Námsbraut
Titill brautar: | Námsleið: | Námslok: |
Fótaaðgerðafræði (Staðfestingarnúmer 216) 17-216-3-8 | fótaaðgerðafræðingur | hæfniþrep 3 |
Lýsing: | Fótaaðgerðafræðingar meta ástand fóta, greina fótamein og meðhöndla þau fótamein, sem ekki krefjast sérstakrar læknisfræðilegrar meðferðar. Þeir ráðleggja um heilbrigði fóta, meðferð og forvarnir fótameina og þau úrræði sem finnast í heilbrigðiskerfinu þar að lútandi. Skipuleggja, framkvæma og meta eigin vinnu í samræmi við viðurkennda gæðastaðla og halda sjúkraskrár samkvæmt lögum þar um. Fótaaðgerðafræðingar beita margvíslegri meðferð svo sem hreinsun á siggi og nöglum, líkþornameðferð, vörtumeðferð og hlífðarmeðferð. Þeir ráðleggja einstaklingum um fótaumhirðu í þeim tilgangi að minnka verki, dreifa álagi og bæta göngulag. Þeir útbúa spangir, hlífar, leppa og innleggssóla. Markmið náms og kennslu á starfsmenntabrautum framhaldsskóla er að gera nemandann hæfan í starfsgrein sinni og þjálfa verklega færni sem nýtist honum til starfa á atvinnumarkaði. Nám í fótaaðgerðafræði miðar að því að þjálfa færni og hæfni nemanda til þess að standast kröfur heilbrigðis- og félagsþjónustunnar hverju sinni um fagleg vinnubrögð, nákvæmni og áreiðanleika. Námið býr nemandann undir störf við meðferð fótameina skjólstæðinga innan og utan stofnana. Sérstök áhersla er lögð á að þjálfa færni í að takast á við raunveruleg viðfangsefni þar sem fyrirmæli, verklýsing og vinnuaðferðir liggja fyrir. Jafnframt fær nemandinn þjálfun í að takast á við ófyrirséð verkefni og aðstæður sem krefjast þekkingar, hugkvæmni, hæfni í samskiptum og rökvísi. Við skipulag kennslu er mikilvægt að taka mið af þörfum starfsgreinarinnar. Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein samkvæmt lögum nr. 34/2012. Þeir sem ljúka námsbrautinni skv. námskránni, eða öðru jafngildu námi, geta sótt um starfsheitið fótaaðgerðafræðingur á grundvelli reglugerðar nr. 1107/2012. |
Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar
Inntökuskilyrði: | Grunnskólapróf. Til að hefja nám á öðru hæfniþrepi í dönsku, ensku, íslensku eða stærðfræði þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða að hafa lokið fyrsta þreps áfanga í þessum greinum. Enn fremur er miðað við að nemendur hafi náð 18 ára aldri þegar þeir hefja nám við sérgreinar fótaaðgerðafræðinnar. |
Skipulag: | Nám í fótaaðgerðafræði er samtals 199 einingar og skiptist í 48 eininga nám í almennum kjarna, 61 eininga nám í heilbrigðisgreinum sem er sameiginlegt öðrum heilbrigðisstéttum, og 90 eininga nám í bóklegum og verklegum sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar. Gert er ráð fyrir að nám í almennum kjarna og heilbrigðisgreinum taki 3-4 annir og að nemendur hafi alla jafna lokið því námi áður en þeir hefja nám í sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar. Sérnámið er skipulagt sem þriggja anna nám. Á lokaári námsins er áhersla lögð á vinnustaðanám þar sem sett er upp fótaaðgerðarstofa í skólanum þar sem nemendur fá með aðstoð faglærðs fótaðgerðafræðings að vinna með skjólstæðinga. Nemendur fara í fjölbreyttar vinnustaðaheimsóknir, t.d. á fótaaðgerðastofur, dvalar- og hjúkrunarheimili, heilsugæslustöðvar og til stoðtækjasmiða með það að markmiði að kynnast störfum fótaaðgerðafræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Lokaönnin einkennist af sérhæfingu og sérsniðnum meðferðarúrræðum. Námslok eru skilgreind sem próf til starfsréttinda á þriðja hæfniþrepi. |
