Eins og áður hefur komið fram gegnir framhaldsskólinn fjölbreyttu hlutverki og þjónar nemendum sem stefna að mismunandi marki. Áhersla er lögð á hæfni nemenda á vegferð þeirra og mikilvægt að námsmatið styðji við þau markmið sem stefnt er að.
Oft er tilgangur námsmats að kanna að hve miklu leyti nemendur hafa tileinkað sér markmið aðalnámskrár í viðkomandi grein en einnig þarf að horfa til lykilhæfni nemenda. Æskilegt er að í námsmati felist jafnframt leiðsagnarmat, það er leiðbeining til nemenda um hvernig þeir geti með árangursríkustum hætti hagað námi sínu í framhaldinu.
Námsmat gegnir mikilvægu hlutverki við að afla vitneskju um árangur skólastarfsins og hvernig einstökum nemendum eða hópum gengur að ná settum markmiðum. Mikilvægt er að skólar setji sér stefnu varðandi fjölbreytt námsmat og leiðsögn nemenda. Námsmat skal vera réttmætt og áreiðanlegt og umfang þess í samræmi við nám og kennslu í viðkomandi áfanga.
Námsmat skal byggja á margvíslegum námsmatsaðferðum og fela í sér traustar heimildir um hæfni nemenda. Þess skal gætt að námsmatið taki til allra þátta námsins þannig að þekking nemenda, leikni og hæfni auk framfara sé metin. Námsmatsaðferðir geta verið verklegar, munnlegar eða skriflegar, falið í sér sjálfsmat, jafningjamat, símat og lokamat.
Framhaldsskólar skulu setja skýrar verklagsreglur um námsmat og birta þær í skólanámskrá.
Þar eiga að koma fram:
-
viðmið um vægi einstakra þátta í námsmati,
-
skilyrði til að áfanga sé náð,
-
lokakröfur námsbrauta, ef við á,
-
reglur sem varða veikindi nemenda og réttindi til töku sjúkraprófa,
-
réttur nemenda til að skoða prófúrlausnir og símatsgögn sem eru liður í lokaeinkunn,
-
réttindi nemenda á sérúrræðum við námsmat, t.d. aðgangur að sérsniðnum prófgögnum, munnleg próf, lengri próftími, umsóknarmöguleikar fatlaðra og langveikra nemenda um frávik frá hefðbundnu námsmati og svo framvegis; aðstoðin felur ekki í sér að dregið sé úr námskröfum eða þeim hagað með öðrum hætti gagnvart þessum hópi nemenda en almennt gildir,
-
önnur þjónusta veitt vegna prófkvíða, aðstoð við nemendur sem eiga við fötlun og/eða sértæka námserfiðleika að etja,
-
viðurlög við misferli nemendum tengdu hvers konar námsmati, svo sem hvað þurfi til að nemendum sé vísað frá prófi, vikið úr einstökum áfanga eða skóla, tímabundið eða til frambúðar.
Comments:
|