Menntun til sjálfbærni miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags.
Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og við leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Hér er einnig stuðst við þá skilgreiningu að sjálfbærni sé jafnvægisástand og sjálfbær þróun sé breytingarferlið þegar verið er að breyta þjóðfélagi, eða minni einingu, og færa það til sjálfbærni. Munur á hefðbundinni skilgreiningu og skilgreiningunni, sem hér er notuð, er fremur áherslumunur en merkingarmunur. Þessi áherslumunur hefur þó þá þýðingu í skólastarfi að leggja má áherslu á að margt smátt gerir eitt stórt, ekki þarf að bíða eftir stóru breytingunum til að geta fagnað þeim smærri.
Umhverfið og þar með náttúran umlykja allt mannlegt samfélag. Sjálfbær þróun getur ekki átt sér stað nema innan þeirra takmarka sem vistkerfi jarðar setja okkur. Því er skilningur á þeim takmörkum, ásamt ferlum, lögmálum og hringrásum í náttúrunni, mikilvægur grundvöllur þess að okkur takist að vinna eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þannig þurfa nemendur að þekkja, skilja og virða náttúruna, bæði vegna sjálfgildis hennar og þeirrar þjónustu sem hún innir af hendi við mannfólkið. Umhverfisvernd, loftslagsbreytingar og lífbreytileiki eru dæmi um úrlausnarefni.
Í samfélagslegu tilliti snýst hugmyndafræðin um jöfnuð, innan kynslóðar og á milli kynslóða. Til þess að ná jöfnuði þurfum við að viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð, hafa skilning á fjölbreytileika mannlífs og tryggja að fjölbreyttri menningu mismunandi hópa sé gert jafn hátt undir höfði. Í margbreytileika felst styrkur sem getur unnið bug á fátækt, stuðlað að friði og tryggt lífsskilyrði og lífsgæði fyrir alla hvar í heiminum sem þeir búa. Að gera sér grein fyrir mikilvægi eigin velferðar og annarra er forsenda sjálfbærrar þróunar.
Efnahagslegur þáttur sjálfbærrar þróunar er nátengdur bæði umhverfis- og samfélags-þættinum. Efnahagskerfi samfélaga skipa stórt hlutverk þegar kemur að skynsamlegri nýtingu auðlinda og sanngjarnri skiptingu þeirra. Þannig er mikilvægt að efnahagsvöxtur byggist hvorki á, né leiði til, óhóflegs ágangs á náttúruna. Framleiðsla og neysla eru órjúfanlegir þættir samfélags og um leið efnahags hvers einstaklings. Skilningur á eigin vistspori, vistspori samfélaga og þjóða stuðlar að sjálfbærri þróun og hófsemi. Neytendafræðsla og fjármálalæsi eru því mikilvæg forsenda þess að geta metið þarfir okkar í nútíð og framtíð.
Í sjálfbærnimenntun felst að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa; náttúru og umhverfi; lýðræði, mannréttindum og réttlæti; jafnrétti og fjölmenningu; velferð og heilbrigði; og efnahagsþróun og framtíðarsýn.
Í sjálfbærnimenntun felst einnig að börn og ungmenni takist í námi sínu á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni. Kennsla og starfshættir innan skólans skulu fléttast saman við það viðhorf að markmið menntunar sé geta til aðgerða. Í því felst þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og því að stuðlað sé að áhuga og vilja til þess að börnin og ungmennin taki þátt í samfélaginu.
Í lýðræði taka einstaklingar afstöðu til siðferðilegra álitamála og virkan þátt í mótun samfélagsins. Í lýðræðisríki þurfa borgararnir að búa við mannréttindi og ráða öllum meiriháttar málum sínum sameiginlega. Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Virðing fyrir manngildi og heilbrigði barna og ungmenna felur bæði í sér virðingu fyrir mannréttindum þeirra og viðurkenningu á hæfileikum þeirra og þroskamöguleikum. Viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðismenntun jafnframt því sem þau atriði fléttast saman við aðra grunnþætti menntunar. Skólum ber að rækta það viðhorf að samfélagið eigi að vera lýðræðislegt og einstaklingarnir gagnrýnir og með framtíðarsýn.