Námsmat | Áhersla er lögð á hæfni nemenda á vegferð þeirra og mikilvægt að námsmatið styðji við þau markmið sem stefnt er að. Kennarar meta þekkingu og færni nemanda með fjölbreytilegum hætti. Námsmat getur m.a. byggst á prófum, símati, mati á verklegu námi og sjálfsmati nemanda. Umfang matsins skal að jafnaði vera í samræmi við kennslu í viðkomandi áfanga. |
Starfsnám: | Vinnustaðanám og þjálfun er skipulagt sem 20 eininga nám sem er blanda af þjálfun í skóla og heimsóknum á vinnustaði. Náminu er skipt í þrjá áfanga sem ætlað er að þjálfa nemendur í störfum fótaaðgerðafræðinga og kynna þeim vinnuumhverfi og mögulegan starfsvettvang. Helmingur vinnustaðanámsins er þjálfun í skóla og skipuleggur skólinn aðkomu skjólstæðinga. Þessum hluta námsins er ætlað að þjálfa nemendur í greiningu fótameina, vali og framkvæmdum meðferðarúrræða, færa sjúkraskýrslu/dagbók eftir því sem við á og meta gæði vinnuferlis. Enn fremur læra nemendur að vera meðvitaðir um öryggi á vinnustað, mikilvægi hreinlætis og smitvarna. Áhersla er lögð á viðtalstækni og getu til að ræða og skýra út forsendur meðferðarúrræða fyrir skjólstæðingum. Leitast er við að búa til umhverfi sem líkist fótaaðgerðastofu í rekstri þar sem skjólstæðingur getur pantað sér þjónustu að vild. Ætlast er til að nemendur öðlist verklega færni og sýni sjálfstæð vinnubrögð við meðhöndlun og ráðleggingar til skjólstæðings. Fjórðungur vinnustaðanámsins er vettvangsnám. Nemendur heimsækja stofnanir og fá þannig tækifæri til að kynnast ýmsum gerðum fótameina og taka þátt í umfjöllun um meðferðarúrræði. Enn fremur fylgjast þeir með störfum fótaaðgerðafræðinga. Fjórðungur vinnustaðanámsins er sérhæfing þar sem nemendum gefst kostur á að leita sérþekkingar á fótameinum, s.s. fótameinum sem einkenna sykursjúka, gigtveika, bæklaða, börn, aldraða eða íþróttamenn. Í þessum hluta er áhersla lögð á ferlið frá greiningu meins og fræðilegri þekkingu á því, val og útfærslu á meðferðarúrræði, rökstuðningi með vali, vandamál við meðferð, gæðamat, eftirfylgni og forvarnir. Við gerð þessa verkefnis er mikilvægt að nemandi nái að tengja saman verklegt og bóklegt nám og nýti upplýsingatæknina í sína þágu. Áhersla er lögð á að nemendur kynni verkefni sín í lokin. Unnið er eftir ferilbók þar sem verkefni fótaaðgerðafræðinga eru greind niður í einstök fótamein. Í ferilbók eru verklag og aðferðafræði skilgreind. Nemendur framkvæma meðferð á grundvelli ferilbókarinnar. Verknámskennara er falið að staðfesta að nemandi hafi fengið verklega þjálfun í þeim þáttum sem minnst er á í ferilbók og fullnægt þeim viðmiðum sem sett eru fram varðandi hæfni og gæði. Þetta er gert til að fylgjast með að nemandi fá þjálfun og kennslu í öllum þeim mismunandi fótameinum sem á fætinum geta myndast. |
Reglur um námsframvindu: | Einingafjöldi á brautinni er 199 einingar og útskrifast nemendur með hæfni á 3.þrepi. Til að ljúka náminu á þremur og hálfu ári þarf nemandi að ljúka 28 - 29 einingum á önn. Nánari skýringar á námsframvindu er að finna í skólanámskrá. |
Hæfniviðmið: |
Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...
|
Einingafjöldi Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni
199 fein. |
Kjarni Skylduáfangar brautarinnar
Hlutfall eininga á þrepum í kjarna
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
Frjálst Val Aðrir óskilgreindir áfangar sem nemendur geta valið/metið á námsbrautinni
Nei, frjálst val er ekki leyft