Námsbraut

Titill brautar: Námsleið: Námslok:
Öldrunarhjúkrun sjúkraliða (Staðfestingarnúmer 33) 16-33-4-11 framhaldsnám heilbrigðisgreina hæfniþrep 4
Lýsing: Sjúkraliði með framhaldsnám í öldrunarhjúkrun sýnir fagmennsku í samskiptum við skjólstæðinga, samstarfsfólk og gagnvart samfélaginu í heild. Hann er fær um að taka að sér aukna ábyrgð í starfi sem gæti falist í því að bera ábyrgð á vöktum og hjúkrunareiningum. Sjúkraliði með framhaldsnám í öldrunarhjúkrun er þátttakandi í meðferðar- og teymisvinnu og getur tekið að sér klínísk verkefni í öldrunarhjúkrun. Hann getur búið til fræðsluefni og miðlað þekkingu um viðfangsefni öldrunarhjúkrunar til skjólstæðinga, nemenda og samstarfsmanna. Markmið framhaldsnáms sjúkraliða í öldrunarhjúkrun er að bæta þjónustu við aldraða einstaklinga og efla enn frekar hæfni sjúkraliða í starfi. Að námi loknu eiga sjúkraliðar að geta tekist á við fjölbreyttari og meira krefjandi verkefni, verið sjálfstæðari í störfum sínum og geta veitt heildræna og samfellda öldrunarþjónustu.

Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar

Inntökuskilyrði: Nemendur sem innritast í framhaldsnám fyrir sjúkraliða þurfa að hafa lokið sjúkraliðanámi og hafa starfsleyfi sjúkraliða hér á landi og hafa unnið sem sjúkraliðar með starfsréttindi í a.m.k. 3 ár. Nemendur skulu hafa góða enskukunnáttu, hafa lokið áfanga í ensku á 3. þrepi eða sambærilegu námi. Jafnframt þurfa þeir að hafa lokið áfanga í lyfjafræði á 2. þrepi eða sambærilegum áfanga í sjúkraliðanámi. Nemendur skulu hafa góða þekkingu, leikni og hæfni í upplýsingatækni, þar með talið í helstu ritvinnsluforritum.
Skipulag: Námslok eru skilgreind á 4. hæfniþrepi framhaldsskóla. Námið er samtals 63 framhaldsskólaeiningar (feiningar) sem skiptast í almenna áfanga á heilbrigðissviði (18 fein) og sérhæfða áfanga á öldrunarsviði (45 fein). 84% námsins eru á 4. hæfniþrepi og 16 % námsins á 3. hæfniþrepi. Námslengd er 1 ár miðað við fullt nám. Stígandi náms í framhaldsnámi fyrir sjúkraliða samkvæmt þessari námskrá birtist einkum í uppröðun áfanga í námsferli nemenda. Kennsla í almennum áföngum á heilbrigðissviði fer fram samhliða sérhæfðum áföngum. Starfsnám er samþætt bóklegu námi í hjúkrun aldraðra. Námið er byggt upp af almennum áföngum sem eru sameiginlegir fyrir allt framhaldsnám á 4. hæfniþrepi heilbrigðissviðs (FAME4FH04 Fagmennska í starfi, HEVÍ3ME03 Heilbrigðisvísindi, KENN3KK04 Kennslufræði heilbrigðisstétta, STÍH4GV04 Stjórnun í heilbrigðisþjónustu, UPPT3US03 Upplýsingatækni innan heilbrigðisþjónustunnar) og sérgreinaáföngum (LYFA4ÖL05 Lyf og aldraðir, SÁLF4BS04 Sálfræði og samskipti, ÖBLS4ÖS06 Öldrunarbreytingar og langvinnir sjúkdómar, ÖLHJ4HK05 Öldrunarhjúkrun I, ÖLHJ4VM10 Öldrunarhjúkrun II, ÖLHJ4HS10 Öldrunarhjúkrun III, ÖLHJ4HÞ5 Öldrunarhjúkrun IV) .
Námsmat Með námsmati er kannað að hve miklu leyti nemandi hefur náð settum markmiðum í viðkomandi áföngum. Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat, svo sem leiðsagnar- og símat, skrifleg lokapróf, umræðufundi, styttri og lengri verkefni og kynningar. Í starfsnámi færir nemandi ferilbók og vinnur verkefni undir leiðsögn kennara eða leiðbeinenda á verknámsstað.
Starfsnám: Starfsnám er samþætt bóklegu námi í hjúkrun aldraðra í áföngunum öldrunarhjúkrun III og IV. Nemendur vinna verkefni á hjúkrunarheimilum, öldrunarlækningadeildum, dagdeildum, þjónustumiðstöðvum aldraðra eða í tengslum við heimahjúkrun aldraðs fólks. Tilgangur starfsnáms er að nemendur verði hæfir til þess að yfirfæra faglega þekkingu, læri að forgangsraða verkefnum á vettvangi og þjálfist í vinnubrögðum og aðferðum á starfsvettvangi. Námið miðar að því að undirbúa nemendur til þess að standast kröfur sem koma fram í hæfniviðmiðum námsbrautarinnar og kröfum samfélagsins um enn betri öldrunarþjónustu. Skólinn gerir samning við öldrunarstofnanir um starfsnám sjúkraliða í framhaldsnámi í öldrunarhjúkrun. Í starfsnámi þurfa nemendur að færa ferilbók og vinna verkefni sjálfstætt eða undir leiðsögn. Ferilbók er hluti af námsmati.
Reglur um námsframvindu: Nemendur þurfa að hafa lokið öllum áföngum hverrar annar með viðunnandi árangri til þess að geta haldið áfram námi á næstu önn.
Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

