- Myndlæsi er eitt lykilatriða í náminu og vinna með myndræna þætti, s.s. formfærði og mynduppbyggingu er meginþáttur í verklegum áföngum og ríkur þáttur í þeim bóklegum áföngum sem kenndir eru á námsbrautinni.
- Í tengslum við ýmsa verklega vinnu nemenda s.s. í myndverum og myrkraherbergisvinnu er hugað að hlutföllum, stærðum, magni og fleiru því tengt. Eins þarf í tengslum við listsköpun nemenda og ígrundun þeirra á listaverkum annarra að taka tillit til hlutfalla, stærða og forms með ýmsum hætti. Nemendur vinna með margskonar geómetrískar upplýsingar í tengslum við myndbyggingu. Í myrkraherberginu er unnið með blöndun vökva og hlutföll ýmissa efna sem notuð eru við myndsköpun. Í vinnu í myndvinnsluforritum er unnið með hlutföll, skala og ýmsa möguleika forritanna til persónulegrar útfærslu.
- Í lista- og ljósmyndasögu og skyldum áföngum öðlast nemandinn þjálfun í myndgreiningu og myndlæsi jafnt sem túlkun á myndverkum. Áhersla er lögð á að varpa ljósi á hverskonar listaverk í þjóðfélagslegu samhengi, s.s. við stjórnmál, efnahag og hefðir.
- Í lista- og ljósmyndasögu og skyldum áföngum öðlast nemandinn þjálfun í myndgreiningu og myndlæsi jafnt sem túlkun á myndverkum. Áhersla er lögð á að varpa ljósi á hverskonar listaverk í þjóðfélagslegu samhengi, s.s. við stjórnmál, efnahag og hefðir.
- Að nemendur geri sér grein fyrir siðferðilegri ábyrgð ljósmyndasköpunar í fjölmiðlun nútímasamfélagsins og hvernig henni er beitt.
|
- Námið sem boðið er upp á á námsbrautinni er góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám í hverskonar skapandi ljósmyndun, myndlist eða öðrum skapandi greinum. Námið er metið til háskólaeininga og geta nemendur sótt um að ljúka háskólagráðu við erlenda háskóla eða íslenska en það er undir viðkomandi háskóla komið hvort námið er metið til fulls eða að hluta til.
- Á námsbrautinni er markvisst unnið að því að efla sjálfstæði nemenda í vinnubrögðum. Verklegum áföngum og vinnustofum lýkur að jafnaði með skilatíma eða yfirferð þar sem hver nemandi gerir grein fyrir hugmynd sinni og vinnuferli og fær spurningar og athugasemdir frá kennara og samnemendum. Í skólanum er áhersla á sjálfsmat, jafningjamat og þátttöku nemenda í umræðum t.d. um verk samnemenda, með þeim hætti læra nemendur að meta eigin vinnubrögð og annarra og að beita gagnrýni á ábyrgan hátt.
- Kennslu- og námsaðferðir eru fjölbreyttar og reyna á ýmsa hæfni. Jöfnum höndum er unnið að því að kynna nýja þekkingu fyrir nemendum og að gefa þeim kost á að vinna með efni og hugmyndir sem þeir þekkja vel. Eftir því sem lengra líður á námið eru gerðar meiri kröfur um sjálfstæði í vinnubrögðum og að nemendur nýti þekkingu sína og fyrri námsreynslu við lausn nýrra viðfangsefna.
- Í öllum áföngum þurfa nemendur að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum og takast á við ýmsar áskoranir. Nemendur þurfa stöðugt að meta eigið vinnuframlag og læra þannig að þekkja styrk sinn og veikleika og að setja sér raunhæf markmið. Í listrænni vinnu er sjaldnast eitt rétt svar. Því er viðmið hvers nemanda hans eigin verk og markmiðið að bæta eigin frammistöðu í stað þess að miða sig við samnemendur.
- Í lista- og ljósmyndasögu og í kenninga- og hugmyndafræðiáföngum er rík áhersla lögð á að nemendur fái þjálfun í að skrifa og byggja upp læsilegan texta, meta gildi og áreiðanleika heimilda og að tengja tilvitnanir eigin umfjöllun og leggja út af þeim.
