Nútímasamfélag gerir margar og oft mótsagnakenndar kröfur til þegnanna. Hlutverk skólakerfisins er m.a. að búa einstaklinginn undir áskoranir og verkefni daglegs lífs og hjálpa honum að fóta sig í flóknu samhengi náttúru og samfélags, hluta og hugmynda. Almenn menntun miðar að því að efla sjálfsskilning einstaklingsins og hæfni hans til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Nemendur þurfa að vita hvað þeir vita og hvað þeir geta og vita hvernig best er að beita þekkingu sinni og leikni til að hafa áhrif á umhverfi sitt og bæta það. Hæfni er þannig meira en þekking og leikni, hún felur einnig í sér viðhorf og siðferðisstyrk, tilfinningar og sköpunarmátt, félagsfærni og frumkvæði.
Nemandinn þarf ekki einungis að búa yfir þekkingu leikni og hæfni heldur skal hann einnig geta aflað sér nýrrar þekkingar, leikni og hæfni, greint hana og miðlað. Nám þarf að taka til allra þessara þátta. Slíkt nám byggist á námssamfélagi sem einkennist af grunnþáttum menntunar: læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun.
Við skipulag skólastarfs skal lögð áhersla á nám og menntun barna og ungmenna og hæfni þeirra að námi loknu. Kennsluaðferðir og samskiptahættir, námsgögn og kennslutæki beinast fyrst og síðast að því að styðja nemendur í námi sínu. Námsmarkmið snúa að þeirri hæfni sem nemandinn öðlast í námsferlinu og býr yfir að námi loknu.
Skólastarfi og námi, sem skilgreint er út frá grunnþáttum menntunar, er sinnt innan námssviða, námsgreina og námsáfanga. Á hinn bóginn krefjast mörg viðfangsefni þess að þau séu unnin á samfaglegan og heildstæðan hátt. Í aðalnámskrá hvers skólastigs eru grunnþættirnir útfærðir nánar. Þar er svigrúmi í skólastarfinu lýst og greint frá hlutverki kennara á hverju skólastigi. Þar er einnig rætt um samstarf skóla við heimilin.
Grunnþættir menntunar eru útfærðir á hverju skólastigi í samræmi við markmið laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í aðalnámskrá leikskóla eru grunnþættir fléttaðir saman við námssvið leikskólans, í grunnskólum tengjast grunnþættirnir námsgreinunum og á framhaldsskólastigi eru grunnþættir menntunar útfærðir í námsáföngum á mismunandi námsbrautum. Grunnþættirnir eru því útfærðir með ólíkum hætti á mismunandi skólastigum. Í námskrám skólastiganna er fjallað nánar um samfellu og viðfangsefni, stígandi í námi, hæfnikröfur og þrepaskiptingu í samræmi við sérkenni og starfshætti á hverju skólastigi.
Nemendur þurfa að kunna að sækja sér nýja þekkingu og leikni, jafnframt því að geta beitt þekkingu sinni. Þeir skulu einnig að vera meðvitaðir um mikilvægi þess að vera ábyrgur og skapandi í þekkingarleit sinni, ígrunda og rökstyðja. Til að öðlast fjölbreytilega hæfni á nemendum að gefast tækifæri til að fást við mismunandi viðfangsefni sem tengjast menningu samfélagsins, umhverfi barna og ungmenna og daglegu lífi. Í öllu skólastarfi, bæði innan kennslustunda og utan, þarf að styrkja börn og ungmenni til að temja sér námshæfni bæði almennt og á tilteknum sviðum.
Námshæfni er þannig undirstöðuþáttur í öllu skólastarfi og byggist á sjálfsskilningi og áhuga. Námshæfni felur einnig í sér að þekkja eigin styrkleika og veikleika og að vera fær um að taka ákvarðanir á þeim grunni. Námshæfni byggist á eðlislægri forvitni barna og ungmenna, áhugahvöt þeirra, trú á eigin getu og hæfileika til að beita hæfni sinni í margvíslegum viðfangsefnum á uppbyggilegan hátt.
Þetta kallar á örvandi námsumhverfi í skólum. Gæta verður þess að nemandinn samþætti þekkingu sína og leikni, samtímis sem hann þjálfast í samskiptum sem byggjast á virðingu fyrir mannréttindum og jafnrétti. Gæta verður þess einnig að nemandinn æfist í að tjá skoðanir sínar og útskýra verklag sitt á ábyrgan, gagnrýninn og skýran hátt.
Comments:
|