Námsbraut

Titill brautar: Námsleið: Námslok:
Búfræðibraut (Staðfestingarnúmer 126) 18-126-3-9 búfræðingur hæfniþrep 3
Lýsing: Nám í búfræði er sérhæft starfsmenntanám með námslok á þriðja hæfniþrepi. Markmið búfræðibrautar er annars vegar að búa nemendur undir fjölbreytt störf á sviði landbúnaðarframleiðslu með þeim hætti að þeir uppfylli hæfnikröfur starfsins og hins vegar að búa nemendur undir frekara nám. Búfræðingur starfar við landbúnað, annaðhvort við eigin rekstur eða hjá öðrum og þá gjarnan sem verkstjóri eða bústjóri. Búfræðingur sér um hirðingu og meðferð dýra, býr yfir þekkingu og færni í notkun og umhirðu landbúnaðartengdra véla, þekkingu á þörfum landbúnaðarins og þekkingu á ræktun plantna til fóðuröflunar og beitar. Hann hefur þekkingu á ræktun og kynbótum búfjár. Hann gætir að umhverfi og öryggi.

Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar

Inntökuskilyrði: Umsækjandi þarf að vera orðinn 18 ára. Umsækjandi þarf að hafa lokið að lágmarki eftirtöldum áföngum í almennum framhaldsskóla alls 45 einingum: • Íslenska á öðru hæfniþrepi 10 ein • Enska á öðru hæfniþrepi 10 ein • Stærðfræði á öðru hæfniþrepi 5 ein • Danska á öðru hæfniþrepi 5 ein. • Almenn efnafræði á öðru hæfniþrepi 5 ein. • Almenn líffræði á öðru hæfniþrepi 5 ein. • Bókfærsla á fyrsta hæfniþrepi 5 ein. Gert er ráð fyrir að nemendur séu vel tölvufærir og hafi góð tök á námstækni. Æskilegt er að nemendur hafi lokið lífrænni efnafræði 5 ein. Æskilegt er að nemandi hafi gilt skyndihjálparskírteini. Umsókn um skólavist skulu fylgja prófskírteini frá framhaldsskóla. Nánari upplýsingar um inntökuskilyrði eru á heimasíðu skóla.
Skipulag: Nám á búfræðibraut skiptist í bóklegt nám, 4 annir í skóla (alls 120 fein) og námsdvöl í 12 vikur (alls 15 fein) á kennslubúi sem skólinn velur í samráði við nemanda. Mikil áhersla er lögð á verklegar æfingar í skólanum, samhliða bóknáminu.
Námsmat Námsmat á brautinni er ýmist með mati á frammistöðu á kynningum eða í verklegum æfingum, mati á þátttöku í umræðum, frammistöðu í bóklegum/verklegum verkefnum og með skriflegum prófum í áföngum.
Starfsnám: Námsdvöl búfræðibrautar fer fram á námsdvalarbýlum sem skólinn viðurkennir. Umsjónarmaður námsdvalar heldur utan um lista yfir viðurkennd námsdvalarbýli og velur námsdvalarbýli fyrir hvern nemenda í samráði við námsdvalarbændur og nemendurna sjálfa. Lengd verknáms er alls 12 vikur (360 klukkustundir á 60 vinnudögum). Verknámið er dagbókarskylt og einnig vinnur nemandi verkefni á námsdvalartíma, sem tengjast rekstri búsins. Þessi verkefni falla undir séráfanga sem nefnist Námsdvöl – verkefni og er metinn til 5 eininga. Umsjónarmaður námsdvalar tekur við dagbókinni, fer yfir hana og staðfestir tímafjöldann og gefur einkunn. Utanumhald námsdvalar er í höndum skóla og nánari upplýsingar um námsdvöl er að finna í skólareglum.
Reglur um námsframvindu: Nám í búfræði er rekið sem bekkjakerfi þannig að nemendur þurfa að jafnaði að ljúka öllum áföngum fyrri annar til að geta haldið áfram á aðra önn. Lágmarkseinkunn til að standast áfanga er að jafnaði 4,5 en heimilt er að setja strangari kröfur í séráföngum brauta. Nánari upplýsingar um námsframvindu er að finna í skólareglum.
Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

