7

Námslok námsbrauta í framhaldsskóla raðast á hæfniþrep. Með röðun þeirra á hæfniþrep eru dregnar fram mismunandi kröfur um hæfni nemanda að loknu námi. Hæfniþrepin mynda þannig ramma um mismunandi kröfur við námslok án tillits til þess hvort námið er bóknám, listnám eða starfsnám.

Í lýsingu á hæfniþrepum er annars vegar lögð áhersla á lykilhæfni og grunnþætti og hins vegar aukna sérhæfingu í námi. Hæfniþrepin eru skilgreind með nemendur í huga óháð skólastigi og framkvæmdaraðila. Hæfniþrepin eiga að gefa vísbendingu um viðfangsefni og námskröfur og eru þannig leiðbeinandi við gerð áfanga- og námsbrautalýsinga. Hæfniþrepin eru einnig upplýsandi fyrir hagsmunaaðila, jafnt nemendur sem atvinnulíf og næsta skólastig sem tekur við nemendum að loknu námi.

Á framhaldsskólastigi eru þrepin fjögur. Fyrsta þrepið er á mörkum grunn- og framhaldsskóla og felur í sér almenna menntun. Þar tengjast kröfur um lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og sjálfbærni daglegu lífi og virkni einstaklingsins í þjóðfélaginu. Nemandi sem hefur náð þessari lykilhæfni sýnir í daglegu lífi og samskiptum að hann beri virðingu fyrir öðru fólki, lífsgildum þess og mannréttindum. Nám á fyrsta þrepi getur enn fremur falið í sér almennan undirbúning undir störf í atvinnulífinu sem ekki krefjast mikillar sérhæfingar og eru unnin undir stjórn eða eftirliti annarra. Á námsbrautum með námslok á fyrsta hæfniþrepi getur krafa um námsframvindu verið óhefðbundin og námsmat fyrst og fremst leiðbeinandi um hvernig nemendur geta náð settum markmiðum.

Námslok á þrepi tvö einkennast af fremur stuttri sérhæfingu, sem miðar einkum að faglegum undirbúningi undir frekara nám eða störf sem krefjast þess að starfsmenn geti sýnt ábyrgð og sjálfstæði innan ákveðins ramma og/eða undir yfirstjórn annarra. Þá er gert ráð fyrir að hinni almennu hæfni til að vera virkur þjóðfélagsþegn sé náð og sjónum beint að virkni og ábyrgð innan vinnuumhverfis.

Námslok á þriðja hæfniþrepi einkennast af enn meiri kröfum um þekkingu, leikni og hæfni tengdar sérhæfingu og fagmennsku. Þar fer fram sérhæfður undirbúningur undir háskólanám, lögvarin störf, sérhæft starfsnám og listnám. Eftir námslok á þriðja þrepi eiga nemandur að geta unnið sjálfstætt, borið ábyrgð á skipulagi og úrlausn verkefna og metið eigin störf.

Fjórða þrepið felur í sér nám sem ýmist fer fram innan eða á vegum framhaldsskóla eða háskóla. Námslok á fjórða þrepi einkennast ýmist af aukinni sérhæfingu og/eða útvíkkun sérhæfingar í tengslum við stjórnun, leiðsögn, þróun eða nýsköpun.

Ráðuneytið birtir yfirlit yfir röðun staðfestra námsloka á hæfniþrep.