Við grunnskóla skal starfa foreldrafélag. Skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Hlutverk foreldrafélags er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Foreldrafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð.
Ákvarðanataka í skólamálum hefur færst nær foreldrum en það undirstrikar þörf fyrir formlegan samstarfsvettvang þeirra. Vel rekin og virk foreldrafélög við hvern skóla gefa foreldrum kost á margvíslegum tækifærum til að stuðla að og viðhalda góðum skólabrag og kynnast öðrum foreldrum, nemendum og starfsfólki skóla. Foreldrar hafa þar vettvang til að ræða saman um skólagöngu barnanna og hvað eina sem varðar uppeldi og menntun. Til að ná sem bestum árangri er nauðsynlegt að þeir sem hlut eiga að máli velti fyrir sér markmiðum félagsins og hvernig megi skipuleggja starfið svo að þau markmið náist. Með virkri starfsemi foreldrafélaga er hægt að stilla saman strengi í ýmsum hagsmunamálum og velferðarmálum með hagi barna að leiðarljósi. Foreldrafélög skulu leggja áherslu á sem virkast foreldrastarf í einstökum umsjónarhópum eða bekkjardeildum. Foreldrafélög skulu hafa sem best samstarf við skólaráð og nemendafélög.
Lögum samkvæmt er skólaráð samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Skólastjóri ber ábyrgð á því að skólaráðið sé virkt og að það setji sér starfsreglur.
Comments:
|