Námsbraut

Titill brautar: Námsleið: Námslok:
Almennt nám matvæla- og ferðagreina (Staðfestingarnúmer 150) 19-150-1-2 grunnnám starfsgreina hæfniþrep 1
Lýsing: Almennt nám matvæla- og ferðagreina er námsbraut með námslokum á fyrsta þrepi. Námið er ætlað nemendum sem stefna að frekara námi í matvæla og ferðagreinum. Námið felur í sér almenna menntun þar sem lögð er áhersla á alhliða þroska nemanda og lýðræðislega virkni. Námið er undirbúningur fyrir iðnnám í bakstri, framreiðslu, kjötiðn og matreiðslu og en einnig er það undirbúningur fyrir frekara nám í matartækni og/eða í ferðaþjónustu. Námið er tveggja anna nám 63 einingar, sem skiptist í bóklegar og verklegar faggreinar sem og kjarnagreinar í íslensku, ensku og stærðfræði. Í framhaldi af brautinni geta nemendur farið í frekara nám að eigin vali. Áfanga af brautinni er hægt að meta inn á aðrar námsbrautir. Nemendur fá bæði starfskynningu í ferða- og matvælagreinum á vinnustöðum og fara í vinnustaðanám að eigin vali. Námið veitir tveggja mánaða styttingu á verknámi í iðngrein þeirri sem nemandi velur sér.

Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar

Inntökuskilyrði: Nemendur skulu hafa lokið grunnskólaprófi eða ígildi þess. Nemendur sem náð hafa hæfnieinkunn B eða hærra í kjarnagreinum við lok grunnskóla eða lokið fyrsta þreps áfanga innritast í annars þreps áfanga í þeim greinum.
Skipulag: Námið er bæði bóklegt og verklegt. Mestur hluti þess fer fram í skóla en þó fara nemendur í 48 kennslustundir í starfskynningu/starfsþjálfun á vinnustað. Þar öðlast nemendur þekkingu og leikni til að takast á við mismunandi störf sem tengjast ferða- og matvælagreinum. Almennir bóklegir áfangar í skóla eru íslenska, enska og stærðfræði og eru þeir á fyrsta þrepi. Hafi nemandi náð lágmarskárangri úr grunnskóla tekur hann áfanga af öðru þrepi eftir því sem við á. Nemendur taka einnig tvo íþróttaáfanga. Nemendur taka fagtengda áfanga í innraeftirliti og matvælaöryggi, næringarfræði, öryggismál og skyndihjálp, tölvuáfanga og örverufræði. Kjörsviðið er 40 feiningar og skiptist í fag- og örverufræði matvælagreina, verklega færniþjálfun ferða- og matvælagreina, verklega þjálfun á vinnustað og tvo valáfanga sem eru á sérsviði hvers skólasvæðis. Í áfanganum verkleg þjálfun á vinnustað fara nemendur í starfskynningar þar sem þeir fá tækifæri til að kynnast betur þeim ferða- og matvælagreinum sem þeir hafa áhuga á. Nemendur sem ljúka þeim áföngum sem eru á brautinni fá metnar sex vikur úr vinnustaðaþætti námsins sem starfsþjálfun á þeirri námsbraut sem þeir velja í framhaldi af grunnámsbrautinni.
Námsmat Námsmat brautarinnar er fjölþætt. Fer það fram með skriflegum-, munnlegum- og verklegum prófum, verkefnamati, ástundun o.fl. Hvað varðar verklega þátt námsins á vinnustað fá nemendur hann metinn út frá gefnum forsendum.
Starfsnám: Lengd starfskynningar er 18-24 klst. á hvorri önn. Hún fer fram í fyrirtækjum sem hafa fjölbreytta faglega færni tengda þeim störfum sem um ræðir. Hér er átt við fyrirtæki í ferðaþjónustu s.s. ferðaskrifstofur, hótel, kjötvinnslur, gróðurhús, fiskvinnslu, bakarí, veitingastaði o.fl. Það er á ábyrgð hvers skóla að skipuleggja starfskynningar nemenda þannig að þeir fái tækifæri til að kynnast ólíkum störfum í ferða- og matvælagreinum. Í þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga, er gerð krafa um að iðnmeistari eða sveinn í iðngrein annist starfskynninguna.
Reglur um námsframvindu: Einingafjöldi brautar eru 63 einingar. Nemandi þarf að ná einkunninni 5 til að standast áfanga brautarinnar. Námstími GMF eru 2 annir. Nemandi þarf að ljúka undanförum til þess að halda áfram námi í hverri grein fyrir sig þar sem við á.
Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

