5

Í kafla tvö eru útskýrðir sex grunnþættir menntunar sem endurspeglast eiga í skólastarfi framhaldsskóla. Grunnþættirnir eiga að vera sýnilegir í námi og kennslu nemenda, starfs-háttum, skipulagi og þróunaráætlunum skóla svo og tengslum hans við samfélag sitt. Framhaldsskólar skulu í skólanámskrá gera grein fyrir hvernig grunnþáttum er sinnt og leggja mat á sýnileika þeirra og innleiðingu í innra mati skóla.

Lykilhæfni er ætlað að tengja grunnþættina við markmið um hæfni nemenda að loknu námi. Lykilhæfnin snýr að nemandanum sjálfum og er þannig nemendamiðuð útfærsla á áherslum grunnþátta. Lykilhæfnin er nýtt við skipulagningu námsbrauta, gerð áfangalýsinga auk þess sem horft er til hennar við námsmat og umsögn um nemendur.

Ætlast er til að lykilhæfni og grunnþættir fléttist saman og myndi burðarstoð í öllu starfi framhaldsskóla, starfsumhverfi og skólabrag sem og námi og kennslu allra námsáfanga. Við umsókn um staðfestingu námsbrautarlýsinga er skólum skylt að útskýra hvar og hvernig grunnþáttum og lykilhæfni er sinnt.

Á myndinni hér fyrir neðan er tilraun gerð til að sýna tengsl grunnþátta og lykilhæfni.

Grunnþættirnir skulu endurspeglast í öllu skólastarfi en lykilhæfnin tengir grunnþættina við kröfu um hæfni nemenda.

 

Tengsl grunnþátta og lykilhæfni