  • standast kröfur sem gerðar eru til fagmanna með því að skipuleggja og forgangsraða störfum sínum við öldrunarhjúkrun með þarfir allra skjólstæðinga í huga.
  • sýna sjálfstæði og ábyrgð í störfum sínum við öldrunarhjúkrun og vera góð fyrirmynd.
  • meta ástand einstakra skjólstæðinga og ákveðinna hópa skjólstæðinga á jafnréttisgrundvelli og taka ákvörðun um hvenær frávik þarfnast sérstakra viðbragða, meðferðar og/eða eftirlits annarra.
  • taka þátt í þverfaglegu samstarfi við upplýsingasöfnun, greiningu vandamála, markmiðasetningu, mat á árangri meðferðar og við gerð útskriftaráætlana í samvinnu við aðra meðferðaraðila með þarfir skjólstæðinga í huga.
  • nota sérhæfða þekkingu sína, leikni og hæfni á fjölbreyttan og skapandi hátt í starfi með öldruðum og innan öldrunarþjónustunnar.
  • fylgja því eftir að gæði þjónustu við aldraða einstaklinga séu í samræmi við stefnu viðkomandi stofnunar, heilbrigðislög, lög um réttindi sjúklinga og önnur þau lög og reglugerðir sem snúa að þjónustu skjólstæðinga.
  • miðla þekkingu til skjólstæðinga, samstarfsmanna og nema á fjölbreyttan og skapandi hátt.
  • taka þátt í aðlögun nýrra starfsmanna í starf með þarfir starfsmanna og stofnunar í huga.
  • vera þátttakandi í gerð gæðahandbóka og gæðaskjala til þess að bæta enn frekar þjónustu við skjólstæðinga.
  • nota þau upplýsingakerfi sem notuð eru í öldrunarþjónustu.
  • bera ábyrgð á eigin starfsþróun á skapandi hátt með því að fylgjast með nýjungum í öldrunarhjúkrun og hagnýta þá þekkingu í starfi.

Einingafjöldi Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni

63  fein.

Kjarni Skylduáfangar brautarinnar


Sameiginlegir áfangar framhaldsnáms á heilbrigðissviði og sérhæfðir áfangar í öldrunarhjúkrun
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Hlutfall eininga á þrepum í kjarna
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
 
 
 
 

Frjálst Val Aðrir óskilgreindir áfangar sem nemendur geta valið/metið á námsbrautinni