- Í vinnustofuáföngum velja nemendur sér viðfangsefni og skipuleggja vinnu sína í samráði við leiðbeinanda.
- Undir lok námsins leggja nemendur lokaverkefni sín fyrir rýninefnd skólans og verða þar að geta útskýrt vinnuferli sitt og hugmyndir. Það er hlutverk rýninefndar að gefa nemendum gagnlegar ábendingar um verkin, það sem betur gæti farið og að benda á möguleika í útfærslu þeirra.
- Við lok náms taka nemendur þátt í samsýningu allra útskriftarnema. Í þeirri vinnu er lögð sú ábyrgð á herðar nemenda að sýna sjálfstæð og skapandi vinnubrögð og setja fram raunhæfa tímaáætlun og standast hana. Uppsetning á því efni sem ætlunin er að sýna og utanumhald er sömuleiðis ábyrgðarstarf. Nemendur þurfa að geta lagt mat á eigið vinnuframlag og þróað verkefni sín og tekið tillit til endurgjafar leiðbeinanda og kennara. Ætlast er til að nemendur geti, á sýningunni, rætt um eigin verk sem og verk samnemenda sinna við gesti og gert tilraun til túlkunar á þeim.
|
- Á námsbrautinni er ljósmyndun kennd með sköpun að leiðarljósi. Í öllum áföngum, bæði bóklegum og verklegum, reynir því á frumkvæði og skapandi hugsun nemandans sem þarf að beita sköpunargáfu sinni við úrlausnir verkefna, framsetningu þeirra sem og við kynningu á niðurstöðum sínum.
- Lögð er áhersla á sjálfstæði í vinnubrögðum, að nemandi tileinki sér aðferðir við að vinna, halda utan um og hafa yfirsýn yfir eigin verk. Hann þarf að sýna fram á skipulögð vinnubrögð og að geta lagt fram verkáætlun um hvernig hann hyggst ná markmiðum sínum í einstökum verkefnum.
- Nemanda eru kynntar leiðir til að koma verkum sínum á framfæri. Hann fær leiðsögn í gerð myndamöppu, gerð ferilskrár og markaðsáætlunar.
- Kenndar eru aðferðir við rannsóknar- og hugmyndavinnu. Ennfremur að skrifa texta s.s. greinargerðir, ritgerðir og yfirlýsingar, til útskýringar á ætlunum, hugmyndum og vinnulagi. Nemandinn þarf að geta kynnt niðurstöður sínar og fært fyrir þeim rök.
- Stefnt er að því að nemandi nái að tengja hugmyndir og kenningar um list og listsköpun, eigin verkum og annarra, á gagnrýnin máta. Einnig að nemandi öðlist færni í að fjalla um hugmyndir sínar og verk og setja í hugmyndafræðilegt samhengi.
- Áhersla er á að þjálfa nemandann í að leggja mat á eigin verk, í að taka gagnrýni og athugasemdum á eigin verkefni og verklag og að vinna úr slíkri endurgjöf á uppbyggilegan máta. Einnig hlýtur nemandi þjálfun í því að veita uppbyggilega gagnrýni á verk annarra í umræðum og yfirferðum.
|
- Það er markmið skólans að nemendur verði virkir og ábyrgir borgarar bæði gagnvart samfélaginu og umhverfi sínu. Í öllu skólastarfinu er lögð áhersla á sjálfbærni, sjálfbæra hugsun og endurnýtingu. Sorp er flokkað og nemendur eru eindregið hvattir til að nýta allt efni sem best.
- Áhersla er lögð á að kynna fyrir nemendum hvernig lágmarka má umhverfisáhrif af þeim efnum sem unnið er með, ýmist með endurnýtingu eða frágangi á sorpi. Vökvar og önnur spilliefni sem til falla vegna framköllunaraðstöðu eða annarrar starfsemi í aðstöðu skólans er komið til förgunar eftir viðurkenndum leiðum.
