, kort, töflur, línurit og gröf í verkefnum sínum auk þess að þjálfast í algengum reikniaðferðum og tölfræði. Þannig eru nemendur t.d. efldir í fjármálalæsi og úrvinnslu ganga úr vettvangsferðum.
 • Áhersla er lögð á að þjálfa nemendur í heimildaleit og að þeir séu gagnrýnir á heimildir og komi auga á mögulega galla í framsetningu á heimildum. Fjallað er um mikilvægi höfundarréttar og ábyrgð í þeim efnum.
Námshæfni:
 • Samkvæmt menntastefnu MK er lögð áherla á að nemendur geri alltaf sitt besta og leggi rækt við hæfileika sína. Þeir séu virkir í náminu, læri sjálfstæð vinnubrögð, stundi skólann af alúð og áhuga og axli ábyrgð á námi sínu, framkomu og samskiptum. Nemendur geti aflað sér almennrar menntunar á helstu meginsviðum menningar, umhverfis og samfélags og tileinki sér grunnþætti menntastefnu aðalnámskrár. Þeir læri að taka virkan þátt í samfélaginu, vinna með öðrum, fjalla um álitamál og leysa úr ágreiningi, hugsa á gagnrýninn hátt, útskýra og miðla, horfa til framtíðar og láta gott af sér leiða. Þeir hafi trú á eigin getu og hæfileikum til að beita námshæfni sinni í margvíslegum viðfangsefnum á uppbyggilegan hátt.
 • Í þverfaglegum áföngum menningarlæsi og náttúrulæsi, sem allir nemendur á fyrsta ári taka, eru nemendur þjálfaðir í sjálfstæðum vinnubrögðum, vinnulagi, samvinnu við aðra, aðferðafræði og mismunandi námsaðferðum. Í sömu áföngum vinna nemendur með margvísleg gögn sem leggja þarf mat á og vinna úr. Þá þurfa nemendur að kynna niðurstöður í minni og stærri hópum og deila þekkingu sinni með öðrum. Nemendur öðlast reynslu í að skipuleggja tíma sinn og viðfangsefni, efla sjálfstæði sitt og virkni. Þannig öðlast þeir smá saman reynslu, þekkingu og skilning sem á að nýtast þeim til að efla styrkleika sína í áframhaldandi námi.
 • Í þverfaglegu lokaverkefni er lögð áhersla á að þjálfa nemendur í öflun og meðferð heimilda, að meta fræðileg gögn sem tengjast viðfangsefninu og að leiðbeina þeim í að koma þekkingu sinni á efninu fram á skýran hátt. Markmiðið er að dýpka þekkingu og skilning nemenda með því að auka ábyrgð þeirra og sjálfstæði í námi og efla með þeim frumkvæði, gagnrýna hugsun, ályktunarhæfni og framtíðarsýn. Kennsla í áfanganum er með dreifnámssniði og leiðsagnarmat notað til að veita nemandanum endurgjöf. Leiðarbók er notuð yfir önnina og fá nemendur tækifæri til að ígrunda eigið nám jafnt og þétt. Áfanginn er undirbúningur í vinnubrögðum fyrir nám á háskólastigi.
Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar:
 • Unnið er að því að búa nemendur undir störf og frekara nám, auka með þeim ábyrgðarkennd og víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi, þjálfa þá í öguðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja þá til stöðugrar þekkingarleitar. Í flestum námsgreinum reynir á frumkvæði og skapandi hugsun og iðulega þurfa nemendur að sýna hæfni sína á þessu sviði í alls kyns verkefnum, kynningu á þeim og flutningi.
 • Í lokaverkefni reynir á hagnýtingu þekkingar og skapandi hugsun nemendanna þar sem þeir velja sér þverfaglegt viðfangsefni og vinna út frá því frá fleiri en einni hlið. Áhersla er á að þeir samþætti þekkingu sína og leikni á sama tíma og þeir þjálfast í að tjá skoðanir sínar og útskýra verklag sitt á ábyrgan, gagnrýninn og skýran hátt. Markmiðið er að dýpka þekkingu og skilning nemenda með því að auka ábyrgð þeirra og sjálfstæði í námi og efla með þeim frumkvæði, skapandi hugsun, ályktunarhæfni og framtíðarsýn.
 • Í félagslífi nemenda eru margir þættir sem teljast skapandi starf s.s. leiklistaráfangi og árviss uppsetning á leikriti, skrif í skólablað, sönglist, framsagnarnámskeið o.fl., þá njóta nemendur lista og menningar utan skólans og fara í leikhús með kennurum í ákveðnum áföngum í íslensku og á tónleika í menningarlæsi.
Menntun til sjálfbærni:
 • Í umhverfisstefnu skólans er lögð áhersla á að efla menntun nemenda á sviði umhverfismála og í undirbúningi er að vinna eftir alþjóðlegum stöðlum ISO 14000 varðandi umhverfismál. Í öllu skólastarfinu, jafnt í námi sem rekstri skólans, er lögð áhersla á sjálfbærni og sjálfbæra hugsun. Unnið er að því að nemendur verði virkir og ábyrgir borgarar bæði gagnvart samfélaginu og umhverfi sínu.
