6

Í sameiginlegum inngangskafla fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru skilgreindir grunnþættir í íslenskri menntun. Þessir grunnþættir eru:

læsi,

  •             sjálfbærni,
  •             heilbrigði og velferð,
  •             lýðræði og mannréttindi,
  •             jafnrétti,
  •             sköpun.

Grunnþættir í menntun ásamt áhersluþáttum grunnskólalaga skulu vera leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum í grunnskóla. Þeir eiga að birtast í inntaki námsgreina og námssviða aðalnámskrár, í hæfni nemenda, námsmati, skólanámskrá og innra mati skólans. Grunnskólinn er eina skólastigið sem nemendum er skylt að sækja og er því mikilvægur vettvangur til að þroska með nemendum hæfni í anda grunnþáttanna og sem búa þau undir þátttöku í lýðræðissamfélagi.

Í námi og kennslu ber samkvæmt ákvæði í 24. gr. laga um grunnskóla að leggja áherslu á ýmsa þætti í námi og kennslu. Þessir áhersluþættir eru nánari útfærsla á markmiðsákvæði laganna og grunnþáttum í íslenskri menntun. Þeir eiga það flestir einnig sammerkt að vera ekki bundnir við einstakar námsgreinar eða afmarkaða þætti skólastarfs heldur þurfa þeir að vera almennt leiðarljós í allri menntun í grunnskóla, bæði formlegri og óformlegri og í starfsháttum skóla. Hér er fjallað í stuttu máli um hvern þessara mikilvægu þátta. Röðin fylgir stafliðum laganna. Í aðalnámskrá grunnskóla skal m.a. leggja áherslu á:

Sjálfsvitund. Í því felst að nemandi öðlist raunsæja og heilbrigða sjálfsmynd. Það felur í sér að nemendur þekki eigin tilfinningar, þekki sínar sterku og veiku hliðar og hafi trú á eigin getu og hæfni til að takast á við fjölbreytileg viðfangsefni daglegs lífs.

Siðgæðisvitund eða siðvit felur í sér að nemendur efli siðferðisþroska sinn og geti sett sig í spor annarra. Tilfinningar og reynsla nemenda gegna lykilhlutverki í þróun siðferðiskenndar þeirra sem felst í því að þeir tileinki sér hvað telst rétt og rangt, gott og slæmt í breytni fólks. Nemendur þurfa að læra að taka siðferðilega afstöðu til álitamála og virða rétt hvers og eins til að láta skoðanir sínar í ljós. Enn fremur að læra að gera greinarmun á jákvæðu og neikvæðu hegðunarmynstri í samskiptum og bera virðingu fyrir öðrum.

Félagsvitund, borgaravitund. Þessi hugtök fela í sér hæfni til að skynja, skilja og bregðast við tilfinningum annarra og hvað í því felst að búa í samfélagi með öðrum. Með borgaravitund er átt við viðhorf og hæfni fólks til að vera virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi í samræmi við réttindi sín og skyldur.

Félagsfærni miðar að því að geta átt jákvæð og árangursrík samskipti við aðra. Heilbrigð sjálfsmynd er grundvöllur félagsfærni. Börn með góða félagsfærni eru líklegri til að eiga frumkvæði að samskiptum, viðhalda þeim og aðlaga sig breyttum aðstæðum. Þroskuð félagsfærni er grunnur að lífshamingju og lífsfyllingu hvers einstaklings.

Líkamleg og andleg velferð hvers og eins. Leggja þarf rækt við að leiðbeina nemendum um að temja sér heilbrigða lífshætti og ábyrga umgengni við líf og umhverfi. Hreyfing, hollusta og heilbrigðir lífshættir eru mikilvæg viðmið í skólastarfi. Heilsa er skilgreind sem líkamleg, andleg og félagsleg velferð. Til að stuðla að góðri heilsu þarf, í samvinnu við heimilin, að leggja rækt við hollar lífsvenjur nemenda og að nemendur geri sér grein fyrir eigin ábyrgð og öðlist skilning á því að heilbrigt líferni stuðlar að almennri velferð. Góð heilsa er undirstaða velfarnaðar í námi og starfi og virkri þátttöku í samfélaginu.

Mikilvægt er að nemendur öðlist færni í að nýta íslensku í námi, leik og starfi. Leggja ber áherslu á að þjálfa nemendur í íslensku í öllu námi. Þetta gildir jafnt um þá sem eiga íslensku að móðurmáli, þá sem eru af erlendu bergi brotnir og þá sem hafa táknmál að móðurmáli. Leggja ber áherslu á að nemendur þjálfist í að tjá þekkingu sína, skoðanir og tilfinningar á fjölbreyttan hátt, því ber m.a. að leggja áherslu á leikræna og listræna tjáningu og upplifun í skólastarfi.

Efla ber rökhugsun og gagnrýna hugsun nemenda sem og skapandi hugsun og lausnaleit. Nemendur eiga að þjálfast í að rökræða og rökstyðja mál sitt í ræðu og riti. Mikilvægt er að nemendur læri að ígrunda eigin hugsanir og geri sér grein fyrir hvaða áhrif tilfinningar hafa á hugsanagang þeirra, heilbrigða dómgreind og hæfileika til þess að bregðast við nýjum aðstæðum.

