5

Menntun í grunnskóla tekur einkum mið af lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, auk reglugerða sem settar hafa verið við lögin. Í 2. gr. laganna er gerð grein fyrir hlutverki grunnskólans og í 24. gr. er gerð grein fyrir inntaki náms og áhersluatriða sem tengjast ekki sérstaklega tilteknum námsgreinum eða námssviðum. Í 25. gr. segir að í aðalnámskrá skuli setja ákvæði um inntak og skipulag kennslu í tilteknum námsgreinum og námssviðum.

Markmið grunnskóla er samkvæmt lögum tvíþætt. Annars vegar almenn menntun sem stuðlar að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi og hins vegar það hlutverk að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Í því felst að nemandinn geri sér grein fyrir styrkleikum sínum, bæði þeim sem snúa að fræðilegri þekkingu og ekki síður þeim er snerta verkþekkingu og verklega færni. Almenn menntun styrkir þá hæfni einstaklingsins sem talin er nauðsynleg til að viðkomandi geti lifað og unnið í sátt við sjálfan sig, hafi möguleika á að þróast í og með umhverfi sínu og eigi möguleika á að bæta lífsskilyrði sín með því m.a. að geta tekið meðvitaðar ákvarðanir og haldið áfram námi.

Út frá markmiðsgreinum laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla hafa verið dregnir fram grunnþættir menntunar. Þessir grunnþættir ásamt áhersluþáttum, sem tilgreindir eru í 24. gr. grunnskólalaganna, afmarka þá hæfni sem nemendur eiga að tileinka sér í grunnskóla. Tengsl þessara þátta eru skýrð í eftirfarandi mynd.

Í innsta hring er nemandinn sem menntun í grunnskóla snýst um. Næst honum er skilgreind sú hæfni sem stefnt er að nemandinn búi yfir við lok grunnskóla. Í framhaldi af því er fjallað um grunnþætti í íslenskri menntun og lögbundna áhersluþætti grunnskólalaga sem skulu vera leiðarljós í allri menntun og starfsháttum skóla. Í þessum kafla verður fjallað nánar um hvern og einn þessara þátta.

MYND