3

Mat er órjúfanlegur þáttur í starfi skóla og námi barna og ungmenna. Námsmat veitir upplýsingar um árangur barna og ungmenna við að uppfylla markmið náms, örvar þau til frekari dáða og nýtist kennurum og starfsfólki við að stuðla að frekari framförum í námi. Mat á starfi skóla hefur þann tilgang að tryggja að réttindi barna og ungmenna séu virt og þau fái þá menntun og þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum. Mat á skólastarfi er tvíþætt: Annars vegar er um að ræða mat sem skólar framkvæma sjálfir og er hér kallað innra mat. Hins vegar er um að ræða mat sem utanaðkomandi aðili vinnur á vegum sveitarfélags, ráðuneytis mennta- og menningarmála eða annarra aðila og er nefnt ytra mat.

 

  • Mat á árangri og framförum barna og ungmenna er reglubundinn þáttur í skólastarfi, órjúfanlegur frá námi og kennslu. Megintilgangur námsmats er að veita leiðbeinandi upplýsingar um námið og hvernig markmiðum þess verður náð. Með námsmati er fylgst með því hvernig þeim tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hvaða aðstoð þeir þurfa.

    Námsmat miðar að því að afla vitneskju um árangur skólastarfsins og hvernig einstaklingum og hópum gengur að ná settum markmiðum. Námsmat á að veita nemendum og foreldrum þeirra, kennurum, viðtökuskólum og skólayfirvöldum upplýsingar um námsgengi sem má hafa að leiðarljósi við skipulagningu náms. Til að geta gegnt þessu margþætta hlutverki þarf námsmat að uppfylla þau skilyrði að vera réttmætt og áreiðanlegt. Tryggja þarf að allt námsmat sé þannig úr garði gert að það meti það sem það á að meta á áreiðanlegan hátt.

    • Gera skal grein fyrir viðmiðum námsmats og umsagna í skólanámskrá þannig að nemendum, foreldrum og öllum starfsmönnum skóla sé ljóst hvaða kröfur eru gerðar og hvernig skólinn hyggst meta hvernig þær eru uppfylltar. Nemendur, foreldrar, kennarar og aðrir starfsmenn skóla þurfa að geta skilið niðurstöður námsmats á svipaðan hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að nýta upplýsingarnar til að bæta nám og kennslu.