Mennta- og menningarmálaráðuneytið og eftir atvikum sveitarfélög bera ábyrgð á ytra mati leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, samkvæmt sérstakri reglugerð. Mennta- og menningarmálaráðuneytið gerir áætlanir til þriggja ára um ytra mat, kannanir og úttektir, sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd skólahalds í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Áætlanirnar eru endurskoðaðar árlega og eru birtar á vef ráðuneytisins.
Ráðuneytið gerir áætlun fyrir hverja úttekt þar sem fram kemur tilgangur úttektar, helstu viðmið og áherslur. Það fær óháða sérfræðinga til að sjá um framkvæmd úttekta og fer val á þeim samkvæmt verklagsreglum ráðuneytisins. Skólum, og eftir atvikum sveitarstjórnum, er gert viðvart skriflega um væntanlega úttekt með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara.
Ytra mat skal byggjast á fjölbreyttum gögnum og upplýsingum, svo sem niðurstöðum innra mats og öðrum skriflegum gögnum frá skólum, heimsóknum í skóla og viðtölum eftir því sem við á og athugun á kennslu. Skólum ber að upplýsa úttektaraðila sem best um þá þætti skólastarfsins sem úttektin beinist að.
Úttektaraðilar skila ráðuneytinu skýrslu með niðurstöðum sínum. Áður en úttektarskýrsla er send ráðuneytinu fær viðkomandi skóli tækifæri til að gera efnislegar athugasemdir. Athugasemdir skóla skal birta sem viðauka með skýrslu ef þess er óskað. Ytra mat er opinbert og skulu niðurstöður þess birtar á vefsvæðum skólans og ráðuneytisins eða með öðrum opinberum hætti. Jafnframt skal, eftir því sem við á, birta áætlanir sveitarstjórnar og skóla um úrbætur í kjölfar úttekta á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Niðurstöðum ytra mats skal fylgt eftir með markvissum hætti. Ráðuneytið óskar eftir viðbrögðum framhaldsskóla og sveitarfélaga við niðurstöðum ytra mats. Á grundvelli þeirra viðbragða ákveður ráðuneytið til hvaða aðgerða verður gripið.
Comments:
|