Námsbraut

Titill brautar: Námsleið: Námslok:
Tanntæknabraut (Staðfestingarnúmer 248) 17-248-3-8 tanntæknir hæfniþrep 3
Lýsing: Nám tanntækna er viðurkennt starfsnám með námslok á 3. hæfniþrepi. Námið skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar og sérgreinar brautar. Meginmarkmið tanntæknabrautar er að búa nemendur undir sérhæfð störf á tannlæknastofum og önnur störf er snúa að munn- og tannheilbrigði. Í náminu er lögð áhersla á fagleg vinnubrögð, góð samskipti, áreiðanleika og hæfni til að vinna sjálfstætt. Tanntæknir er lögverndað starfsheiti.

Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar

Inntökuskilyrði: Grunnskólapróf. Til að hefja nám á 2. hæfniþrepi í kjarnagreinum (íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku), þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða lokið fyrsta þreps áfanga í þeim greinum.
Skipulag: Námið er samtals 203 framhaldskólaeiningar (fein) og er sett upp sem þriggja ára nám. Það skiptist í bóklegar greinar (137 fein) og vinnustaðanám (66 fein) sem kennt er í samvinnu við Tannlæknadeild Háskóla Íslands. 22% námsins er á fyrsta þrepi, 50% á öðru þrepi og 28% á þriðja þrepi. Vinnustaðanám tekur tvær annir og þarf meginþorra bóklegra greina að vera lokið við upphaf þess. Á fyrstu fjórum önnunum öðlast nemendur almenna undirstöðumenntun í almennum greinum, almennum heilbrigðisgreinum og sérgreinum brautar. Á síðustu tveimur önnunum er kennsla og þjálfun í sérgreinum brautar sem nýtist nemendum við raunverulegar aðstæður.
Námsmat Námsmat getur verið mismunandi eftir áföngum en skólinn leggur áherslu á að það sé fjölbreytt og að símat sé notað þar sem því verður viðkomið. Leitast er við að beita leiðsagnarmati þar sem nemendur eru aðstoðaðir við að bæta frammistöðu í ljósi mats. Tilhögun námsmats í einstökum greinum skal vera nemendum ljós í upphafi annar.
Starfsnám: Til að hefja vinnustaðanám þarf nemandi að hafa náð 18 ára aldri. Vinnustaðanám er í samstarfi við Tannlæknadeild Háskóla Íslands og tekur tvær annir. Þar fá nemendur leiðbeiningu og fræðslu um mismunandi verkþætti á tannlæknastofum og samhliða því þjálfun í framkvæmd sömu þátta.
Reglur um námsframvindu: Nemendur þurfa að hafa lokið undanförum til þess að halda áfram námi í þeim greinum sem það á við. Til að hefja vinnustaðanám þarf meginþorra bóklegra greina að vera lokið.
Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

 • vinna störf tanntækna á faglegan hátt
 • vinna sjálfstætt og af fagmennsku, sýna frumkvæði og geta forgangsraðað
 • sjá um móttöku, símsvörun og tímapantanir
 • halda utan um sjúkrasögu þjónustuþega og undirbúa þá fyrir meðferð
 • undirbúa tannlæknastofu fyrir aðgerðir, aðstoða tannlækni við aðgerðir, m.a. við “ fjögurra handa tannlækningar“, ásamt því að ganga frá að loknum vinnudegi
 • taka til áhöld og efni sem nota þarf við aðgerðir, efni í afsteypur o.fl.
 • bera ábyrgð á og sjá um sótthreinsun/dauðhreinsun á tannlæknastofum
 • taka alginatmát á tannlæknastofu og gera lýsingarskinnu
 • undirbúa og taka röntgenmyndir, sjá um framköllun, frágang og geymslu þeirra
 • lakka tennur með flúor og veita fræðslu/leiðbeiningar um rétta tannhirðu
 • miðla þekkingu um forvarnir til mismunandi þjóðfélagshópa og geta unnið þverfaglega
 • nýta tölvukunnáttu í starfi og þekkja vel leiðir til að varðveita upplýsingar
 • sýna siðferðisvitund, gæta þagmælsku í starfi og vera fær í samskiptum
 • fylgja lögum og reglugerðum sem tilheyra starfinu
 • vinna eftir gæðaviðmiðum/gæðahandbókum, þekkja vinnuvernd og öryggisferla á vinnustað og vera fær um að veita skyndihjálp
 • viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni, tileinka sér nýjungar í starfi og vera meðvitaður um mikilvægi símenntunar

Einingafjöldi Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni

203  fein.