 • Nemendur eiga að þekkja, skilja og virða umhverfi sitt og náttúru og hafa skilning á að náttúruauðlindir jarðarinnar eru takmarkaðar. Í samræmi við umhverfisstefnu skólans, sem er grundvölluð á þeirri vissu að endurnýting sé svarið við þverrandi uppsprettu náttúrulegra hráefna, er fullkomið flokkunarkerfi á sorpi í skólanum.
 • Á hverri haustönn eru umhverfisvika, þar sem boðið var upp á fyrirlestra, vinnustofur og kvikmyndir um umhverfismál með þátttöku allra nemenda. Áherslur eru á náttúruvernd, umhverfisvænan ferðamáta, loftlagsbreytingar, landvernd, sjálfbært samfélag, vistheimt og kolefnisbindingu, vistspor Íslands, gróðurhúsaáhrif, umhverfisvænan mat og lífsstíl o.fl. Hlutverk umhverfisdaga er að nemendur fái aukna ábyrgðartilfinningu og virðingu gagnvart nærumhverfinu, þeir beiti gagnrýnni hugsun og geri sér grein fyrir hnattrænum áhrifum.
 • Í áfanganum náttúrulæsi þarf nemandinn að vera meðvitaður um sitt eigið umhverfi, nærumhverfi (Ísland) og fjærumhverfi (heiminn). Hann er hvattur til umhugsunar, rökræðna, upplýsingaöflunar og að leita sem víðast fanga í viðfangsefninu sem snertir m.a. orku og umhverfi, tækni og umhverfi, fæðuframleiðslu, náttúruvernd, iðnað og landnýtingu, úrgang, landnýtingu og skipulagsmál, loftslagsbreytingar af manna völdum o.fl. Þannig öðlast nemandinn skilning og virðingu fyrir sameiginlegri ábyrgð mannkyns á jörðinni.
Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum:
 • Í skólanum er lögð áhersla á erlend samskipti og reynt að sjá til þess að nemendur skólans eigi þess kost á námstíma sínum að taka þátt í nemendaskiptaverkefnum eða taka valáfanga sem ganga út á að undirbúa heimsóknir til annarra landa. Einnig að nemendur taki þátt í fagkeppnum í sérgreinum sínum erlendis s.s. ferðagreinum og víkki þar með sjóndeildarhring sinn á fagsviðinu.
 • Í tungumálanámi skólans eru nemendur þjálfaðir í öllum málfærniþáttum; hlustun, lesskilningi og munnlegri og skriflegri tjáningu. Nemendur afla sér upplýsinga á erlendum tungumálum og túlka þær. Með lestri bókmennta og sérvalinna rauntexta, auk hlustunar og áhorfs á myndefni öðlast nemendur innsýn í menningu og siði sem einkennir þau landsvæði þar sem tungumálið er talað. Mál þeirra verður með tímanum blæbrigðaríkara og orðaforði fjölbreyttari.
 • Í mörgum öðrum greinum en tungumálum vinna nemendur með námsgögn og ítarefni á erlendum tungumálum. Þeir nýta sér heimildir í tengslum við verkefnavinnu og fá þannig nokkra þjálfun í að lesa viðkomandi fagmál. Mælt er með að nemendur nýti sér erlenda heimild/-ir í lokaverkefni sínu eftir því sem við á.
Heilbrigði:
 • Með heilsustefnu á sviði heilsueflingar og forvarna vill skólinn hafa áhrif á allar daglegar venjur og starf í skólanum og stuðla þannig að betri líðan og auknum árangri nemenda í námi og starfi. Unnið er að því að þeir hafi meðvitund um gildi heilsuræktar í sem víðustum skilningi. Lögð er áherslu á að nemendum skólans líði vel í starfi og leik og taki upplýsta ákvörðun um hvaða lífsstíl þeir velja sér.
 • Nemendum stendur til boða hollur og góður matur í mötuneyti skólans í samræmi við handbók um mataræði í framhaldsskólum. Stuðlað er að aukinni neyslu á hollum mat og auknum skilningi á mikilvægi þess að nemendur tileinki sér heilsusamlegar matarvenjur.
 • Nemendur eru hvattir til aukinnar hreyfingar, að þeir leggi rækt við eigin heilsu og ástundi heilbrigt líferni. Efld er meðvitund um gildi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega heilsu til framtíðar. Áhersla er lögð á að allir nemendur skólans sæki líkamsrækt sem skipulögð er af skólanum sem hluti af skólanámskrá.
 • Stuðlað er að því að nemendur átti sig á tengslum huga og líkama með uppbyggingu jákvæðrar sjálfsmyndar og heilbrigðum og árangursríkum samskiptum.
Læsi, tjáning og samskipti á íslensku:
 • Skólinn leggur áherslu á að í vinnu nemenda reyni mikið á alla þætti læsis, tjáningar og samskipta í áföngum skólans. Allir nemendur taka þverfaglega áfanga í náttúru- og menningarlæsi (20 fein.) og reynir þar mikið á samskipti og samkiptahæfni nemenda auk þess sem áhersla er lögð á tjáningu bæði í rituðu og töluðu máli við kynningu niðurstaðna. Nemendur þurfa að getra svarað spurningum á málefnalegan hátt og rökstutt skoðanir sínar og niðurstöður í verkefnaflutningi.
