Námsbraut

Titill brautar: Námsleið: Námslok:
Blómaskreytingabraut (Staðfestingarnúmer 128) 18-128-3-9 blómaskreytir hæfniþrep 3
Lýsing: Markmið blómaskreytingabrautar er annars vegar að búa nemendur undir fjölbreytt störf á sviði blómaskreytinga með þeim hætti að þeir uppfylli hæfnikröfur starfsins og hins vegar að búa nemendur undir frekara nám. Starfsvettvangur útskrifaðra nemenda er blómaverslanir og blómaheildsölur, sala og ráðgjöf til viðskiptavina. Blómaskreytar aðstoða við vöruuppsetningu í verslunum og geta starfað sem verslunarstjórar blómaverslana.

Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar

Inntökuskilyrði: Umsækjandi þarf að vera orðinn 18 ára. Gert er ráð fyrir að umsækjandi hafi lokið 12 vikum af 60 vikna verknámi á verknámsstað sem skólinn viðurkennir, áður en bóknám hefst. Umsækjandi þarf að hafa lokið að lágmarki eftirtöldum áföngum í almennum framhaldsskóla alls 20 einingar: • Almenn efnafræði á öðru hæfniþrepi 5 ein. • Almenn líffræði á öðru hæfniþrepi 5 ein • Bókfærsla á fyrsta hæfniþrepi 5 ein • Stærðfræði á öðru hæfniþrepi 5 ein. Æskilegt er að umsækjandi hafi jafnframt lokið eftirtöldum áföngum í almennum framhaldsskóla alls 25 einingar: • Íslenska á öðru hæfniþrepi 10 ein • Enska á öðru hæfniþrepi 10 ein • Danska á öðru hæfniþrepi 5 ein. Gert er ráð fyrir að nemendur séu vel tölvufærir og hafi góð tök á námstækni. Æskilegt er að nemandi hafi gilt skyndihjálparskírteini. Nánari upplýsingar um inntökuskilyrði eru á heimasíðu skóla.
Skipulag: Nám á blómaskreytingabraut skiptist í bóklegt nám, 4 annir við (alls 120 fein) og starfsnám í 60 vikur (alls 100 fein) á verknámsstað viðurkenndum af skólanum, undir handleiðslu verknámskennara. Mikil áhersla er lögð á verklegar æfingar í skólanum, samhliða bóknáminu.
Námsmat Námsmat á brautinni er ýmist með mati á frammistöðu á kynningum eða í verklegum æfingum, mati á þátttöku í umræðum, frammistöðu í bóklegum/verklegum verkefnum og með skriflegum prófum í áföngum.
Starfsnám: Starfsnám í blómaskreytingum er verklegt vinnustaðanám í 60 vikur á verknámsstað viðurkenndum af skólanum, undir handleiðslu verknámskennara. Þessar 60 vikur eru dagbókarskyldar og er dagbókin metin til einkunnar. Verknámið er 100 fein. Nánari upplýsingar um starfsnám eru í skólareglum.
Reglur um námsframvindu: Nám á blómaskreytingabraut er rekið sem bekkjakerfi þannig að nemendur þurfa að jafnaði að ljúka öllum áföngum fyrri annar til að geta haldið áfram á aðra önn. Lágmarkseinkunn til að standast áfanga er að jafnaði 4,5 en heimilt er að setja strangari kröfur í séráföngum brauta. Nánari upplýsingar um námsframvindu er að finna í skólareglum.
Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

 • hagnýta sér greinargóða þekkingu sína í almennum blómaskreytingum.
 • miðla sértækri þekkingu á plöntuvali og stílbrigðum blómaskreytinga.
 • afla sér frekari menntunar á sínu fagsviði.
 • þekkja til og beita viðurkenndum aðferðum við úrlausn verkefna á sínu fagsviði.
 • vera meðvitaður um gildi sjálfbærni í víðum skilningi.
 • nýta sköpunarkraft sinn í starfi og sýna frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð í margvíslegum verkefnum.
 • sýna lipurð í mannlegum samskiptum og félagslega færni til að koma til móts við viðskiptavini sína af virðingu og alúð.
 • skilja siðferðilega ábyrgð sína gagnvart faginu, viðskiptavinum og samstarfsaðilum.
 • takast á við sjálfstæðan rekstur, verslunarstjórn og ráðgjöf á sviði blómaskreytinga.

Einingafjöldi Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni

240  fein.

Kjarni Skylduáfangar brautarinnar


Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Hlutfall eininga á þrepum í kjarna
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
 
 
 
 

Frjálst Val Aðrir óskilgreindir áfangar sem nemendur geta valið/metið á námsbrautinni