Kjarni Skylduáfangar brautarinnar


Almennar greinar og bóklegar sérgreinar tanntækna
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Verknám tanntækna á tannlæknadeild
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Hlutfall eininga á þrepum í kjarna
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
 
 
 
 

Frjálst Val Aðrir óskilgreindir áfangar sem nemendur geta valið/metið á námsbrautinni

Nei, frjálst val er ekki leyft

Grunnþættir og lykilhæfni Hvernig unnið er með grunnþætti og lykilhæfni

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar:
 • með því að reyna á þessa þætti í námsgreinum brautarinnar. Í faglegum greinum eru gerðar kröfur við verkefnavinnu um að sækja upplýsingar í vefmiðla, lesa úr tölulegum upplýsingum og skrá tölulegar upplýsingar
Námshæfni:
 • með því að efla sjálfstæði nemenda í vinnubrögðum á markvissan hátt. Þeir læra að meta eigin vinnubrögð og annarra t.d. með sjálfsmati og jafningjamati. Nemendur eru þjálfaðir í að setja sér raunhæf markmið í námi og vinna að þeim. Kennslu- og námsmatsaðferðir eru fjölbreyttar með áherslu á leiðsagnarmat þar sem unnið er sérstaklega með styrkleika nemenda og hvernig megi efla þá. Eftir því sem lengra líður á námið eru gerðar meiri kröfur um að þekking og fyrri reynsla, bæði í viðkomandi grein og öðrum, sé nýtt við lausn nýrra viðfangsefna
Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar:
 • með því að láta nemendur vinna verkefni þar sem reynir á frumkvæði og sköpun til dæmis í verknámi þar sem unnin eru forvarnarverkefni og kynnt á mismunandi stöðum
Jafnrétti:
 • með því að leggja áherslu á jafnan rétt og tækifæri allra til náms óháð búsetu, trúarbrögðum, þjóðerni, kynþætti, kynhneigð, aldri, litarhætti eða tungumáli. Námsmat og kennsluaðferðir í áföngum er aðlagað að mismunandi leiðum nemenda til að læra og er fjölbreytt allan námstímann
Menntun til sjálfbærni:
 • með því að leggja áherslu á sjálfbærni og vekja nemendur til umhugsunar um lífsspor okkar. Nemendur eru hvattir til þess að temja sér heilbrigðan lífsstíl. Unnið er að því að nemendur verði virkir og ábyrgir borgarar bæði gagnvart samfélagi og umhverfi. Þessum þætti er einkum fylgt eftir í stefnu sérhvers skóla. Í náminu er fjallað um tengsl mengunar og sjúkdóma ásamt ábyrgð hvers einstaklings á mengunarvörnum í nánasta umhverfi. Í verknámi læra nemendur að ganga af virðingu, öryggi og ábyrgð um vinnuumhverfi sitt til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma og slys. Auk þess læra nemendur að umgangast hættuleg efni og lyf ásamt förgun úrgangs á umhverfisvænan og öruggan hátt
Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum:
 • með því að kenna nemendum dönsku og ensku. Í dönsku er lögð áhersla á að auka málfærni og les- og hlustunarskilning. Í enskunámi eru nemendur þjálfaðir í að tjá sig í ræðu og riti á enskri tungu. Farið er sérstaklega yfir fagorðaforða heilbrigðisgreina í þeim tilgangi að nemendur verði hæfir í að lesa fræðigreinar. Nemendur vinna verkefni þar sem þess er krafist að þeir leiti upplýsinga í erlendum fagtímaritum, bókum og vefmiðlum við verkefnavinnu
Heilbrigði:
 • með því að fjalla um heilbrigðan lífsstíl, heilsueflingu, forvarnir og ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu. Í tanntæknanámi eru nemendur hvattir til að hafa velferð þjónustuþega, starfsfólks og annarra einstaklinga að leiðarljósi. Í verknámi þjálfast nemendur í samskiptum og faglegum vinnubrögðum á tannlæknastofum með heilbrigði að leiðarljósi. Nemendur öðlast skilning og færni í að efla bæði eigið heilbrigði og annarra
Læsi, tjáning og samskipti á íslensku:
 • með því að leggja áherslu á vinnu nemenda þar sem reynir á alla þætti læsis, tjáningar og samskipta. Í hvers kyns verkefnavinnu reynir á tjáningu í rituðu og töluðu máli við kynningu niðurstaðna. Nemendur þurfa að svara spurningum á málefnalegan hátt og rökstyðja skoðanir sínar og niðurstöður í verkefnaflutningi. Í verknámi þurfa nemendur að tjá sig munnlega og skriflega til að koma upplýsingum um þjónustuþega á framfæri. Í samskiptum þurfa nemendur að geta tjáð sig á skýran og markvissan hátt
Lýðræði og mannréttindi:
 • með því að leita eftir viðhorfum nemenda til ákveðinna þátta skólastarfsins í þeim tilgangi að bæta það s.s. með kennslukönnunum. Í siðfræði og samskiptaáfanga er lögð áhersla á mismunandi skoðanir fólks og reynt að finna hvaða lífsgildi liggja að baki afstöðu fólks til álitamála, sérstaklega þeirra er lúta að heilsu, heilbrigði og heilbrigðisþjónustu. Nemendur taka þátt í umræðum og læra að beita rökum í álitamálum. Í verknámi þjálfast nemendur í að taka leiðsögn á uppbyggilegan hátt, þar sem reynir á samvinnu og nánd. Nemendur læra að bera virðingu fyrir mismunandi skoðunum, taka tillit til samnemenda, samstarfsfólks og þjónustuþega og mæta hver öðrum á uppbyggilegan og jákvæðan hátt