 • Í öllu íslenskunámi þjálfast nemendur í að koma máli sínu á framfæri í ræðu og riti. Nemendur lesa ólíkar gerðir texta sem tengjast námsefni og áhugasviði þeirra og með tímanum verður mál þeirra blæbrigðaríkara og orðaforði fjölbreyttari. Í íslenskuáföngum þurfa nemendur að gera grein fyrir skoðunum sínum og taka þátt í samræðum. Þeir vinna verkefni þar sem krafa er gerð um gott mál og fjölbreyttan orðaforða.
 • Í lokaverkefni þurfa nemendur að lesa fjölbreytta texta og tjá hugsanir sínar og skoðanir í verkefninu. Þeir eru efldir í að ígrunda eigin skoðanir um viðfangsefnið og setja þær fram á skipulagðan og á gagnrýninn hátt. Mikið er lagt upp úr því að nemendur útskýri og rökstyði mál sitt á skýran hátt.
Lýðræði og mannréttindi:
 • Í skólanum er unnið að því að gera nemendur að virkum og ábyrgum þátttakendum í lýðræðissamfélagi. Þetta er m.a. gert með því að leita reglulega eftir viðhorfum þeirra um ýmsa þætti í þeim tilgangi að bæta skólastarfið. Á hverri önn er lögð fyrir nemendur kennslukönnun þar sem þeir leggja mat sitt á skipulag og innihald áfanga, kennsluhætti, námsefni og námsmat. Þá eru lagðar fyrir nemendur þjónustukannanir um einstök svið skólans s.s. mötuneyti, bókasafn, skrifstofu, námsráðgjöf o.fl. Þessar niðurstöður eru notaðar til að bæta og setja af stað umbótaverkefni.
 • Nemendur sitja í skólaráði og skólanefnd og koma þar að ákvarðanatöku í einstökum málum sem og stjórnun skólans. Þá sitja þeir í ýmsum nefndum innan skólans fast eða tímabundið eftir verkefnum s.s. í umhverfisnefnd, jafnréttisnefnd, heilsuskólanefnd o.fl., koma sjónarmiðum sínum á framfæri og taka þátt í starfinu.
 • Í félagsvísindum og menningarlæsi er fjallað um lýðræði, alþingi, íslenskt samfélag, mannréttindi, ólíka menningarheima o.fl. lögð er áhersla á að nemendur verði hæfari til þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi, geti lagt gagnrýnið mat á átakaefni í íslenskum stjórnmálum og rökstutt slíkt mat með fræðilegum vinnubrögðum. Einnig að þeir geti lýst helstu viðfangsefnum stjórnmálafræði og skilgreint og beitt hugtökum eins og hugmyndafræði, stjórnkerfi, vald og lýðræði.
Jafnrétti:
 • Í öllu skólastarfi, námi, kennslu og skólanámskrá skal gæta jafnréttissjónarmiða. Jafnframt skal ýtt undir gagnrýna umfjöllun um hefðbundna kynjaskiptingu og kynhlutverk í námi eftir því sem tilefni gefst til. Í jafnréttisstefnu MK, sem innifelur jafnréttisáætlun fyrir skólann og skólastarfið auk aðgerðaráætlunar og mælikvarða, er lagður grunnur að stefnu og starfi skólans á sviði jafnréttis. Áætlunin hefur verið samþykkt af Jafnréttisstofu.
 • Unnið er markvisst að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og gegn neikvæðum staðalímyndum. Áhersla er lögð á að stuðla að sjálfsvirðingu og sjálfstæði beggja kynja. Áhersla er á að uppfræða nemendur sérstaklega um jafnrétti kynjanna og þeir þjálfaðir í að vinna gegn hvers kyns misrétti.
 • Lögð er áhersla á að gefa nemendum kost á að vera virkir og skapandi í starfi óháð kyni. Stefnt er að því að draga úr menningarbundnum kynhlutverkum (val á kynbundnum námsleiðum/hugmyndir um hefðbundin karla- og kvennastörf) með fræðslu og ráðgjöf.
 • Árlega stendur skólinn fyrir jafnréttisviku þar sem nemendum er boðið upp á fyrirlestra og kynningar á málefnum tengdum jafnrétti, kynjafræði og mannréttindum almennt. Jafnréttisvikan fer fram í byrjun marsmánaðar ár hvert. Sérstök aðgerðarnefnd er skipuð til að sjá um framkvæmd vikunnar og í henni sitja kennarar, starfsmenn og nemendur. Jafnréttisfulltrúi MK leiða starf nefndarinnar.
 • Kenndur er valáfangi í kynjafræðum. Í áfanganum eru nemendur fræddir um kynjaímyndir og áhrif neikvæðra staðalímynda. Jafnréttisnefndin ásamt kennurum félagsfræðibrautar sjá um skipulag og framkvæmd áfangans.