2

Skilgreining á almennri menntun er ekki einhlít. Hún er bundin við stund og stað og jafnvel einstaklingsbundin. Til forna mynduðu hinar sjö frjálsu listir umgjörð um almenna menntun yfirstéttarinnar. Miðaldakirkjan skilgreindi almenna menntun í Evrópu á miðöldum út frá sínum þörfum og með iðnbyltingunni kom fram ný tækni og fræðasvið sem lögðu grunn að almennri menntun í nútímasamfélagi. Á 21. öld er almenn menntun skilgreind út frá samfélagslegum þörfum og þörfum einstaklinganna.

Almenn menntun stuðlar á hverjum tíma að aukinni hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir daglegs lífs. Almenn menntun miðar að því að efla skilning einstaklingsins á eiginleikum sínum og hæfileikum og þar með hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Hún er hvort tveggja í senn einstaklingsmiðuð og samfélagsleg.

Almenna menntun öðlast fólk víðar en í skólakerfinu. Skólakerfið er þó mikilvægasti grundvöllur þess að samfélagið tryggi almenna menntun. Því er eðlilegt að skýra grunnþætti menntunar í aðalnámskrá og tengja þá meginsviðum þekkingar og leikni sem einstaklingum standa til boða í skólunum. Almenn menntun byggist á fjölbreyttu námi á meginsviðum menningar okkar, umhverfis og samfélags. Stefnt er að almennri menntun í heildstæðu skólastarfi og námi á námssviðum, í námsgreinum og námsáföngum. Skilgreining á grunnþáttum er tilraun til að kortleggja þau meginsvið almennrar menntunar sem skólastarfið stefnir að.

  • Nemendur þurfa að kunna að sækja sér nýja þekkingu og leikni, jafnframt því að geta beitt þekkingu sinni. Þeir skulu einnig að vera meðvitaðir um mikilvægi þess að vera ábyrgur og skapandi í þekkingarleit sinni, ígrunda og rökstyðja. Til að öðlast fjölbreytilega hæfni á nemendum að gefast tækifæri til að fást við mismunandi viðfangsefni sem tengjast menningu samfélagsins, umhverfi barna og ungmenna og daglegu lífi. Í öllu skólastarfi, bæði innan kennslustunda og utan, þarf að styrkja börn og ungmenni til að temja sér námshæfni bæði almennt og á tilteknum sviðum.

    Námshæfni er þannig undirstöðuþáttur í öllu skólastarfi og byggist á sjálfsskilningi og áhuga. Námshæfni felur einnig í sér að þekkja eigin styrkleika og veikleika og að vera fær um að taka ákvarðanir á þeim grunni. Námshæfni byggist á eðlislægri forvitni barna og ungmenna, áhuga­hvöt þeirra, trú á eigin getu og hæfileika til að beita hæfni sinni í margvíslegum viðfangsefnum á uppbyggilegan hátt.

    Þetta kallar á örvandi námsumhverfi í skólum. Gæta verður þess að nemandinn samþætti þekkingu sína og leikni, samtímis sem hann þjálfast í samskiptum sem byggjast á virðingu fyrir mannréttindum og jafnrétti. Gæta verður þess einnig að nemandinn æfist í að tjá skoðanir sínar og útskýra verklag sitt á ábyrgan, gagnrýninn og skýran hátt.