15

Meðal meginatriða nýrrar menntastefnu, sem mótuð var með gildistöku laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla 2008, var að auka svigrúm, sveigjanleika og samfellu á milli skólastiga og innan hvers skólastigs. Lögð er áhersla á að grunnskólinn komi betur til móts við ólíkar þarfir barna en það kallar á að svigrúm í skipulagi náms sé aukið, þ.m.t. námslengd og skil milli skólastiga. Helstu markmið samstarfs og tengsla milli skólastiga eru að skapa samfellu í námi barna, koma til móts við þarfir þeirra og stuðla að markvissari uppbyggingu náms. Einnig er markmiðið að treysta gagnkvæma þekkingu og skilning á starfi kennara og námi nemenda og stuðla að vellíðan og öryggi barna þegar þau flytjast milli skólastiga.

  • Langflestir nemendur hefja nám í framhaldsskóla strax að loknum grunnskóla. Mikilvægt er að nemendur fái traustar upplýsingar um framhaldsskólastigið í heild og einstaka skóla, einkum skóla í heimabyggð. Þessar upplýsingar eru á ábyrgð framhaldsskólans og eiga að vera öllum aðgengilegar.

    Í grunnskóla skulu nemendur fá trausta náms- og starfsráðgjöf sem auðveldar þeim að velja nám við hæfi. Sveitarfélög koma á samstarfi grunn- og framhaldsskóla. Það samstarf er sameiginleg ábyrgð skólastjóra grunnskóla og skólameistara framhaldsskóla. Í samstarfinu felst ábyrgð á upplýsingagjöf milli skóla og til nemenda og foreldra um nám á framhaldsskólastigi og hvernig samstarfi verði best háttað.

    Nemendum er heimilt að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi að loknu grunnskólanámi í viðkomandi greinum. Grunnskólanemendum er einnig heimilt að stunda slíkt nám samhliða grunnskólanámi enda hafi þeir sýnt til þess fullnægjandi hæfni. Í þeim tilvikum þarf traust samstarf að ríkja milli grunn- og framhaldsskóla. Námið er á ábyrgð grunnskólans og vitnisburður um það því birtur á vitnisburðarblaði nemandans við lok grunnskóla. Nám á framhaldsskólastigi er skilgreint á hæfniþrep. Framhaldsskóli sem í hlut á staðfestir að námið uppfylli þau skilyrði sem skólinn setur og fer um mat á náminu samkvæmt því.

    Ef grunnskólanemandi stundar nám í framhaldsskóla, sem skilgreint er sem hluti náms í grunnskóla, þá fer um kostnað vegna kennslu á framhaldsskólastigi eftir ákvæðum laga um grunn- og framhaldsskóla. Um nánari framkvæmd og fyrirkomulag skal samið milli hlutaðeigandi grunn- og framhaldsskóla.

    Þegar grunnskólanemandi stundar nám í sérskóla eða nýtur sérúrræða í grunnskóla, skulu kennarar og aðrir fagaðilar, ásamt nemanda og foreldrum hans, taka þátt í mótun og gerð tilfærsluáætlunar vegna fyrirhugaðs náms hans í framhaldsskóla og skal miða við að undirbúningur hennar hefjist í 9. bekk.

    Ráðuneytið birtir reglur um innritun í framhaldsskóla hverju sinni. Eftirfarandi reglur gilda um innritun grunnskólanemenda í framhaldsskóla:

    • Allir nemendur sem lokið hafa námi í grunnskóla eða náð 16 ára aldri eiga kost á að hefja nám við hæfi í framhaldsskóla.

     

    • Nemendur, sem lokið hafa skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla, geta innritast á námsbrautir framhaldsskóla svo fremi að ekki séu gerðar sérstakar kröfur.

     

    • Áhersla er lögð á að nemandur eigi kost á að njóta skólavistar í framhaldsskóla í nágrenni við heimili sitt eða í skilgreindum framhaldsskóla nálægt heimabyggð.