Lýðræði er mikilvægt á vettvangi skólans. Í fyrsta lagi þurfa skólar að taka mið af því að barna og ungmenna bíður að taka þátt í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að börn læri um þess háttar samfélög. Í öðru lagi þurfa skólar að taka mið af því í öllum starfsháttum að borin sé virðing fyrir manngildi hvers og eins. Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.
Mikilvægt er að í öllu námi, viðfangsefnum skólastarfsins og aðferðum sé tekið tillit til áhuga nemenda og ábyrgðar þeirra á eigin námi. Einnig þarf að efla þekkingu á grundvallarréttindum barna og fullorðinna með hliðsjón af íslenskri löggjöf og alþjóðasamningum. Samfélagsgreinar og lífsleikni eru kjölfesta þekkingar á lýðræði og mannréttindum og viðhorfa til sömu þátta. Lýðræðislegur hugsunarháttur á þó við í öllum námsgreinum. Lýðræðislegt gildismat verður ekki mótað nema allar námsgreinar og öll námssvið séu notuð til þess. Umhyggja fyrir fólki, dýrum og umhverfi er einnig hluti lýðræðismenntunar og á heima í öllum námsgreinum.
Lýðræðis- og mannréttindamenntun byggist á gagnrýninni hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins. Slíkt nám gerir ráð fyrir samstarfi út fyrir veggi skóla engu síður en samstarfi í skólanum. Þannig þarf að gera ráð fyrir virku samstarfi við heimili barna og ungmenna og við æskulýðs- og íþróttastarf. Gera þarf ráð fyrir virku samstarfi við grenndarsamfélag innan sveitarfélags eða hverfis en slíkt samstarf er einnig einn af lykilþáttum sjálfbærni. Áhersla er lögð á að lýðræðislegir skólar geti þannig tekið þátt í að skapa samábyrgt og sjálfbært samfélag.
Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.
Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og námsumhverfis. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta. Hér á eftir er upptalning nokkurra þeirra í stafrófsröð: Aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni, þjóðerni. Á öllum skólastigum á að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hvernig ofangreindir þættir geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks.
Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru skýr ákvæði um að á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. sé lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Áherslu ber að leggja á að drengir og stúlkur eigi sem víðtækasta og jafnasta möguleika. Hvergi í skólastarfinu, í inntaki né starfsháttum, ættu að vera hindranir í vegi hvors kynsins. Mikilvægt er að í öllu skólastarfi, jafnt í kennslustundum sem í öllum samskiptum, séu þessi ákvæði jafnréttislaga höfð að leiðarljósi. Jafnframt er mikilvægt að draga fram að ýmsir búa við margþætta mismunun þegar fleiri slíkir þættir tvinnast saman, til dæmis kyn og fötlun, kynhneigð og þjóðerni, aldur og búseta. Í þessu skyni er eðlilegt að nýta sér í skólastarfinu þekkingu sem nýjar fræðigreinar, svo sem kynjafræði, hinseginfræði, fjölmenningarfræði og fötlunarfræði, hafa vakið athygli á.
Undir jafnréttismenntun fellur m.a. nám um kyn og kynhneigð. Með grunnþættinum jafnrétti er einnig lögð áhersla á að fram fari nám um menningu, þjóðerni, tungumál, trúarbrögð og lífsskoðanir. Eitt af viðfangsefnunum er þróun Íslands sem fjölmenningarsamfélags. Með jafnrétti er einnig lögð áhersla á félagslegan skilning á því hvað felst í fötlun. Áskoranir fólks með fötlun eiga ekki síður rætur í umhverfinu en í skerðingu einstaklings. Leggja skal áherslu á skóla án aðgreiningar í öllu skólastarfinu.
Mikilvægt er að skapa meðvitund um mismunandi félagsstöðu og vægi ungra og aldraðra til samanburðar við þá sem eru nær miðjum aldri. Nota má staðalmyndir, einkenni og sögulega þróun mismunandi aldursskeiða, þ.e. barnæsku, unglingsára, fullorðinsára og elliára og ólíka merkingu þessara aldursskeiða á mismunandi tímum og í ólíkum menningarheimum. Einnig má skoða ólíkt aðgengi að samfélagslegum gæðum eftir stétt, búsetu og fjárráðum. Skoða má áhrif stéttar og búsetu á heilsu, náms- og atvinnumöguleika og aðgengi að valdastöðum í samfélaginu.
Comments:
|