Ýmsir þættir sem fjallað er um í aðalnámskrá eru sameiginlegir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Kaflar 1-3 eru sameiginlegir í námskrám skólastiganna þriggja en þar er fjallað um stefnumið menntakerfisins, um almenna menntun og markmið skólakerfisins, um grunnþætti menntunar og um mat á skólastarfi. Lögð er áhersla á sveigjanleika og samfellu í skólakerfinu, bæði í inntaki og starfsháttum. Jafnframt er lögð áhersla á skólaþróun og sameiginlega þætti í fagmennsku kennara á öllum skólastigum.
Í almennum hluta aðalnámskráa leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er lýst hlutverki hvers skólastigs og sérstakri áherslu í námi og kennslu á hverju þeirra; markmiðum, viðfangsefnum og starfsháttum. Í skólanámskrám sem gefnar eru út í einstökum skólum er stefna aðalnámskrár útfærð í samræmi við stefnu á hverjum stað, nemendahóp, faglega áherslu og sérkenni í hverju tilviki.
Skólar eru menntastofnanir og hlutverk þeirra er skilgreint í löggjöf um menntun. Skólar landsins mynda samstæða heild, skólakerfi, sem tryggja skal samræmi og samhengi í menntun frá leikskólum til háskóla og fullorðinsfræðslu. Lögð er áhersla á heildstæða menntastefnu en skýr skil á milli skólastiga þannig að nemendur geti flust eðlilega á milli leikskóla og grunnskóla og á milli grunnskóla og framhaldsskóla í samræmi við einstaklingsbundna námsstöðu og þroska. Einnig skulu nemendur eiga þess kost að stunda nám á tveimur skólastigum samtímis henti það námi þeirra. Á hverju skólastigi er stefnt að fjölbreyttum viðfangsefnum og starfsháttum til að koma til móts við mismunandi námsþarfir ólíkra einstaklinga og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
Meginhlutverk leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er að stuðla að almennri menntun þegnanna. Skólarnir skulu leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir barna og ungmenna. Skólastarfið miðar að virkri þátttöku þeirra í lýðræðissamfélagi innan skólans og utan.
Inntak og viðfangsefni skólastarfsins er sett fram í námssviðum, námsgreinum eða námsáföngum. Rétt er að hafa í huga að námssvið, námsgreinar og námsáfangar eru ekki markmið í sjálfu sér heldur hjálpartæki til að stuðla að merkingarbæru námi og ná markmiðum skólastarfsins. Í aðalnámskrám skólastiganna eru því skilgreind markmið í samræmi við sérkenni hvers skólastigs, aldur og þroska barna og ungmenna.
Í skipulagi og viðfangsefnum skólastarfsins og í starfsháttum skólanna skal lögð rækt við námsumhverfi og samskipti sem stuðla að almennri menntun. Almenn menntun er grundvöllur starfsmenntunar og annarrar sértækrar menntunar. Nám og menntun á sér stað víðar en í skólum. Menntun er ævilangt ferli. Mikilvægt er að skólarnir styðji við námshvöt nemenda sinna, rækti námsgleði og vinnuanda og stuðli þannig að menntun þeirra.
Starfshættir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og samskipti barna og ungmenna innbyrðis og við kennara sína eru ekki síður en viðfangsefni kennslustunda mikilvæg til að ná markmiðum skólanna og stuðla að velferð, námi og menntun. Starfshættir skólanna skulu mótast af umburðarlyndi og jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð.
Kennarar gegna lykilhlutverki í öllu skólastarfi. Kennarastéttin spannar mörg hlutverk í skólakerfinu, s.s. kennslu, stjórnun, uppeldi, ráðgjöf, rannsóknir og þróunarstörf. Þannig teljast t.d. skólastjórnendur, sérkennarar og námsráðgjafar til kennarastéttarinnar. Gæði menntunar og árangur skólakerfisins byggist fyrst og síðast á vel menntaðri og áhugasamri fagstétt kennara á öllum skólastigum.
Fagmennska kennara byggist á sérfræðilegri starfsmenntun, þekkingu, viðhorfum og siðferði starfsins. Fagmennska kennara snýst um nemendur, menntun þeirra og velferð. Markviss samskipti og góð kennsla stuðlar að námi og aukinni hæfni barna og ungmenna. Á kennurum hvílir ekki aðeins sú skylda að miðla þekkingu til nemenda heldur einnig að veita þeim tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni, örva starfsgleði þeirra og efla frjóa hugsun. Kennarar leiðbeina börnum og ungmennum í námi og mati á því og vinna að því að þeir tileinki sér heilbrigða lífshætti. Þeir leitast við að skapa góðan skólabrag, réttlátar vinnureglur og hvetjandi námsumhverfi.
Í upphafi 21. aldar hafa orðið gagngerar breytingar í íslensku samfélagi sem hafa bein og óbein áhrif á skólakerfið og þá um leið nám nemenda og störf kennara. Hvort sem litið er til efnahags eða atvinnumála, félagsmála og fólksflutninga eða tækni og samskipta má finna deiglu og breytingar sem hafa áhrif á menningarlíf og þekkingu, menntun og uppeldi. Það má til sanns vegar færa að breytingar í íslensku samfélagi undanfarin ár hafi verið mjög hraðar og því aukast kröfur til skóla um að aðstoða samfélagið við að átta sig á breytingunum og takast á við nýjar aðstæður. Allt þetta eykur kröfur til kennarastéttarinnar, bæði til að greina samfélagsbreytingar og til að fella starfsemi skólanna að þeim á ábyrgan hátt.
Kennarar vinna í samráði við skólastjórnendur að þróun skólanámskrár í samræmi við aðstæður og sérstaka áherslu á hverju skólastigi. Það er á ábyrgð kennara að útfæra á faglegan hátt í kennslu sinni og öðru skólastarfi fyrirmæli menntalaga og þá stefnu sem birtist í aðalnámskrá.
Comments:
|