9

 

 

 

 

  • Mennta- og menningarmálaráðuneyti stendur fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum, leggur grunnskólum í því skyni til samræmd könnunarpróf og annast framkvæmd samræmds námsmats.

    Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði eru lögð fyrir alla nemendur í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla. Nemendur í 10. bekk þreyta auk þess samræmt könnunarpróf í ensku. Önnur próf eru haldin samkvæmt ákvörðun ráðherra hverju sinni. Samræmdum könnunarprófum er einkum ætlað að mæla hvort markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og gefa nemendum, foreldrum, starfsmönnum skóla og fræðsluyfirvöldum upplýsingar og viðmiðanir á landsvísu. Skólastjóra er heimilt, ef gildar ástæður mæla með því og samþykki foreldra liggur fyrir, að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta könnunarpróf í einstökum prófgreinum 4., 7. og 10. bekkjar. Hér er m.a. átt við nemendur af erlendum uppruna sem nýlega eru komnir til landsins og hafa takmarkaða íslenskukunnáttu, nemendur með sérþarfir og langveika nemendur.

    Gefa skal út yfirlit yfir heildarniðurstöður samræmdra könnunarprófa og dreifa til grunnskóla, skólaráða við grunnskóla, skólanefnda og fræðsluyfirvalda. Heimilt er að láta öðrum í té upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa en ætíð skal gæta trúnaðar gagnvart einstökum nemendum.