Tengsl leikskóla og grunnskóla er samstarfsverkefni foreldra og kennara beggja skólastiga þar sem velferð barnsins er í brennidepli. Kennarar á báðum skólastigum þurfa að kynna sér nám og starfsaðferðir hvers annars þannig að börn upplifi samfellu milli leikskóla og grunnskóla. Til þess að tryggja að svo verði þurfa leikskólar og grunnskólar að vinna áætlun sem felur í sér sameiginlegar áherslur beggja skólastiga samkvæmt aðalnámskrá sem og ákvarðanir um verkferla og ábyrgð á framkvæmdinni. Birta skal slíka áætlun í skólanámskrám skóla á báðum skólastigum.
Langflestir nemendur hefja nám í framhaldsskóla strax að loknum grunnskóla. Mikilvægt er að nemendur fái traustar upplýsingar um framhaldsskólastigið í heild og einstaka skóla, einkum skóla í heimabyggð. Þessar upplýsingar eru á ábyrgð framhaldsskólans og eiga að vera öllum aðgengilegar.
Í grunnskóla skulu nemendur fá trausta náms- og starfsráðgjöf sem auðveldar þeim að velja nám við hæfi. Sveitarfélög koma á samstarfi grunn- og framhaldsskóla. Það samstarf er sameiginleg ábyrgð skólastjóra grunnskóla og skólameistara framhaldsskóla. Í samstarfinu felst ábyrgð á upplýsingagjöf milli skóla og til nemenda og foreldra um nám á framhaldsskólastigi og hvernig samstarfi verði best háttað.
Nemendum er heimilt að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi að loknu grunnskólanámi í viðkomandi greinum. Grunnskólanemendum er einnig heimilt að stunda slíkt nám samhliða grunnskólanámi enda hafi þeir sýnt til þess fullnægjandi hæfni. Í þeim tilvikum þarf traust samstarf að ríkja milli grunn- og framhaldsskóla. Námið er á ábyrgð grunnskólans og vitnisburður um það því birtur á vitnisburðarblaði nemandans við lok grunnskóla. Nám á framhaldsskólastigi er skilgreint á hæfniþrep. Framhaldsskóli sem í hlut á staðfestir að námið uppfylli þau skilyrði sem skólinn setur og fer um mat á náminu samkvæmt því.
Ef grunnskólanemandi stundar nám í framhaldsskóla, sem skilgreint er sem hluti náms í grunnskóla, þá fer um kostnað vegna kennslu á framhaldsskólastigi eftir ákvæðum laga um grunn- og framhaldsskóla. Um nánari framkvæmd og fyrirkomulag skal samið milli hlutaðeigandi grunn- og framhaldsskóla.
Þegar grunnskólanemandi stundar nám í sérskóla eða nýtur sérúrræða í grunnskóla, skulu kennarar og aðrir fagaðilar, ásamt nemanda og foreldrum hans, taka þátt í mótun og gerð tilfærsluáætlunar vegna fyrirhugaðs náms hans í framhaldsskóla og skal miða við að undirbúningur hennar hefjist í 9. bekk.
Ráðuneytið birtir reglur um innritun í framhaldsskóla hverju sinni. Eftirfarandi reglur gilda um innritun grunnskólanemenda í framhaldsskóla:
- Allir nemendur sem lokið hafa námi í grunnskóla eða náð 16 ára aldri eiga kost á að hefja nám við hæfi í framhaldsskóla.
- Nemendur, sem lokið hafa skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla, geta innritast á námsbrautir framhaldsskóla svo fremi að ekki séu gerðar sérstakar kröfur.
- Áhersla er lögð á að nemandur eigi kost á að njóta skólavistar í framhaldsskóla í nágrenni við heimili sitt eða í skilgreindum framhaldsskóla nálægt heimabyggð.
Comments:
|