Námsbraut

Titill brautar: Námsleið: Námslok:
Leikstjórn og framleiðsla (Staðfestingarnúmer 240) 16-240-4-11 viðbótarnám við framhaldsskóla hæfniþrep 4
Lýsing: Nám á leikstjórnar- og framleiðslubraut er tveggja ára nám í kvikmyndagerð þar sem áhersla er lögð á kvikmyndaleikstjórn og framleiðslu. Nemendur fá faglega kennslu og mikla verklega þjálfun við að þróa, framleiða og leikstýra kvikmyndaverkum af öllu tagi. Nemandinn fær nána leiðsögn fagfólks; framleiðenda, leikstjóra og atvinnuleikara og fær sérstaka þjálfun í leikaraleikstjórn. Rík áhersla er lögð á listræna og skapandi þætti í náminu. Að loknu námi getur nemandi sótt um að ljúka BA gráðu við háskóla og er þá undir viðkomandi háskóla komið hvort og þá að hve miklu leyti námið er metið til háskólaeininga.

Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar

Inntökuskilyrði: Inntökuskilyrði á brautina er stúdentspróf af listnámsbraut eða sambærileg menntun. Umsækjendur undirgangast inntökupróf og eru ennfremur kallaðir í viðtal hjá inntökunefnd.
Skipulag: Nám í kvikmyndagerð – Leikstjórn/Framleiðsla - er 120 framhaldsskólaeiningar þar sem nemandi tileinkar sér hæfni á 4. þrepi. Náminu er skipt í 4 hluta sem skiptast niður á 4 annir: Kjarna (30 ein), sérgreinar (26 ein), stoðgreinar (20 ein), kvikmyndagerð (44 ein). Kennslan samanstendur af fyrirlestrum og samræðum við kennara, verklegum prófunum af ýmsu tagi og framleiðslu kvikmynda. Framleiðslan er ýmist með eða án kennara. Mikil áhersla er lögð á fjölbreytni í framleiðsluverkefnum þar sem framleitt er fyrir allar tegundir miðla. Jafnframt er lögð áhersla á einstaklingsmiðað nám þar sem hver nemandi þarf að skila sjálfstæðum höfundarverkum. Námið er að stærstum hluta verklegt en fræðilegi hlutinn er að meðaltali 20% í hverjum áfanga. Áfangar eru ýmist kenndir reglubundið yfir önnina eða í samfelldum námslotum. Kennarar og leiðbeinendur eru að stærstum hluta starfandi listamenn í faginu og að meðaltali 12 á hverri önn. Nemandi staðfestir hæfni sína við lok náms með stóru útskriftarverki (kvikmynd) sem metið er af utanaðkomandi dómnefnd.
Námsmat Námsmat tekur mið af þeim hæfniviðmiðum sem sett eru fram í áfangalýsingu. Í kennsluáætlun hvers áfanga er kynnt hvernig staðið verður að mati á vinnu nemenda. Niðurstöður námsmats eru samsettar úr einkunnargjöf og skriflegum umsögnum um verkefni og vinnu nemandans. Einkunnir eru gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Mæting, virkni og ástundun er metin inn einkunn. Áhersla er lögð á að sem flestir áfangar skili metanlegum afurðum helst listsköpun af einhverju tagi. Umgjörð og viðmið námsmats er útfært í námskrá.
Starfsnám:
Reglur um námsframvindu: Til að ljúka áfanga þarf nemandi að fá einkunnina 5. Nánar er kveðið á um námsframvindu og ástundun í skólanámskrá.
Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

  • vinna sem leikstjóri með persónulegan stíl, sem á grundvelli þekkingar og leikni nær því besta út úr leikurum og öðru samstarfsfólki,
  • vinna sem skapandi framleiðandi og faglegur framleiðslustjóri í kvikmyndum,
  • finna og meta hugmyndir og vinna þær til fullbúins handrits,
  • vinna sem skapandi kvikmyndagerðarmaður og stjórnandi á ýmsum tegundum kvikmyndaverka,
  • gera tilraunir á sviði listsköpunar,
  • miðla flóknum frásögnum með myndrænum hætti,
  • gera sér grein fyrir ábyrgð listamannsins gagnvart samfélagi og umhverfi,
  • stunda framhaldsnám í kvikmyndagerð.

Einingafjöldi Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni

120  fein.

