Gera skal grein fyrir námsmatsviðmiðum og matskvarða í skólanámskrá þannig að nemendum, foreldrum og öllum starfsmönnum skóla sé ljóst hvaða kröfur eru gerðar og hvernig skólinn hyggst meta hvernig þær eru uppfylltar. Þeir sem í hlut eiga; nemendur, foreldrar, kennarar og annað starfsfólk skóla, þurfa allir að geta skilið niðurstöður námsmats á svipaðan hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að nýta upplýsingarnar til að bæta nám og kennslu.
Markmið skólastarfs eru margvísleg og hægt að fara ýmsar leiðir til að ná þeim og því verða matsaðferðir að vera fjölbreyttar. Þær verða að hæfa hæfniviðmiðum, endurspegla áherslur í kennslu og taka mið af nemendahópnum. Námsmat á að vera áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt gagnvart nemendum. Það þýðir að meta þarf alla þætti námsins, þekkingu, leikni og hæfni með hliðsjón af hæfniviðmiðum í aðalnámskrá.
Í námsmati í grunnskóla skal leggja mat á hæfni nemenda innan hvers námssviðs og á það við jafnt í bóklegu námi, verk- og listnámi. Í köflum um námsgreinar eða námssvið í aðalnámskrá verða útfærð viðmið um mat á viðkomandi námssviði. Einnig skal innan hvers námssviðs leggja mat á hæfni nemenda sem byggist á grunnþáttum í menntun og áhersluþáttum grunnskólalaga. Slík hæfni er nefnd lykilhæfni við námsmat í lok grunnskóla.
Viðmið um mat á lykilhæfni í grunnskóla eru sett fram í fimm liðum sem eru sameiginlegir öllum námssviðum:
- Hæfni nemenda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir munnlega, skriflega og á annan hátt. Hæfni til að miðla þekkingu og leikni sinni og flytja mál sitt skýrt og áheyrilega og taka þátt í samræðum og rökræðu
- Skapandi hugsun og frumkvæði í efnistökum og úrvinnslu. Hæfni nemenda til að nota þekkingu og leikni, draga ályktanir, áræðni til að leita nýrra lausna og beita gagnrýninni hugsun og röksemdafærslu.
- Hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn.
- Hæfni nemenda til að nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun og nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt.
- Hæfni nemenda til að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu.
Vissa þætti í menntun í grunnskóla er erfitt að meta. Dæmi um slíka þætti eru siðgæði og siðferðileg viðhorf, jafnrétti, lýðræði, mannréttindi, borgaravitund, sjálfbærni og heilbrigði. Skólar skulu sjálfir móta leiðir til að meta slíka þætti en sjálfsmat nemenda, jafningjamat, foreldramat og mat á skólabrag geta hentað sem hluti af innra mati skóla. Hafa verður hugfast að sum markmið eru þess eðlis að ekki kemur fram fyrr en síðar á lífsleiðinni hvort þeim var náð eða ekki.
Innan hvers námssviðs er sérstakur matskvarði skilgreindur í fjórum flokkum, A−D. Með honum er annars vegar lagt mat á hvernig nemendum gengur að ná hæfniviðmiðum hvers námssviðs og hins vegar lykilhæfni nemenda sem lýst er hér að framan. Matskvarðann ber að nota við brautskráningu nemenda úr grunnskóla. Einnig má nota hann við lok 4. og 7. bekkjar og almennt í námsmati. Kvarðann má laga að þörfum skólans og aðstæðum hverju sinni.
hér á að koma tafla um kvarðana
Kvarði
A
B
C
D
Námssvið
Framúrskarandi hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
Góð hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
Sæmileg hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
Hæfni og frammistöðu í námi ábótavant með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
Lykilhæfni
Framúrskarandi hæfni með hliðsjón af viðmiðum um lykilhæfni.
Góð hæfni með hliðsjón af viðmiðum um lykilhæfni.
Sæmileg hæfni með hliðsjón af viðmiðum um lykilhæfni.
Hæfni með hliðsjón af viðmiðum um lykilhæfni ábótavant.
Við lok grunnskóla skal nemandi fá skírteini er votti að hann hafi lokið námi í grunnskóla. Í skírteini skal skrá vitnisburð nemanda í öllu því námi sem hann stundaði á lokaári í grunnskóla en æskilegt er að hafa til hliðsjónar nám í 8.–10. bekk. Skrá skal tvískiptan vitnisburð samanber matskvarðann hér að framan. Á vitnisburðarskírteini skal einnig koma fram hvaða viðmið eru lögð til grundvallar. Til þess að upplýsingar um námsmat séu trúverðugar, réttlátar og heiðarlegar og byggi upp raunhæft sjálfsmat nemenda verður að hafa tvennt í huga. Annars vegar þann nemanda sem í hlut á þegar lagt er mat á framfarir hans, ástundun og árangur miðað við eigin forsendur og hins vegar samanburð við aðra, t.d. jafnaldra.
Comments:
|