  • reka hefðbundinn búskap (kúabú, sauðfjárbú, blandað bú) á eigin spýtur.
  • hagnýta sér víðtæka þekkingu sína á líffræði og lífsferlum helstu nytjajurta og búfjárkynja í ræktun á Íslandi.
  • gera áætlanir um kynbætur á eigin búfé og getur borið ábyrgð á því að hirðing og aðbúnaður búfjár sé í samræmi við lög og reglugerðir þannig að reksturinn geti skilað eðlilegum afurðum.
  • vera meðvitaður um helstu rekstrarforsendur, gera áætlun um fjárfestingar í eigin rekstri og greina veikleika og styrkleika síns rekstrar út frá eigin bókhaldi.
  • þekkja og fylgja helstu lögum og reglugerðum sem snerta landbúnað.
  • vera meðvitaður um rekstrarumhverfi landbúnaðar á Íslandi og gera sér grein fyrir mikilvægi sjónarmiða neytenda fyrir landbúnaðinn.
  • vinna sjálfstætt og leiðbeina öðrum og vera meðvitaður um siðferðilega ábyrgð sína gagnvart umhverfinu og sjálfbærri nýtingu lands.
  • gera sér grein fyrir áhrifum búskapar og búskaparhátta á umhverfið.
  • sinna einföldu viðhaldi eigin vélakosts og vera meðvitaður um öryggismál og notkun persónuhlífa á vinnustað.

Einingafjöldi Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni

180  fein.

Kjarni Skylduáfangar brautarinnar


Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Hlutfall eininga á þrepum í kjarna
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
 
 
 
 

Bundið áfangaval

22 af 62
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Fjöldi eininga (framhaldsskólaeininga) sem nemendur þurfa að velja: " 22 af 62

Frjálst Val Aðrir óskilgreindir áfangar sem nemendur geta valið/metið á námsbrautinni