Kjarni Skylduáfangar brautarinnar


Leikstjórn og framleiðsla
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Hlutfall eininga á þrepum í kjarna
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
 
 
 
 

Frjálst Val Aðrir óskilgreindir áfangar sem nemendur geta valið/metið á námsbrautinni

Nei, frjálst val er ekki leyft

Grunnþættir og lykilhæfni Hvernig unnið er með grunnþætti og lykilhæfni

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar:
  • Aðalnámsefni brautarinnar sem tekur yfir 60% áfanga er myndmálið sem tjáningarform. Nemendur læra að lesa og skilja myndmál. Þeir læra að kryfja myndmál og setja það í fræðilegt samhengi. Þeir læra að miðla frásögnum og tilfinningum með myndmáli.
  • Læsi á tölur og talnaupplýsingar er þjálfað inn á afmörkuðum sviðum innan kvikmyndagerðar og myndmáls; Við útreikninga og kostnaðaráætlunargerð vegna framleiðslu, við útreikninga vegna kvikmyndatöku og linsufræða, við meðhöndlun mynd- og hljóðefnis inni í tölvuforritum.
Námshæfni:
  • Nám við deildir KVÍ er góður undirbúningur undir sérhæft framhaldsnám í kvikmyndagerð á háskólastigi.
  • Í náminu er markvisst unnið að því að efla sjálfstæði nemenda í vinnubrögðum og þeim kennt að bera persónulega ábyrgð á verkferlum og framleiðslu. Allir nemendur framleiða að lágmarki tvær kvikmyndir sem þeir bera lykilábyrgð allt frá hugmynd til frumsýningar.
  • Í náminu er markvisst unnið að því að efla samvinnuhæfileika nemenda, bæði í óskilgreindum kerfum þar sem nemandi þarf sjáfur að marka sér stöðu innan hóps eða í samskiptum, en fyrst og fremst innan skipulagðra kerfa kvikmyndagerðar þar sem öguð samvinna er nauðsynleg til árangurs.
  • Í gegnum allt námið þurfa nemendur stöðugt að þjálfa sig í að virkja flæði hugmynda, meðhöndla hugmyndir með handverki eða tjáningu og setja hugmyndir í fræðilegt samhengi. Í lok hvers áfanga fær nemandi leiðbeinandi umsögn og endurgjöf. Í framvindu námsins setur nemandinn upp eigin viðmið og öðlast þekkingu og reynslu til að leggja faglegt mat á eigin verk og annarra.
  • Áhersla er lögð á að nemendur fái aðgengi að fjölbreyttum hópi kennara og leiðbeinenda. Í listnámi er persónulegt samband nemanda og kennara óvenju mikilvægt. Bæði nemendur og kennarar eru stöðugt að leita að samhljómi þar sem námshæfni og kennsluhæfni mynda bestu mögulegu samvirkni („synergi“). Með fjölda og úrvali kennara aukast líkur á að þetta takist.
Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar:
  • Í öllum námsgreinum innan kvikmyndagerðar er skapandi hugsun í öndvegi, bæði í verklegum og bóklegum fögum.
  • Í skólastefnu segir: Reynt er að láta nemandann fyrst nálgast kennsluefnið á skapandi hátt, síðan er handverkið kennt og að lokum fræðin. Kennslufræðilega nálgunin er alltaf í þessari röð, sama hver námsgreinin er: Sköpun, handverk, fræði. Geta nemandans til að hugsa og framkvæma á skapandi hátt er það sem mun ráða endanlegri hæfni hans. Þess vegna er lykilatriði að hefja vegferðina með því að nemandinn uppgötvi og þjálfi strax sköpunarhæfileika sína.
  • Markmiðið er, eftir því sem sem þekking og reynsla eykst, að skapandi nálgun við úrlausnir verkefna verði ómeðvituð og sjálfsögð. Þá er hægt að setja fókusinn á handverkið og túlkunina sem endurspeglun hinnar skapandi hugsunar.
Jafnrétti:
  • Áhersla er lögð á að jafnrétti endurspeglist í öllum starfsháttum skólans, samskiptum og skólabrag.
  • Í siðareglum skólans sem birtar eru í námskrá skólans segir: Kennarar/leiðbeinendur gæti þess að mismuna ekki nemendum og nemendur ekki kennurum, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, þjóðernis, trúarbragða, kynhneigðar, aldurs, fötlunar eða skoðana.
