4

Árin sem barn stundar nám í grunnskóla eru mikilvægt mótunarskeið þess sem einstaklings og þjóðfélagsþegns. Skólanum er ætlað að gefa nemendum tækifæri til að tileinka sér þekkingu, leikni og hæfni sem býr þá undir nám að loknum grunnskóla og ævilangt. Í grunnskóla er lögð undirstaða að þátttöku einstaklinga í lýðræðisþjóðfélagi og þau manngildi ræktuð sem styðja eiga alhliða þroska þeirra, efla vitund um íslenska menningu og virðingu fyrir menningu annarra þjóða.

Samkvæmt lögum nr. 91/2008, um grunnskóla, er grunnskólinn 10 ára skóli. Almennt er gert ráð fyrir að nemendur hefji nám árið sem þeir verða sex ára. Lögin heimila þó að nemendur geti byrjað fyrr í skóla eða seinna og einnig lokið honum fyrr. Langflestir nemendur hefja grunnskólanám á sjötta aldursári og ljúka því á sextánda aldursári. Nemendur færast sjálfkrafa milli árganga frá 1.-10. bekk óháð námsárangri eða stöðu að öðru leyti. Í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, er markmið grunnskóla skilgreint í 2. gr.