17

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla er markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í framhaldsskólum að:

  • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda,
  • tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár framhaldsskóla,
  • auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
  • tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.

Mat á skólastarfi í framhaldsskóla er tvíþætt: Annars vegar er um að ræða mat sem skólar framkvæma sjálfir og er hér kallað innra mat. Hins vegar er um að ræða mat sem utanaðkomandi aðili vinnur á vegum ráðuneytis mennta- og menningarmála eða annarra aðila og er nefnt ytra mat (sjá einnig kafla 3).

  • Innra mati er ætlað að veita upplýsingar um starfshætti framhaldsskóla, stuðla að umbótum og auknum gæðum og vera liður í þróun skólastarfs. Með kerfisbundnu mati er greint hvað gengur vel og hvað miður og síðan teknar ákvarðanir um umbætur á grundvelli niðurstaðna.

    Mat á starfi framhaldsskóla á að taka mið af þeim markmiðum og gildum sem fram koma í lögum, reglugerðum og aðalnámskrá. Jafnframt tekur innra mat mið af starfsaðferðum og sérstöðu hvers framhaldsskóla sem fram kemur í skólanámskrá. Innra mat á að vera samofið daglegu starfi, efla ígrundun og auka vitund starfsfólks um ábyrgð.

    Skólameistari, í samstarfi við starfsfólk, ber ábyrgð á gæðum þess starfs sem fer fram í viðkomandi skóla. Í hverjum skóla skal móta skýra stefnu í samræmi við grunnþætti í menntun, markmið og áhersluþætti framhaldsskólalaga og ákvæði í aðalnámskrá framhaldsskóla. Hver framhaldsskóli mótar viðmið fyrir sína starfsemi og þróar matsaðferðir sem henta starfsháttum skólans. Lýðræðisleg vinnubrögð við innra mat stuðla að auknum gæðum í starfinu. Þar eru stjórnendur, kennarar, annað starfsfólk, nemendur og foreldrar mikilvægir þátttakendur.

    Í skólanámskrá er lagður grunnur að skólastarfinu en þar skal meðal annars birta stefnu skólans og lýsingu á því kerfisbundna innra mati sem notað er til að leggja mat á gæði skólastarfsins. Í skólanámskrá skal einnig gera grein fyrir áherslum og áætlunum um innra mat.