9

 

 

 

 

  • Form námsmatsverkefna þarf að vera fjölbreytt og í samræmi við kennslutilhögun og höfða til sem flestra matsþátta. Þannig skal meta munnleg verkefni, verkleg og skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar og dýpri athuganir, einstaklingsverkefni og hópverkefni, verkefni sem unnin eru á afmörkuðum tíma og óafmörkuðum og próf af ýmsu tagi. Mappa eða vinnubók, þar sem nemandi safnar saman verkefnum og úrlausnum, t.d. með rafrænum hætti, getur hentað vel til að fá yfirsýn yfir það hversu vel nemandinn hefur unnið, ástundun, virkni, vinnubrögð, framfarir nemenda og félagsfærni.

    Námsmat þarf að taka tillit til sérþarfa nemenda og sértækra námsörðugleika þeirra. Skólum ber að gera það sem unnt er til þess að koma til móts við þarfir hlutaðeigandi nemenda í þessu efni. Þessir nemendur eiga rétt á að námsmat sé lagað að þörfum þeirra, m.a. með lengri próftíma, sérhönnuðum prófum, notkun hjálpargagna, aðstoð og munnlegu námsmati. Eigi nemendur við lestrarörðugleika að stríða er æskilegt að leggja verkefnin fyrir þá munnlega eða með öðrum viðeigandi hætti í samræmi við sérþarfir nemandans.