Nei, frjálst val er ekki leyft

Grunnþættir og lykilhæfni Hvernig unnið er með grunnþætti og lykilhæfni

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar:
  • Á búfræðibraut er lögð áhersla á ítarlega áætlanagerð varðandi framleiðslu mismunandi búfjárafurða og samanburð milli mismunandi valkosta. Í séráföngum búgreina og búrekstraráföngum læra nemendur að setja fram áætlanir fyrir viðkomandi búrekstur, svo sem ræktunaráætlanir í jarðrækt, kynbótaáætlanir og fóðuráætlanir í búfjárrækt og rekstraráætlanir í búrekstri. Í þessum áætlunum þarf að gera ráð fyrir magni og kostnaði þeirra aðfanga sem þarf til búrekstursins, með það að leiðarljósi að afurðirnar uppfylli gæðakröfur og standist samanburð. Í gegnum raunhæf verkefni er stuðlað að því að nemendur þrói með sér kostnaðar- og gæðavitund gagnvart faginu og geti rætt um talnagögn af þekkingu. Jafnframt vinna nemendur verkefni þar sem þeir kynna fyrir samnemendum sínum niðurstöður sem byggja meðal annars á talnagögnum. Í rekstrar- og markaðsáföngum læra nemendur um rekstrarumhverfi fyrirtækja og læra að lesa í helstu kennitölur rekstrarins.
Námshæfni:
  • Stuðlað er að aukinni námshæfni nemenda í gegnum fjölbreytt verkefni, bæði bókleg og verkleg. Nemendur fá þjálfun í að tengja saman viðfangsefni ólíkra námsgreina, svo sem jarðvinnslu og jarðrækt, áburðarfræði, búfjárhald og búrekstur og nýta sér þessar upplýsingar til að vinna raunhæf búfræðiverkefni eftir eigin áætlunum. Í gegnum verklegar æfingar í fjósi, fjárhúsi og hesthúsi læra nemendur að vinna með búfé sem krefst þess að unnið sé jafnt og þétt og af samviskusemi. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur setji sér markmið við verkefnavinnu og vinni markvisst að því að ná þeim.
Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar:
  • Nemendur búfræðibrautar fá þjálfun í að nýta sköpunarkraft sinn við úrlausn fjölbreyttra verkefna, sem kalla á skapandi nálgun við viðfangsefnið og uppfylla jafnframt kröfur um gæði og afurðir. Í áfanga um heimavinnslu afurða er lögð áhersla á að nemendur sýni frumkvæði í að nýta afurðir sínar til fullnustu á sem fjölbreyttastan hátt og þannig að eftir sé tekið.
Jafnrétti:
  • Nemendur eru allir jafnir og í hópavinnu gildir jafnræði. Lögð er rík áhersla á það við nemendur að þeir komi fram við alla af virðingu og kurteisi. Unnið er markvisst að því að nemendur líti svo á að allir séu jafningjar, meðal annars með samræmdum kröfum til nemenda við hvers konar verkefnavinnu, óháð bakgrunni nemenda.
Menntun til sjálfbærni:
  • Nemendur læra að skipuleggja landbúnaðarframleiðslu og aðbúnað gripa og starfsfólks þannig að auðlindir séu nýttar á skynsamlegan og hagkvæman hátt, með heilbrigði gripa og starfsfólks og gæði afurða að leiðarljósi. Nemendur læra líka að velja endurnýtanlegar auðlindir í framleiðslu sína. Í áfanga um umhverfi og sjálfbæra landnýtingu er farið ítarlega í samspil landbúnaðar við umhverfið og leiðir til að nýta auðlindir lands á skynsamlegan hátt. Nemendur fá kynningu á aðferðum lífrænnar framleiðslu í landbúnaði en þar er höfuðáherslan á sjálfbærni í framleiðslunni. Skólinn leggur áherslu á sjálfbærni í skólastarfinu og að kynna hana fyrir nemendum.
Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum:
  • Nemendur fá þjálfun í að afla sér upplýsinga um fagsvið sitt á ensku og norðurlandamálum, meðal annars í verkefnavinnu í ýmsum áföngum og læra þannig fagorð greinar sinnar á viðkomandi tungumálum. Þessi þjálfun auðveldar nemendum að eiga í samskiptum við fagmenn á sama sviði í öðrum löndum og gerir þá hæfari til að fylgjast með nýjungum á fagsviði sínu. Notast er við erlent námsefni í sumum áföngum skólans og eru nemendur þannig knúnir til að kynnast erlendu fagmáli. Í séráföngum búgreina eru fagorð greinanna kynnt til sögunnar sem auðveldar nemendum að afla sér upplýsinga um viðkomandi fagefni á alþjóðlegum vettvangi.
Heilbrigði:
  • Stór hluti náms í búfræði fer fram með verklegri kennslu í gripahúsum skólans sem gerir það að verkum að nemendur fá töluverða hreyfingu á meðan á skólastarfi stendur. Í upphafi náms læra nemendur um vinnuvistfræði og hvernig best er að beita líkama sínum í vinnu til að koma í veg fyrir álagstengd einkenni. Það stuðlar að líkamlegu heilbrigði nemenda. Áhersla er lögð á að bjóða upp á hollt fæði í mötuneyti skólans og eru nemendur meðvitaðir um það.
Læsi, tjáning og samskipti á íslensku:
  • Nemendur fá þjálfun í að afla sér upplýsinga um fagsvið sitt á íslensku og að miðla þekkingu sinni til annarra með margvíslegum hætti. Nemendur fá þjálfun í að kynna verkefni sín jafnt og þétt allan námstímann til að styrkja sig í tjáningu. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur geti rökrætt við aðra fagaðila, á fagmáli greinarinnar og fá nemendur tækifæri til þess, meðal annars með reglulegum heimsóknum á býli og í fyrirtæki á fagsviði landbúnaðar. Þannig þjálfast nemendur í samskiptum við aðra fagaðila innan greinarinnar.
Lýðræði og mannréttindi:
  • Nemendur bera ábyrgð á sínu námi og sýna öðrum virðingu. Í gegnum hópavinnu fá nemendur þjálfun í að taka tillit til annarra sjónarmiða og að taka lýðræðislegar ákvarðanir, byggðar á upplýstri afstöðu. Í hópavinnu skipta nemendur sjálfir með sér verkum sem getur krafist lýðræðislegra vinnubragða. Við kynningar á verkefnum nemenda taka allir þátt í rökræðum og uppbyggilegri gagnrýni, einkum og sér í lagi þegar stærri verkefni eru til kynningar. Nemendur kjósa sér stjórn í nemendaráð sem sér um hagsmuna- og félagsmál nemenda. Jafnframt kjósa nemendur búfræðibrautar tvo fulltrúa í skólaráð sem sér um að gæta hagsmuna nemenda gagnvart skólayfirvöldum.