7

Námslok námsbrauta í framhaldsskóla raðast á hæfniþrep. Með röðun þeirra á hæfniþrep eru dregnar fram mismunandi kröfur um hæfni nemanda að loknu námi. Hæfniþrepin mynda þannig ramma um mismunandi kröfur við námslok án tillits til þess hvort námið er bóknám, listnám eða starfsnám.

Í lýsingu á hæfniþrepum er annars vegar lögð áhersla á lykilhæfni og grunnþætti og hins vegar aukna sérhæfingu í námi. Hæfniþrepin eru skilgreind með nemendur í huga óháð skólastigi og framkvæmdaraðila. Hæfniþrepin eiga að gefa vísbendingu um viðfangsefni og námskröfur og eru þannig leiðbeinandi við gerð áfanga- og námsbrautalýsinga. Hæfniþrepin eru einnig upplýsandi fyrir hagsmunaaðila, jafnt nemendur sem atvinnulíf og næsta skólastig sem tekur við nemendum að loknu námi.

Á framhaldsskólastigi eru þrepin fjögur. Fyrsta þrepið er á mörkum grunn- og framhaldsskóla og felur í sér almenna menntun. Þar tengjast kröfur um lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og sjálfbærni daglegu lífi og virkni einstaklingsins í þjóðfélaginu. Nemandi sem hefur náð þessari lykilhæfni sýnir í daglegu lífi og samskiptum að hann beri virðingu fyrir öðru fólki, lífsgildum þess og mannréttindum. Nám á fyrsta þrepi getur enn fremur falið í sér almennan undirbúning undir störf í atvinnulífinu sem ekki krefjast mikillar sérhæfingar og eru unnin undir stjórn eða eftirliti annarra. Á námsbrautum með námslok á fyrsta hæfniþrepi getur krafa um námsframvindu verið óhefðbundin og námsmat fyrst og fremst leiðbeinandi um hvernig nemendur geta náð settum markmiðum.

Námslok á þrepi tvö einkennast af fremur stuttri sérhæfingu, sem miðar einkum að faglegum undirbúningi undir frekara nám eða störf sem krefjast þess að starfsmenn geti sýnt ábyrgð og sjálfstæði innan ákveðins ramma og/eða undir yfirstjórn annarra. Þá er gert ráð fyrir að hinni almennu hæfni til að vera virkur þjóðfélagsþegn sé náð og sjónum beint að virkni og ábyrgð innan vinnuumhverfis.

Námslok á þriðja hæfniþrepi einkennast af enn meiri kröfum um þekkingu, leikni og hæfni tengdar sérhæfingu og fagmennsku. Þar fer fram sérhæfður undirbúningur undir háskólanám, lögvarin störf, sérhæft starfsnám og listnám. Eftir námslok á þriðja þrepi eiga nemandur að geta unnið sjálfstætt, borið ábyrgð á skipulagi og úrlausn verkefna og metið eigin störf.

Fjórða þrepið felur í sér nám sem ýmist fer fram innan eða á vegum framhaldsskóla eða háskóla. Námslok á fjórða þrepi einkennast ýmist af aukinni sérhæfingu og/eða útvíkkun sérhæfingar í tengslum við stjórnun, leiðsögn, þróun eða nýsköpun.

Ráðuneytið birtir yfirlit yfir röðun staðfestra námsloka á hæfniþrep.

    • Námsbrautir eru að jafnaði skipulagðar sem  30 til 120 fein. og taka yfirleitt 1 til 4 annir.  Þær geta þó verið allt að 240 fein og skipulagðar sem 8 annir fyrir nemendur með þroskahömlun.
    • Námslok eru til dæmis framhaldsskólapróf og önnur lokapróf.
    • Námið felur í sér almenna menntun, þar sem lögð er áhersla á alhliða þroskanemenda og lýðræðislega virkni.
    • Námsbraut, sem er skilgreind með námslok á fyrsta hæfniþrepi, vinnur að þeim þekkingar-, leikni- og hæfniviðmiðum sem talin eru upp hér að neðan. Viðmiðin skulu einnig höfð til hliðsjónar við gerð námsáfanga sem flokkast á fyrsta hæfniþrep.

     

    ÞEKKING

    Nemandi býr yfir:

    • fjölbreyttum orðaforða til að geta tjáð skoðanir sínar og rökstutt þær,
    • þekkingu á samfélagslegum gildum, siðgæði, mannréttindumog jafnrétti,
    • þekkingu sem tengist því að vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi,
    • þekkingu sem tengist íslensku umhverfi í alþjóðlegu samhengi(s.s. menningu, samfélagi, náttúruog sjálfbærni),
    • þekkingu sem nýtist til undirbúnings fyrir frekara nám,
    • orðaforða til að geta tjáð sig á einfaldan hátt á erlendum tungumálum og innsýn í viðkomandi menningarheima,
    • þekkingu og skilning á  áhrifum fyrirmynda og staðalmynda á eigin ímynd og lífsstíl.

    LEIKNI

    Nemandi hefur öðlast leikni til að:

    • tjá sig á skýran, ábyrgan og skapandi hátt,
    • taka þátt í samræðum, færa rök fyrir máli sínu og virða skoðanir annarra,
    • vera verklega sjálfbjarga í daglegu lífi,
    • beita skapandi hugsun í öllu starfi,
    • vinna á sjálfstæðan, ábyrgan og skapandi hátt undir leiðsögn,
    • nýta sér margvíslega tækni í þekkingarleit og miðlun þekkingar      á ábyrgan og gagnrýninn hátt,
    • nota fjölbreyttar námsaðferðir,
    • umgangast umhverfi sitt með sjálfbærni í huga.

    HÆFNI

    Nemandi:

    • getur tjáð hugsanir sínar og tilfinningar í rökréttu samhengi,
    • getur tjáð sig á einfaldan hátt á erlendum tungumálum,
    • hefur skýra sjálfsmynd og gerir sér grein fyrir hvernig hann getur hagnýtt sterkar hliðar sínar á skapandi hátt,
    • getur átt jákvæð og uppbyggileg samskipti og samstarf við annað fólk,
    • ber virðingu fyrir lífsgildum, mannréttindum og jafnrétti,
    • ber virðingu fyrir náttúru og umhverfi í alþjóðlegu samhengi,
    • tekur ábyrga afstöðu til eigin velferðar, líkamlegrar og andlegrar
    • hefur tileinkað sér jákvætt viðhorf til náms,
    • getur verið virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu nær– og fjærsamfélagi,
    • getur tengt þekkingu sína og leikni við daglegt líf, tækni og vísindi.