- Virðing fyrir samnemendum, kennurum og öðrum er mikilvægur þáttur í daglegu skólastarfi. Þegar fjallað er á gagnrýninn hátt um verkefni nemenda er lögð rík áhersla á að nemendur átti sig á muninum á smekksdómum og gagnrýni sem studd er faglegum rökum. Nemendur hljóta þjálfun í að tjá sig og rökræða eigin verk og annarra.
|
- Nám í skapandi ljósmyndun krefst þess að nemendur séu færir um að afla sér upplýsinga á erlendum tungumálum og geti metið hverskonar upplýsingar, texta sem og verk erlendra höfunda á gagnrýnin hátt.
- Í skólanum er vel búið bókasafn og þar eru bækur og myndefni á ýmsum tungumálum. Eru nemendur eindregið hvattir til að nýta sér það við hugmynda- og aðra verkefnavinnu.
- Í náminu hljóta nemendur þjálfun í að sækja um styrki, þátttöku á sýningum og hátíðum. Þeir þurfa því meðal annars að rita ferilskrá og kynningarefni á ensku til að auka möguleika á þátttöku í slíkum viðbruðum á erlendri grund.
- Stjórnendur skólans eru vakandi fyrir möguleikum á ýmis konar samstarfi, bæði innanlands og utan en skólinn leitast markvisst við að taka þátt í fjölbreyttum alþjóðlegum samskiptum, s.s. námsferðum til útlanda og kennara- og nemendaskiptum og erlendum fyrirlesurum til þess að auka víðsýni nemenda, efla skilning þeirra á mikilvægi tungumálakunnáttu og veita þeim innsýn í líf og störf fólks erlendis.
- Nemendur á lokaönn námsins fara að jafnaði í útskriftarferð á ljósmyndaátíð eða sýningu erlendis ár hvert. Undirbúa þeir ferðalagið í samstarfi við umsjónarkennara annarinnar og felur það í sér erlend samskipti.
|
- Gengið er út frá því að nemendur beri ábyrgð á sjálfum sér og eigin gjörðum í öllum þáttum skólastarfsins.Þeir eru hvattir til að vera félagslega virkir, tileinka sér aðferðir við jákvæða og uppbyggilega gagnrýni og góð samskipti.
- Í skólastarfinu er lögð áhersla á heilsusamlegan lífsstíl m.a. í tengslum við næringu og hreyfingu
- Nemendur hafa aðgang að eldhúsi og aðstöðu til að matast í skólanum. Þar geta þeir geymt nesti sitt í kæliskáp og þar eru tæki til að hita upp mat og gera þeytinga.
- Nemendur bera ábyrgð á þrifum á mataraðstöðu sinni og er fylgst með því að þar sé gætt fyllsta hreinlætis og að umgengni sé til fyrirmyndar.
- Nemendur skólans eru á breiðu aldursbili, með ólíkan bakgrunn og af ýmsu þjóðerni. Stuðlað er að opnum samskiptum innan skólans til að auka víðsýni og umburðarlyndi, m.a. með sameiginlegum sýningum námsbrauta og ýmsu samstarfi nemenda skólans jafnt innan kennslutíma sem utan.
- Í verklegu námi er gætt að samþættingu kynjasjónarmiða í kennslu og stuðlað að sjálfsvirðingu og sjálfstæði beggja kynja. Áhersla er lögð á fjölbreyttar kennsluaðferðir og kennsluefni til að mæta ólíkum þörfum og áhuga nemenda. Þess er gætt að vitna í heimildir sérfræðinga af báðum kynjum eftir því sem tök eru á.
- Í lista- og ljósmyndasögu er þess gætt að nemendur kynnist verkum listamanna af báðum kynjum og af ólíkum kynþáttum.
- Nemendur skoða listsköpun og listafólk frá öllum heimshlutum, lesa texta eftir fræðifólk af báðum kynjum með fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn. Nemendur eru ætíð hvattir til að horfa gagnrýnum augum á menningarbundin og félagslega ákvörðuð hlutverk kynja og þjóðfélagshópa.
|
- Í öllum áföngum vinna nemendur verkefni sem reyna á samskiptahæfni og tjáningu bæði í rituðu og töluðu máli og þeir þurfa að geta svarað spurningum á málefnalegan hátt og rökstutt skoðanir sínar og niðurstöður. Viðfangsefni nemenda eru oftar en ekki mjög huglæg og því er mikilvæg áskorun fólgin í að skerpa hugsunina og setja hana fram á skýran og skilmerkilegan hátt.