 • vera virkur þegn í lýðræðisþjóðfélagi og bera virðingu fyrir ólíkri menningu
 • gera sér grein fyrir mikilvægi þess að bera ábyrgð á eigin líkama og heilsu
 • afla sér frekara náms í greinunum
 • fjalla um mismunandi störf í matvæla- og ferðaþjónustu
 • vinna mismunandi störf í matvæla- og ferðaþjónustugreinum undir handleiðslu iðnmeistara og/eða tilsjónarmanns
 • gera sér grein fyrir mikilvægi þess að fylgja viðurkenndum starfsaðferðum sem notaðar eru við störf í ferða- og matvælaiðnaði
 • tengja mikilvægi eigin hreinlætis við kröfur um hreinlæti sem gerðar eru í öllum störfum (HACCP) í matvælagreinum
 • eiga samskipti við fólk byggð á skilningi og virðingu
 • bera ábyrgð á eigin framkomu, hafa skýra sýn á þjónustuhlutverkið og geta tekið afstöðu til álitamála sem kunna að koma upp
 • meta öryggi og aðbúnað á vinnustað og geta brugðist rétt við grunnþáttum skyndihjálpar

Einingafjöldi Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni

63  fein.

Kjarni Skylduáfangar brautarinnar


Bóklegt og verklegt grunnnám í matvæla- og ferðagreinum
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Hlutfall eininga á þrepum í kjarna
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
 
 
 
 

Frjálst Val Aðrir óskilgreindir áfangar sem nemendur geta valið/metið á námsbrautinni

Lýsing: Nemendur sem ljúka þeim áföngum sem eru á brautinni fá metnar sex vikur úr vinnustaðaþætti námsins sem starfsþjálfun á þeirri námsbraut sem þeir velja í framhaldi af grunnámsbrautinni.

