Í skólanámskrá birtist menntastefna viðkomandi skóla. Þar er því lýst hvernig staðið er að þróunar- og umbótastarfi innan skólans. Menntastefna yfirvalda og stefna sveitarfélags marka einstökum skólum ramma til að starfa innan. Skólaþróun er samvinnuverkefni starfsmanna, foreldra og nemenda og vinnulag þarf að taka mið af því.
Innra mati skóla er ætlað að stuðla að umbótum. Innra mat dregur fram styrkleika og veikleika og á þeim grunni er unnt að forgangsraða þeim verkefnum sem brýnt er að unnið sé að. Niðurstöður innra mats geta einnig verið hvati að þróunarstarfi í skólum.
Ný þekking er önnur uppspretta þróunarstafs. Símenntun starfsmanna getur verið aflvaki slíkrar þekkingar sem á rætur í fræðilegri framvindu og rannsóknum. Stefna skóla og símenntunaráætlanir fyrir skólann í heild eða einstaka starfsmenn þurfa að vera í samræmi við umbótaáætlanir og styðja við þær.
Skólaþróun byggist bæði á viðhorfum og verklagi. Skóli, sem mótar áætlanir nokkur ár fram í tímann, á auðveldara um vik en ella að afmarka einstök viðfangsefni og fella þau að heildarstefnu skólans. Fagleg forysta og markviss leiðsögn er ein meginforsenda fyrir árangursríku þróunarstarfi.
Comments:
|