Mennta- og menningarmálaráðuneyti annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í framhaldsskólum og er það liður í reglubundnu ytra mati á gæðum skólastarfs ásamt úttektum, könnunum og rannsóknum. Ytra mat getur náð til framhaldsskóla í heild, aðferða við innra mat eða annarra skilgreindra þátta í starfsemi framhaldsskóla. Jafnframt getur ytra mat náð til nokkurra framhaldsskóla í senn. Framhaldsskólar skulu leggja fram þá aðstoð og þau gögn sem matið útheimtir, þar með talið niðurstöður innra mats. Að loknu ytra mati gerir framhaldsskóli grein fyrir því hvernig brugðist verður við niðurstöðum þess. Ráðuneyti leitast við að fylgja innra og ytra mati eftir með stuðningi, fræðslu og ráðgjöf til viðkomandi skóla þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi.
Ráðuneyti gerir áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd laga, aðalnámskrár framhaldsskóla og annarra þátta skólastarfs. Jafnframt getur ráðherra ákveðið að láta fara fram sérstakt ytra mat á framhaldsskóla eða einstökum þáttum skólastarfs ef ástæða þykir til. Gert er ráð fyrir að úttekt á framhaldsskóla fari eigi sjaldnar fram en á fimm ára fresti.
Samkvæmt lögum getur ráðherra ákveðið að leggja fyrir könnunarpróf í einstökum náms-greinum framhaldsskóla, svo og færnipróf sem tengjast hæfniviðmiðum og þrepaskiptingu náms.
Comments:
|