  • Í jafnréttisstefnu segir: Kvikmyndaskólinn leggur á það áherslu í sinni starfsemi að jafna hlut karla og kvenna í iðnaðinum. Til þess að nálgast þetta markmið þá er það markmið allra deilda að jafnt kynjahlutverk sé, bæði meðal nemenda og kennara. Kennurum/leiðbeinendum er gert að beina sérstakri hvatningu til kvenkynsnema, auk þess að gera kvikmyndagerð kvenna hátt undir höfði.
  • Í kvikmyndasögu, leiklistarsögu og listasögu er þess gætt að nemendur kynnist verkum listamanna af báðum kynjum og ólíkum kynþáttum. Nemendur skoða list frá öllum heimshlutum.
  • Í miðlum skólans er fjallað með kerfisbundu jafnræði um kvikmyndagerð frá ólíkum menningarsvæðum.
Menntun til sjálfbærni:
  • Áhersla er lögð á orkusparnað og rafrænar leiðir í kennslu sem og við framleiðslu kvikmyndaverka. Einnig leggur skólinn áherslu á flokkun sorps og endurvinnslu.
  • Veröldin í öllum sínum margbreytileika og víddum er hráefni kvikmyndagerðarmannsins. Skólinn leggur engar kvaðir eða skyldur á nemandann varðandi val á viðfangsefnum eða skoðanir sem hann setur fram. Hann nýtur frelsis. Honum er hins vegar gerð rækilega grein fyrir því að kvikmyndin er mjög áhrifamikill miðill sem hægt er að nota til að kalla fram breytingar á umhverfi sínu.
Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum:
  • Kvikmyndin er alþjóðlegur miðill. Erlendur málheimur er órjúfanlegur hluti af námi í kvikmyndagerð á Íslandi.
  • Nemendur læra kvikmyndasögu á öllum önnum og horfa með skipulegum hætti á fjölda erlendra kvikmynda á ýmsum tungumálum. Þar upplifa þeir fjölbreytta tjáningu erlendra tungumála.
  • Nær allar kennslubækur skólans eru á ensku og nemendur læra og þjálfast í sérhæfðri enskri málnotkun kvikmyndagerðar.
  • Skólinn er í margvíslegu erlendu samstarfi auk sem erlendir nemendur stunda þar nám sem kallar á fjölbreytt samskipti sem styrkir tungumálakunnáttu, eykur skilning og víðsýni nemenda.
Heilbrigði:
  • Kvikmyndaskólinn leggur áherslu á heilbrigða lífshætti í starfsemi sinni. Gengið er út frá því að nemendur beri ábyrgð á sjálfum sér og eigin gjörðum.
  • Nemendur hafa aðgang að eldhúsi og matsal í skólanum. Þar geta þeir geymt nesti sitt í kæliskáp og þar eru tæki til að hita upp mat, rista brauð og annað.
  • Nemendur bera ábyrgð á þrifum á mataraðstöðu sinni og er fylgst með því að þar sé gætt fyllsta hreinlætis og að umgengni sé til fyrirmyndar.
Læsi, tjáning og samskipti á íslensku:
  • Íslenska er tungumálið sem notað er við kennslu og í kvikmyndagerð brautarinnar (nema í undantekningatilvikum).
  • Íslenskum nemendum er gerð grein fyrir að íslenskan er þeirra verðmæti sem skapar þeim sérstöðu í kvikmyndagerð í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Hvert tungumál hefur sín einkenni og blæbrigði í tjáningu, tilfinningum og samskiptum. Þekking á íslenskri tungu eru þau gæði sem íslenskir nemendur hafa aðgang að í sinni sköpun sem kvikmyndagerðarmenn.
Lýðræði og mannréttindi:
  • Allt nám við brautina miðar að því að gera nemendur að næmum og vakandi listamönnum í samfélaginu.
  • Í siðareglum eru lagðar þær línur sem skólinn vill að nemendur tileinki sér í skólastarfinu og almennt að námi loknu: Gagnkvæm virðing, kurteisi og heiðarleiki skulu höfð að leiðarljósi í öllum samskiptum innan skólastarfsins, bæði meðal nemenda, starfsfólks og milli allra hópa.
  • Kennarar/leiðbeinendur virði réttindi nemenda sinna og hafi hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Kennarar/leiðbeinendur gæti þess að mismuna ekki nemendum og nemendur ekki kennurum, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, þjóðernis, trúarbragða, kynhneigðar, aldurs, fötlunar eða skoðana.