4

Samkvæmt lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla, er nám á framhaldsskólastigi skipulagt sem framhald af námi á grunnskólastigi. Í lögunum er hlutverk framhaldsskóla skilgreint í annarri grein.

2. gr. Hlutverk

Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.

Framhaldsskólar búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Þeir skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar. Framhaldsskólar sinna miðlun þekkingar og þjálfun nemenda þannig að þeir öðlist færni til að gegna sérhæfðum störfum og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.

 

Eins og sjá má gegnir framhaldsskólinn margþættu hlutverki. Hann á að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Honum er einnig ætlað að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám.

Í framhaldsskólum gefst nemendum kostur á að velja sér fjölbreyttar námsbrautir sem veita margs konar undirbúning og réttindi á sviði almenns náms, listnáms, bóknáms og starfsnáms. Á sumum námsbrautum er megináherslan lögð á virkni nemenda í daglegu lífi, undirbúning fyrir frekara nám og störf sem ekki krefjast sérhæfðrar menntunar. Aðrar námsbrautir hafa þau lokamarkmið að undirbúa nemendur undir sérhæfð störf eða sérhæft nám á næsta skólastigi. Þannig þurfa námsbrautir að mæta kröfum atvinnulífs og næsta skólastigs um leið og þær tryggja nemendum alhliða almenna menntun. Námslok námsbrauta geta til dæmis verið framhaldsskólapróf, starfsréttindapróf, stúdentspróf eða önnur lokapróf.

Allt nám í framhaldsskóla þarf að fela í sér áherslur hlutverkagreinar laganna. Það er á ábyrgð hvers skóla að ákvarða með hvaða hætti þeim er best fundinn staður í viðfangsefnum nemenda og vinnulagi. Líta þarf jöfnum höndum til starfshátta skólans sem inntaks námsins og þurfa þessir tveir meginþræðir að mynda órofa heild í skólastarfi.

Allt skólasamfélagið þarf að vera meðvitað um það hlutverk framhaldsskólans að hafa velferð nemenda í fyrirrúmi. Velferð og heilbrigði krefst þess að líkamlegum, andlegum og félagslegum þáttum nemenda sé sinnt. Foreldrar ólögráða nemenda bera ábyrgð á uppeldi barna sinna en framhaldsskólar hafa einnig uppeldishlutverk. Þar fer fram mikilvægt mótunarstarf samhliða þjálfun og fræðslu. Uppeldisstarf skóla miðar að því að nemendur verði virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðissamfélagi, virði jafnrétti í samskiptum og taki ábyrga afstöðu til eigin velferðar og annarra. Hér skiptir skólabragurinn, samskipti innan skóla sem utan og virk þátttaka nemenda í mótun skólasamfélagsins, höfuðmáli.