Nei, frjálst val er ekki leyft

Grunnþættir og lykilhæfni Hvernig unnið er með grunnþætti og lykilhæfni

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar:
 • Í blómaskreytinganámi er lögð áhersla á ítarlega áætlanagerð varðandi efnisval og kostnað og samanburð milli mismunandi valkosta. Í verklegum blómaskreytingum læra nemendur meðal annars að áætla efnismagn við gerð blómaskreytinga og að velja þá leið sem er hagkvæmust fyrir viðskiptavininn, án þess að slá af kröfum um gæði verka sinna. Jafnframt vinna nemendur verkefni þar sem þeir kynna fyrir samnemendum sínum niðurstöður sem byggja meðal annars á talnagögnum. Í rekstrar- og markaðsáföngum læra nemendur um rekstrarumhverfi fyrirtækja og læra að lesa í helstu kennitölur rekstrarins.
Námshæfni:
 • Stuðlað er að aukinni námshæfni nemenda í gegnum fjölbreytt verkefni. Nemendur fá þjálfun í að tengja viðfangsefni ólíkra námsgreina saman með raunhæfum verkefnum, eins og gert er í lokaverkefni í blómaskreytingum. Nemendur læra grunnatriði teikningar og litafræði og nota þá kunnáttu sína í verklegum blómaskreytingum þar sem nemendur teikna upp verkefni sín fyrirfram og vinna eftir eigin teikningum. Nemendur læra að vinna hratt og örugglega að verkefnum sínum því oft er unnið með lifandi efnivið sem endist skammt. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur setji sér markmið við verkefnavinnu og vinni markvisst að því að ná settum markmiðum.
Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar:
 • Nemendur fá þjálfun í að nýta sköpunarkraft sinn við gerð blómaskreytinga, sem jafnframt uppfylla kröfur um gæði og viðurkennda aðferðafræði og grunnreglur blómaskreytinga. Nemendur læra grunnatriði í teikningu, form- og litafræði og listasögu og fá verkefni sem krefjast þess að þeir nýti sér þessa þekkingu sína til sköpunar í blómaskreytingum. Nemendur læra jafnframt framsetningu vara og upplýsinga þar sem frumleiki og fjölbreytni er í fyrirrúmi, allt í því augnamiði að fanga athygli viðskiptavinarins.
Jafnrétti:
 • Nemendur eru allir jafnir og í hópavinnu gildir jafnræði. Lögð er rík áhersla á það við nemendur að þeir komi fram við alla af virðingu og kurteisi. Unnið er markvisst að því að nemendur líti svo á að allir séu jafningjar, meðal annars með samræmdum kröfum til nemenda við hvers konar verkefnavinnu, óháð bakgrunni nemenda. Á lokaprófum í verklegum blómaskreytingum er til dæmis fenginn utanaðkomandi prófdómari til að tryggja jafnrétti nemenda.
Menntun til sjálfbærni:
 • Nemendur læra að nýta sér þann efnivið sem er í nánasta umhverfi við gerð verkefna, flokka úrgang og huga að endurnýtingu, meðal annars í áfanga um vistvæna nýsköpun. Nemendur læra að nýtni er nauðsynleg til að rekstur blómaskreytingafyrirtækja sé arðbær. Auk þess þurfa þeir að læra að lesa í og skilja umhverfi sitt og gera sér um leið grein fyrir hvaða efni er óhætt að nota í blómaskreytingar. Skólinn leggur áherslu á sjálfbærni í skólastarfinu og að kynna hana fyrir nemendum, eins og það að stór hluti þeirra matvæla sem notuð eru í mötuneyti skólans kemur úr eigin framleiðslu og ræktun.
Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum:
 • Nemendur fá þjálfun í að afla sér upplýsinga um fagsvið sitt á ensku og norðurlandamálum, meðal annars í verkefnavinnu í ýmsum áföngum og læra þannig fagorð greinar sinnar á viðkomandi tungumálum. Þessi þjálfun auðveldar nemendum að eiga í samskiptum við kollega sína í öðrum löndum og gerir þá hæfari til að fylgjast með nýjungum á fagsviði sínu. Notast er við erlent námsefni í sumum áföngum skólans og eru nemendur þannig knúnir til að kynnast erlendu fagmáli. Í séráföngum plöntuþekkingar er unnið með vísindaheiti plantna og öðlast nemendur mikla þjálfun í notkun þeirra sem er nauðsynlegt til að geta aflað sér upplýsinga um plöntur á alþjóðlegum vettvangi.
Heilbrigði:
 • Stór hluti blómaskreytinganámsins fer fram með verklegri kennslu sem gerir það að verkum að nemendur fá töluverða hreyfingu á meðan á skólastarfi stendur. Í upphafi náms læra nemendur um vinnuvistfræði og hvernig best er að beita líkama sínum í vinnu til að koma í veg fyrir álagstengd einkenni. Það stuðlar að líkamlegu heilbrigði nemenda. Áhersla er lögð á að bjóða upp á hollt fæði í mötuneyti skólans, meðal annars heimaræktað grænmeti og eru nemendur meðvitaðir um það.
Læsi, tjáning og samskipti á íslensku:
 • Nemendur fá þjálfun í að afla sér upplýsinga um fagsvið sitt á íslensku og að miðla þekkingu sinni til annarra með margvíslegum hætti. Nemendur fá þjálfun í að kynna verkefni sín jafnt og þétt allan námstímann til að styrkja sig í tjáningu. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur geti rökrætt við aðra fagaðila, á fagmáli greinarinnar og fá nemendur tækifæri til þess, meðal annars með reglulegum heimsóknum í fyrirtæki á fagsviði blómaskreytinga. Þannig þjálfast nemendur í samskiptum við annað fagfólk innan greinarinnar.
Lýðræði og mannréttindi:
 • Nemendur bera ábyrgð á sínu námi og sýna öðrum virðingu. Í gegnum hópavinnu fá nemendur þjálfun í að taka tillit til annarra sjónarmiða og að taka lýðræðislegar ákvarðanir, byggðar á upplýstri afstöðu. Í hópavinnu skipta nemendur sjálfir með sér verkum sem getur krafist lýðræðislegra vinnubragða. Við kynningar á verkefnum nemenda taka allir þátt í rökræðum og uppbyggilegri gagnrýni, einkum og sér í lagi þegar stærri verkefni eru til kynningar. Nemendur kjósa sér stjórn í nemendaráð sem sér um hagsmuna- og félagsmál nemenda. Jafnframt kjósa nemendur blómaskreytingabrautar einn fulltrúa í skólaráð sem sér um að gæta hagsmuna nemenda gagnvart skólayfirvöldum.