14

Starfsfólk skóla, nemendur og foreldrar mynda skólasamfélagið í hverjum skóla. Mikilvægt er að þessir hópar vinni vel saman að mótun þessa samfélags og þeirra umgengnishátta sem eiga að einkenna samskipti innan skólans og utan. Til þess að það gangi vel þarf að ræða reglulega um áherslur og koma sér saman um meginviðmið.

Samkvæmt barnalögum teljast foreldrar þeir sem fara með forsjá barns. Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna. Á þeim hvílir sú skylda að börnin sæki skóla og að þau séu eins móttækileg fyrir þeirri menntun sem skólinn býður og framast er unnt. Skólinn aðstoðar foreldra í uppeldishlutverkinu og býður fram menntunartækifæri. Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti, og upplýsingamiðlun beggja aðila, sameiginlegum ákvörðunum og samábyrgð. Mesta áherslu ber að leggja á samstarf heimila og skóla um hvern einstakling, nám hans og velferð og að heimili og skóli séu vettvangur menntunar. Einnig ber að leggja áherslu á samstarf í einstökum bekkjardeildum, námshópum og árgöngum, bæði um nám, félags- og tómstundastarf, velferð nemenda, bekkjaranda og meginviðmiðanir í uppeldisstarfi skólans. Skólastjórnendur og umsjónarkennarar bera meginábyrgð á að halda uppi virku samstarfi með aðstoð annarra kennara. Þeir skulu kappkosta að skapa tækifæri til að auka hlutdeild foreldra í skólastarfi og stuðla að virku samstarfi á jafnréttisgrundvelli.

Foreldrar skulu eiga kost á að taka þátt í námi barnsins, svo og í skólastarfinu almennt. Það er skylda foreldra að veita grunnskóla upplýsingar um barnið sem kunna að skipta máli fyrir skólastarfið og velferð þess. Foreldrar bera ábyrgð á því að börn þeirra sinni því heimanámi sem skólinn og foreldrar hvers einstaks barns hafa orðið ásátt um og að frístundastarf og annað starf utan skóla komi ekki niður á námi barnanna.

Loks er mikilvægt að traust samstarf sé milli heimila og skóla um skólastarfið í heild, t.d. um meginviðmiðanir í hegðun og umgengni, skólabrag, áhersluatriði í skólastefnu hvers skóla eða sveitarfélags. Gert er ráð fyrir að foreldrar taki þátt í mótun skólasamfélagsins og vinni að því með stjórnendum skóla, kennurum og öðrum starfsmönnum skóla að koma markmiðum skólastarfs í framkvæmd og taki höndum saman til að tryggja sem best uppeldisskilyrði barna og almenna velferð þeirra.

Öflugt foreldrastarf og sterk samstaða um grundvallarviðmið er besta forvörnin gegn hvers kyns vá, t.d. neyslu fíkniefna og óæskilegri hegðun. Ef foreldrar nemenda í bekk eða skóla ná að stilla saman strengi um meginviðmiðanir í uppeldismálum aukast líkur á árangri í skólastarfinu, þ.e. námsárangri, almennri velferð nemenda og forvörnum.

  • Við grunnskóla skal starfa foreldrafélag. Skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Hlutverk foreldrafélags er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Foreldrafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð.

    Ákvarðanataka í skólamálum hefur færst nær foreldrum en það undirstrikar þörf fyrir formlegan samstarfsvettvang þeirra. Vel rekin og virk foreldrafélög við hvern skóla gefa foreldrum kost á margvíslegum tækifærum til að stuðla að og viðhalda góðum skólabrag og kynnast öðrum foreldrum, nemendum og starfsfólki skóla. Foreldrar hafa þar vettvang til að ræða saman um skólagöngu barnanna og hvað eina sem varðar uppeldi og menntun. Til að ná sem bestum árangri er nauðsynlegt að þeir sem hlut eiga að máli velti fyrir sér markmiðum félagsins og hvernig megi skipuleggja starfið svo að þau markmið náist. Með virkri starfsemi foreldrafélaga er hægt að stilla saman strengi í ýmsum hagsmunamálum og velferðarmálum með hagi barna að leiðarljósi. Foreldrafélög skulu leggja áherslu á sem virkast foreldrastarf í einstökum umsjónarhópum eða bekkjardeildum. Foreldrafélög skulu hafa sem best samstarf við skólaráð og nemendafélög.