Nei, frjálst val er ekki leyft

Grunnþættir og lykilhæfni Hvernig unnið er með grunnþætti og lykilhæfni

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar:
  • Í Framhaldsnámi sjúkraliða í öldrunarhjúkrun er unnið með læsi, tjáningu og samskipti um tölur og aðrar upplýsingar með því að nemendur þjálfast í að lesa úr tölum og upplýsingum og túlka upplýsingar og tölur sem settar eru fram í línuritum, gröfum og töflum í námsefni og rannsóknaskýrslum. Í áfanga í heilbrigðisvísindum er fjallað um hugtök eins og normaldreifingu, staðalfrávik, meðaltöl, línulegt samhengi o.fl. Í upplýsingatækni og stjórnun þjálfast nemendur í að verða læsir á tölulegar upplýsingar sem tengjast kostnaðargreiningarlíkönum og fjármögnun í heilbrigðiskerfinu.
Námshæfni:
  • Í Framhaldsnámi sjúkraliða í öldrunarhjúkrun er unnið með námshæfni með því að nemendur vinna fjölbreytt verkefni, sem reyna á margvíslega þekkingu, færni og hæfni. Í náminu er unnið með námsefnið á fjölbreyttan hátt og gefinn er kostur á vali þar sem komið er til móts við ólík áhugasvið og styrkleika nemenda. Mikil áhersla er lögð á samvinnunám og hópastarf sem byggist á valddreifingu og valdeflingu. Námsmatið á brautinni er fjölbreytt og endurspeglar hæfniviðmið námsins. Það felur í sér leiðsagnar- og símat, kynningar, smá og stór verkefni og lokapróf.
Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar:
  • Í Framhaldsnámi sjúkraliða í öldrunarhjúkrun er unnið með skapandi hugsun og hagnýtingu þekkingar í öllum áföngum þar sem reynir á úrvinnslu námsefnis og framsetningu verkefna á fjölbreyttan og skapandi hátt. Reynsla nemenda úr starfi verður notuð, þegar tilefni gefst til þess að ígrunda og skoða aðstæður í nýju ljósi. Í starfsnámi vinna nemendur oft í aðstæðum þar sem reynir á hugkvæmni og sköpun við lausn verkefna.
Jafnrétti:
  • Í Framhaldsnámi sjúkraliða í öldrunarhjúkrun er unnið með jafnrétti með því að fjalla um rétt beggja kynja til heilbrigðisþjónustu, menntunar, atvinnu og velsældar án tillits til aldurs, líkamsástands, búsetu og félagslegrar stöðu. Þetta skarast við grunnþáttinn lýðræði og mannréttindi en sjónarhornið verður þrengra. Einnig er fjallað um hvað aðgreinir kynin þegar kemur að heilbrigðisvitund, viðhorfum til heilbrigðis og þess að nýta sér heilbrigðisþjónustu.
Menntun til sjálfbærni:
  • Í Framhaldsnámi sjúkraliða í öldrunarhjúkrun er unnið með menntun til sjálfbærni með því að leggja áherslu á ábyrgð hvers einstaklings á eigin heilsu og hvað einstaklingar geta gert til þess að viðhalda heilbrigðum lífsstíl á efri árum þrátt fyrir öldrunarbreytingar og aukna sjúkdómatíðni. Lögð er áhersla á gildi fyrirmynda og að nemendur sjálfir ástundi heilbrigðan lífsstíll.
Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum:
  • Í Framhaldsnámi sjúkraliða í öldrunarhjúkrun er unnið með læsi, tjáningu og samskipti á erlendum tungumálum með því að nemendur lesa hluta af námsefninu á ensku og þurfa að miðla því á íslensku á margvíslegan hátt. Nemendur lesa bæði kennslubækur, faggreinar og rannsóknarskýrslur í fagtímaritum á ensku.
Heilbrigði:
  • Í Framhaldsnámi sjúkraliða í öldrunarhjúkrun er unnið með heilbrigði og velferð í öllum áföngum þar sem þessir þættir mynda meginþema námsins. Í hjúkrunaráföngum er fjallað um afleiðingar öldrunar og heilsubrests á líðan og færni aldraðra, hvernig þessar afleiðingar eru metnar, helstu viðbrögð og bjargráð. Jafnframt er fjallað um þætti, sem áhrif hafa á heilsufar á efri árum, eins og næringu, svefn og hvíld, hæfilega hreyfingu og góð tengsl við fjölskyldu og samferðamenn. Fjallað um helstu líkamlegu andlegu og félagslegu breytingar efri ára og hvernig hægt er að aðlagast þeim á heilbrigðan máta.
Læsi, tjáning og samskipti á íslensku:
  • Í Framhaldsnámi sjúkraliða í öldrunarhjúkrun er unnið með læsi tjáningu og samskipti á íslensku með því að nemendur lesa námsefnið á íslensku og tjá sig um það bæði munnlega og skriflega. Þeir þurfa að lesa námsefnið, greina það og túlka og í flestum tilfellum miðla áfram til kennara eða annarra nemenda skriflega og munnlega. Í náminu fara samskipti fram á íslensku bæði um námsefnið og almennt. Nemendur vinna í hópum með ákveðin verkefni og þurfa að afla upplýsinga, skiptast á skoðunum og komast að sameiginlegri niðurstöðu um verkefnin. Í mörgum áföngum þurfa nemendur einir eða í samvinnu við aðra nemendur að flytja verkefni upphátt fyrir aðra nemendur og kennara og svara spurningum.
Lýðræði og mannréttindi:
  • Í Framhaldsnámi sjúkraliða er unnið með lýðræði og mannréttindi með það að leiðarljósi að allir eigi siðferðislegan og lagalegan rétt til heilbrigðisþjónustu án tillits til þjóðfélagstöðu, sjúkdómsástands, kyns eða þjóðernis. Mikil áhersla er lögð á að styrkja þessi viðhorf hjá nemendum. Í náminu er mikil áhersla lögð á að öll samskipti milli kennara og nemenda, nemenda innibyrðis og nemenda og skjólstæðinga einkennist af virðingu og lýðræðislegum vinnubrögðum.