Leggja ber áherslu á að nemendur öðlist sem dýpstan skilning á þeim fyrirbærum sem þeir fást við í námi sínu. Það er m.a. gert með því að leggja áherslu á frjótt, skapandi starf, verklega færni, nýsköpun og frumkvöðlanám þar sem hvatt er til frumkvæðis og sjálfstæðis í vinnubrögðum og hagnýtingu í skólastarfi og daglegu lífi.

Gæta ber þess að jafnvægi sé milli bóklegs náms og verklegs. Bæði hugur og hönd hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar nemandi eflir með sér alhliða þroska. Þess skal gætt að ekki halli á verklegt nám þegar skólastarf er skipulagt. Þetta á bæði við um hlutfall bóklegra og verklegra greina en einnig um vinnulag og viðfangsefni innan hverrar námsgreinar frá upphafi til loka grunnskóla.

Börnum er leikur sjálfsprottin leið til náms- og þroska. Í grunnskóla er mikilvægt að viðhalda þessari aðferð í skólastarfi og þróa hana eftir því sem nemendur eldast. Leikur er 15 ára nemanda jafn árangursrík leið til þroska og skilnings og sex ára barni. Leik má koma við innan allra námsgreina og námssviða í fjölbreyttu náms- og starfsumhverfi og í félags- og tómstundastarfi.

Nám á að gera nemanda kleift að takast á við viðfangsefni daglegs lífs og jafnframt að búa hann undir að frekara nám og starf að skyldunámi loknu. Áhersla á alhliða þroska er þó ætíð í fyrirrúmi. Nemendur þurfa að fá tækifæri til að nýta styrkleika sína og áhuga til menntunar og aukins þroska og tengja námið því sem nemendur þekkja heima hjá sér úr eigin nærsamfélagi og í hinum stóra heimi.

Leggja þarf áherslu á að nám búi bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, bæði í einkalífi, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Kynjafræði og hugtök hennar eru mikilvægur þáttur í að gera nemendur meðvitaða um stöðu kynjanna í samfélaginu. Það varðar miklu að hvorki halli á pilta né stúlkur í þeim viðfangsefnum sem skólinn leggur þeim til. Öll viðfangsefni þeirra eiga að grundvallast á jafnræði og jafnrétti.

Námshæfni er undirstöðuþáttur í öllu skólastarfi og byggist á sjálfsskilningi nemandans og felur í sér að þekkja eigin styrkleika og veikleika og að vera fær um að taka ákvarðanir á þeim grunni. Námshæfni felst m.a. í hæfni til að afla þekkingar og leikni eftir margvíslegum leiðum. Nemendur þurfa að ná valdi á þessum leiðum, m.a. með því að ná tökum á tæknimiðlum, öðlast vald á að nýta upplýsinga- og samskiptatækni og kunna að nýta margvíslegar uppsprettur þekkingar með heimildaleit á söfnum og í gagnabönkum af margvíslegu tagi. Einnig þarf að nýta sér náttúruna og umhverfið sem vettvang náms og kennslu eftir föngum, s.s. með útikennslu en einnig mannauð nærsamfélagsins, t.d. reynslu og þekkingu foreldra og fjölskyldu.

Nemendur verði búnir undir frekara nám og starf með markvissri náms- og starfsfræðslu, víðtækri kynningu á námi sem er í boði að loknu skyldunámi, kynningu á atvinnulífinu og hvernig nám býr fólk undir fjölþætt störf sem bjóðast í samfélaginu.

  • Eitt meginmarkmið náms í grunnskóla, frá upphafi skólagöngu til loka hans, er alhliða þroski og almenn menntun einstaklingsins. Sérhver nemandi þarf strax á unga aldri að búa sig undir að menntun er æviverk. Með því að skilgreina þá hæfni, sem að er stefnt frá upphafi skólagöngu, er lagður grunnur að heildstæðri almennri menntun. Hæfni snýr því að nemandanum sjálfum og er nemendamiðuð útfærsla á grunnþáttum og áhersluþáttum.Í grunnskóla er hæfni nemenda útfærð innan hvers námssviðs og námsgreinar og sem hæfniviðmið í mati við lok grunnskóla. Grunnskólar útfæra sjálfir hvernig hæfniþáttunum eru gerð skil í skólastarfi en vinnulag þarf að skýra í skólanámskrá.Þekking, leikni og hæfni eru lykilhugtök í aðalnámskrá grunnskóla. Hugtakið hæfni felur í sér þekkingu og leikni og er samofið siðferðilegum viðhorfum nemenda. Nám í grunnskóla þarf að taka til allra þessara þátta þar sem tekið er mið af aldri og þroska nemenda. Í eftirfarandi skýringarmynd er að finna nánari skilgreiningu á hugtökunum þekking, leikni og hæfni og gerð grein fyrir tengslum þeirra innbyrðis.