Með lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, færðist ábyrgð á námskrárgerð að miklu leyti til framhaldsskólanna. Þeim er nú falið að gera tillögur um fyrirkomulag, samhengi og inntak náms í samræmi við viðmið, sniðmát og reglur um gerð námsbrautalýsinga. Með þessu fá einstakir framhaldsskólar aukið umboð til að byggja upp nám sem tekur mið af sérstöðu skóla, þörfum nemenda, nærsamfélags og atvinnulífs.
Tillögur skólanna að starfsnámsbrautum eru að auki sendar til starfsgreinaráða hinna ýmsu faggreina til umsagnar og mats. Um hlutverk starfsgreinaráða við mat á starfsnámi fer samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Samþykkt námsbrautalýsing er síðan send ráðuneyti til staðfestingar.
Í aðalnámskrá er öllu námi í framhaldsskóla skipað á fjögur hæfniþrep auk áfangalýsinga sem skarast annars vegar við grunnskólastig og hins vegar við háskólastig. Með hæfniþrepunum er lýst stigvaxandi kröfu um þekkingu, leikni og hæfni nemenda í átt til sérhæfingar og aukinnar menntunar.
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skv. 23. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008 staðfest námsbrautarlýsingar sem má sjá hér. Staðfesting felur í sér að lýsing á uppbyggingu námsbrauta, tengslum við atvinnulíf og/eða önnur skólastig, uppbyggingu náms á hæfniþrep, inntökuskilyrðum og skilyrðum um framvindu náms, grunnþáttum og lykilhæfni og námsmati sé í samræmi við aðalnámskrá framhaldsskóla. Hinar staðfestu námsbrautarlýsingar teljast þar með hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla, sbr. auglýsingu nr. 674/2011.
Staðfestingin tekur ekki til einstakra áfangalýsinga. Skólar bera ábyrgð á að áfangalýsingar námsbrauta og kennsla falli að hæfniviðmiðum brautar og þeim ramma sem aðalnámskrá setur skólastarfi.