11

Skólastarf þarf að vera í sífelldri mótun. Ný þekking á sviði uppeldis og menntunar kallar á endurskoðun, sama má segja um nýja þekkingu innan þeirra fræðasviða sem eru bakhjarlar námssviða og námsgreina. Breyttar þjóðfélagsaðstæður og tækninýjungar knýja einnig á um breytingar. Samstarf og samhæfing eru lykilatriði í farsælu þróunarstarfi á sviði skólamála. Yfirvöld menntamála, sveitarstjórnir, sérfræðiþjónusta, skólastjórnendur og kennarar bera sameiginlega ábyrgð á því að skólastarf sé í stöðugri endurskoðun og umbótaviðleitni einkenni störf þeirra sem þar deila ábyrgð. Skólaþróun er skipuleg, markviss og stöðug viðleitni til umbóta í skólum. Öll skólaþróun hefur hag barna að leiðarljósi.

  • Gert er ráð fyrir að sveitarfélög móti skólastefnu sem tekur mið af aðstæðum á hverjum stað og þeim áherslum sem þau vilja hafa að leiðarljósi. Miklu varðar að stefnumótun sveitarfélaga sé unnin í víðtæku samstarfi flestra þeirra sem málið varðar með beinum hætti. Má þar nefna skólanefnd, foreldra, nemendur, stjórnendur, kennara og annað starfsfólk skóla svo og aðra aðila sem skólastefna nær til og hefur áhrif á. Stefna sveitarfélags þarf að gefa einstökum stofnunum sem eftir henni starfa svigrúm til faglegra ákvarðana. Sjálfstætt reknir skólar hafa sínar eigin áherslur og leiðarljós til hliðsjónar við þróun skólastarfs innan þess ramma sem þjónustusamningur veitir.