Grunnþættir og lykilhæfni Hvernig unnið er með grunnþætti og lykilhæfni

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar:
 • Nemendur þurfa að tileika sér stafrænt læsi( tölvulæsi) til að geta notað tölvu við undirbúningsvinnu, öflun upplýsinga, flokkun heimilda og hugmynda.
Námshæfni:
 • Sjálfsþekking er mikilvæg hverjum nemanda sem þarf að læra að þekkja eigin styrk og getu en jafnframt veikleika og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Verkefni á GMF braut þjálfa færni og um leið sjálfstraust nemenda til að fara ókunnar leiðir í átt til meiri þekkingar og færni í greinum sem tengjast störfum ferða- og matvælaiðnaðar. Lokamarkmið námsins eru skýr og að þeim eru nemendur leiddir í gegnum námið. Nemendur öðlast jafnframt þann grunn sem áframhaldandi nám innan faggreina ferða- og matvælagreina krefjast.
Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar:
 • Í matvælagreinum er sköpun mikilvæg en hún felur í sér mótun og miðlun á fjölbreyttum viðfangsefnum, að nemandinn fái tækifæri til að takast á við viðfangsefni með annarri nálgun en áður. Nemendur á GMF braut takast daglega á við ögrandi verkefni. Það reynir á útsjónarsemi, færni, skipulag og fagurfræði í öllum verkefnum sem nemendur þjálfast í. Þeir fá verkefni við að útfæra eigin hugmyndir og gera tilraunir með ólík hráefni. Þá eru nemendur hvattir til að æfa sig heima í verkefnum sem tilheyra hæfnimarkmiðum námsins. Hér þarf nemandi að sameina þætti, eins og gagnrýna hugsun og sköpun, þannig að úr verði afurð sem hefur notagildi.
Jafnrétti:
 • Hugað er að því að allir nemendur geti þroskast á eigin forsendum, hafi jafnan rétt og jöfn tækifæri, óháð kyni, aldri í námi og starfsþjálfun. Menntun til jafnréttis í námi á GMF snýst um hvernig aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni og þjóðerni skipta ekki máli. Viðurkennir sérstöðu og hæfileika allra nemenda, sem og jafnræði um aðgang að kennurum, vinnustað og námsefni innan námsbrautarinnar.
Menntun til sjálfbærni:
 • Nemendur á GMF eru þjálfaðir í sjálfbærri hugsun með því að nýta vel þau aðföng sem til þarf, að ígrunda vel innihald og uppruna hráefnis, að huga að umgengni við vinnuumhverfi námsins, að flokka úrgang og nýta afganga sem best. Einnig er lögð áhersla á upplýsta þekkingu á nýtingu orku við matvæla og ferðaþjónustu og á virðingu fyrir náttúruauðlindum sem nýttar eru í náminu. Námið tekur mið af neytendavernd og beinir sjónum að matvælaöryggi, velferð og heilbrigði dýra, rekjanleika matvæla , heilbrigðum matarvenjum og lífstíl.
Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum:
 • Hins vegar er nemendum gerð ljós grein fyrir mikilvægi þekkingar í erlendum tungumálum við störf í ferðatengdum störfum. Menningarlæsi er mikilvægt til að öðlast færni í að þjónusta fólk af ólíku þjóðerni.
Heilbrigði:
 • Með heilbrigði er vísað til andlegs, félagslegs og líkamlegs atgervis. Einnig er lögð áhersla á mikilvægi hreinlætis, jákvæðra samskipta og virðingar, hvort sem um er að ræða samskipti við fólk, náttúru eða eignir. Í GMF er lögð áhersla á mikilvægi heilbrigðs lífstíls með tilliti til líkams- og heilsuræktar. Leitast er við að þjálfa nemendur í að huga að hollustu og næringarinnihaldi, hvort sem við á um eigin neyslu eða þess hráefnis sem unnið er með, gæta að vinnuaðstæðum m.t.t. forvarna, áhættu, hreinlætis og slysa.
Læsi, tjáning og samskipti á íslensku:
 • Á námsbraut GMF er mikil áhersla lögð á samvinnu og skilning nemenda á grunni fjölbreyttra starfa í ferða og matvæla greinum. Námið fer fram á íslensku og er mikilvægt að nemendur skilji það námsefni sem lagt er til grundvallar. Nýttar eru leiðbeiningar og uppskriftir á íslensku.
Lýðræði og mannréttindi:
 • Menntun til lýðræðis og mannréttinda er fólgin í að nemendur taki gagnrýna afstöðu til siðferðilegra álitamála, axli samábyrgð og verði virkir þjóðfélagsþegnar. Nemendur koma úr ólíku umhverfi og hafa ólíkan bakgrunn. Réttur allra til náms er skýr, forsendur námsins byggja á hæfileikum hvers og eins til að þjálfa sig í þeim vinnubrögðum sem námið krefur. Nemendur hafa val um verkefni innan námsins en þurfa að þjálfa sig í öllum færniþáttum þess. Það er réttur hvers og eins að fá tækifæri til að ná árangri. Þar reynir á umburðarlyndi, tillitsemi og þolinmæði hópsins í heild óháð hver á í hlut. Ekki síst þarf kennarinn að þekkja réttindi og skyldur sínar gagnvart nemendum.