Almennur hluti aðalnámskrár grunnskóla kveður á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs í grunnskóla. Í námskránni er fjallað um hlutverk aðalnámskrár, almenna menntun og grunnþætti, mat á skólastarfi og fleira. Í námskránni er að finna nánari útfærslu á ákvæðum laga um grunnskóla og reglugerða um nám og kennslu í grunnskóla. Hún tekur til nemenda og starfsfólks skóla og setur sameiginleg markmið náms og kennslu í öllum grunnskólum landsins. Í aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um uppeldis- og menntunarhlutverk grunnskólans og sett fram meginstefna um kennslu og kennsluskipan. Aðalnámskrá útfærir nánar ákvæði laga um námsgreinar og námssvið og segir til um áherslur og vægi. Viðmiðunarstundaskrá, sem sýnir hlutfallslegt vægi milli námsgreina og námssviða, er hluti af aðalnámskrá. Hver grunnskóli ákveður hvort námsgreinar og námssvið eru kennd aðgreind eða samþætt en jafnframt skal þess gætt að námið verði sem heildstæðast. Í aðalnámskrá eru skilgreindir hæfniþættir á hverju námssviði og innan hverrar námsgreinar. Nemendur skulu eiga þess kost að uppfylla hæfniviðmið einstakra námsgreina og námssviða með mismunandi hætti. Sett eru árangursviðmið um það hvenær nemandi telst hafa lokið einstökum námsgreinum eða námssviðum. Sett eru viðmið vegna nemenda sem ljúka grunnskólanámi á skemmri tíma en tíu árum.
Aðalnámskrá er sett af mennta- og menningarmálaráðherra með sama hætti og reglugerðir og gegnir margvíslegu hlutverki. Hún er allt í senn, stjórntæki til að fylgja eftir ákvæðum laga, fyrirmæli fræðsluyfirvalda um skólastefnu og safn sameiginlegra markmiða skólastarfs í landinu. Aðalnámskrá er ætlað að samræma nám og kennslu að því marki sem þörf er talin á og tryggja rétt allra nemenda til tiltekinnar lágmarksmenntunar og jafnrétti til náms.
Aðalnámskrá er ætlað að þjóna mörgum aðilum. Hún lýsir sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um alla nemendur, kennara og stjórnendur skólans og annars starfsfólks. Hún er jafnframt viðmiðun við samræmt námsmat í grunnskólum, mat á skólum og skólastarfi, leiðarljós fyrir þá sem fást við námsefnisgerð og kennaramenntun, grundvöllur skólanámskrárgerðar og sjálfsmats skóla og stefnumörkunar sveitarfélaga. Aðalnámskrá er einnig upplýsing og viðmiðun fyrir foreldra svo að þeir geti fylgst með starfsháttum skólans, árangri skólastarfs og velferð og líðan nemenda. Aðalnámskrá veitir einnig nemendum margháttaðar upplýsingar um skólastarf.
Comments:
|