1

Aðalnámskrá byggir á lögum um leikskóla (nr. 90/2008), grunnskóla (nr. 91/2008) og framhaldsskóla (nr. 92/2008). Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum.

Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum þeirra, opinberum stofnunum, félagasamtökum, aðilum atvinnulífsins og almenningi upplýsingar um tilgang og starfsemi skóla. Segja má að aðalnámskrá sé samningur þjóðarinnar við sjálfa sig um menntamál.

  • Ýmsir þættir sem fjallað er um í aðalnámskrá eru sameiginlegir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Kaflar 1-3 eru sameiginlegir í námskrám skólastiganna þriggja en þar er fjallað um stefnumið menntakerfisins, um almenna menntun og markmið skólakerfisins, um grunnþætti menntunar og um mat á skólastarfi. Lögð er áhersla á sveigjanleika og samfellu í skólakerfinu, bæði í inntaki og starfsháttum. Jafnframt er lögð áhersla á skólaþróun og sameiginlega þætti í fagmennsku kennara á öllum skólastigum.

    Í almennum hluta aðalnámskráa leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er lýst hlutverki hvers skólastigs og sérstakri áherslu í námi og kennslu á hverju þeirra; markmiðum, viðfangsefnum og starfsháttum. Í skólanámskrám sem gefnar eru út í einstökum skólum er stefna aðalnámskrár útfærð í samræmi við stefnu á hverjum stað, nemendahóp, faglega áherslu og sérkenni í hverju tilviki.