- Nemendur fá æfingu í því að ræða um eigin verk og annarra og þeir þurfa að geta tekið þátt í umræðum um listir, hugmyndir og einstök verk, svarað spurningum á málefnalegan hátt og rökstutt skoðanir sínar og niðurstöður.
- Í náminu hljóta nemendur þjálfun í að sækja um styrki, þátttöku á sýningum og hátíðum. Þeir þurfa því meðal annars að rita ferilskrá og kynningarefni af margvíslegum toga til að auka möguleika á þátttöku í slíkum viðburðum
- Í flestum áföngum þurfa nemendur að gera grein fyrir þekkingu sinni og skoðunum munnlega og taka þátt í samræðum. Ennfremur vinna nemendur mikið með ritað mál. Með aukinni þjálfun verður mál þeirra blæbrigðaríkara, orðaforði fjölbreyttari og málskilningur dýpri það eykur möguleika þeirra á að koma verkum sínum á framfæri
- Í mörgum áföngum þurfa nemendur að skrifa texta; greinargerðir, ritgerðir og yfirlýsingar, til útskýringar á ætlunum sínum, hugmyndum og vinnulagi. Einnig texta sem tengja hugmyndir og kenningar um list og listsköpun eigin verkum og annarra á gagnrýnin máta. Nemendur hljóta þjálfun í því að temja sér að beita tungumálinu á mismunandi vegu og að hafa vald á fræðilegri umræðu, geta beitt þeim orðaforða sem á við innan fagsins sem og að geta tjáð sig persónulega um verk sín og sett fram uppbyggilega gagnrýni á verk annarra.
|
- Allt nám við skólann miðar að því að gera nemendur að virkum og ábyrgum þátttakendum í lýðræðissamfélagi með því að hvetja þau til að mynda sér skoðun og deila henni í umræðum.
- Leitað er eftir viðhorfum nemenda til ákveðinna þátta í þeim tilgangi að bæta skólastarfið með ýmsum hætti. Í lok hvers áfanga er nemendum boðið að fylla út kennslumatskönnun þar sem þeir fá tækifæri til að láta í ljós álit sitt á skipulagi og innihaldi áfanga, námsefni og kennsluháttum. Tvisvar á ári eru Skólafundir og kjósa nemendur sér fulltrúa til að sitja fund með fulltrúum stjórnenda og fagráðs. Niðurstöður þessara funda og kannana eru notaðar til þess að bæta það sem betur má fara. Nemendur eiga enn fremur einn fulltrúa sem situr fagráðsfundi og er hlutverk hans að miðla sýn nemenda á nám og starfshætti skólans og um það sem betur má fara.
- Nemendur eru hvattir til umburðarlyndis og virðingar fyrir mismunandi lífsgildum
|
- Áhersla er lögð á jafnrétti í öllu starfi skólans og jafnrétti endurspeglast í starfsháttum skólans, samskiptum og öllum skólabrag.
- Jafnréttisstefna skólans felur í sér að halda alltaf í öllu starfi, jafnrétti í heiðri. Er brýnt fyrir nemendum og starfsfólki að jafnrétti skuli ríkja. Á það við jafnrétti kynja, jafnrétti einstaklinga eftir trú, kynhneigð, stétt, aldri, kynþætti og litarhætti eða jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra. Umburðarlyndi og víðsýni eru meðal gilda skólans og grannt er fylgst með því að nemendur og starfsmenn virði þau.
- Í náminu er lögð áhersla á að nemendur kynnist sem fjölbreyttustum sjónarmiðum lista- og fræðimanna og fái innsýn í mismunandi samfélög. Er það bæði gert með vali á kennsluefni, kennurum og svo vettvangsferðum og námsferðum.
|