13

Mikilvægt er að allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag sem felur í sér gagnkvæmt traust, virðingu og samábyrgð þar sem öryggi, vellíðan, heilbrigðar og hollar lífsvenjur eru hafðar að leiðarljósi.

  • Hér er fjallað um ábyrgð nemenda og skyldur en þessi hugtök eru nátengd. Ekki er hægt að fjalla um skyldur nemenda án þess að fjalla jafnframt um ábyrgð. Réttindum fylgja skyldur og ábyrgð fylgir hvoru tveggja. Bæði er um að ræða einstaklingsábyrgð og samábyrgð. Hér er bæði átt við að nemandinn sem einstaklingur beri ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum annars vegar og hins vegar samábyrgð þar sem hann er hluti af hópi/samfélagi og er þar með samábyrgur öðrum í hópnum/samfélaginu.

    • Mikilvægt er að nemendur hafi ekki einungis skyldur gagnvart eigin námi heldur einnig allri framkomu sinni og hegðun í skóla. Þetta á við um ýmsa þætti í umgengni við félaga, starfsfólk og fjölmarga aðra sem þeir umgangast innan skóla sem utan. Nemendur bera ábyrgð á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. Við setningu skólareglna er mikilvægt að nemendur taki þátt í gerð skólareglna og tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra og fá með því móti stuðning þeirra við settar reglur. Einnig þarf að leita eftir sjónarmiðum foreldra þegar skólareglur eru settar og ákvæði um viðbrögð við brotum á skólareglum ákveðin. Með þessu móti er stuðlað að góðum starfsanda, jákvæðum skólabrag og lýðræðislegu uppeldi nemenda.

      Í skólanámskrá skal gerð nánar grein fyrir þeim þáttum sem skólinn telur skipta mestu máli til þess að skapa góðan skólabrag í skólanum. Nauðsynlegt er að samstaða skapist um jákvæðan skólabrag og allir þeir sem tengjast skólastarfinu eigi hlut að því að móta hann. Mikilvægt er að nemandi í samræmi við aldur og þroska geri sér grein fyrir að hann ber sína ábyrgð á því hvernig skólabragur verður til, í hverju hann er fólginn og hver einstaklingur sé hluti af stærri heild sem hann ber ábyrgð á ásamt öðrum.