1

Aðalnámskrá byggir á lögum um leikskóla (nr. 90/2008), grunnskóla (nr. 91/2008) og framhaldsskóla (nr. 92/2008). Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum.

Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum þeirra, opinberum stofnunum, félagasamtökum, aðilum atvinnulífsins og almenningi upplýsingar um tilgang og starfsemi skóla. Segja má að aðalnámskrá sé samningur þjóðarinnar við sjálfa sig um menntamál.

Hlutverk aðalnámskrár er margþætt:

  • Aðalnámskrá birtir menntastefnu stjórnvalda, námsframboð og námskröfur og ber skólum og starfsmönnum þeirra að fylgja ákvæðum hennar við skipulagningu skólastarfs. Aðalnámskrá á því að tryggja börnum og ungmennum góðar aðstæður til náms í samræmi við gildandi lög og menntastefnu.
  • Aðalnámskrá er helsta stjórntæki fræðsluyfirvalda til að tryggja samræmi og samhæfingu skólastarfs við útfærslu sameiginlegrar menntastefnu. Námskráin er ein meginforsenda þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið geti gegnt lögboðnu hlutverki sínu við að annast yfirstjórn og eftirlit með gæðum og framkvæmd skólastarfs.
  • Aðalnámskrá markar starfsramma stjórnenda, kennara og starfsfólks einstakra skóla við skipulagningu, framkvæmd og mat á skólastarfi sem þeim er skylt að útfæra, m.a. í skólanámskrá.
  • Aðalnámskrá veitir nemendum og forráðamönnum þeirra upplýsingar um gæðakerfi og helstu viðmið sem starfsemi skóla byggist á. Hún er grundvöllur mats á skólastarfi og námsmats í skólum. Námskránni er ætlað að veita kennurum, nemendum og foreldrum þeirra upplýsingar um menntun barna og ungmenna á hverju skólastigi. Námskráin er einnig til hliðsjónar fyrir þá sem annast menntun kennara og annars starfsfólks skóla svo og þá sem vinna við gerð námsgagna, stunda rannsóknir og annast úttektir á skólastarfi.
  • Kennarar gegna lykilhlutverki í öllu skólastarfi. Kennarastéttin spannar mörg hlutverk í skólakerfinu, s.s. kennslu, stjórnun, uppeldi, ráðgjöf, rannsóknir og þróunarstörf. Þannig teljast t.d. skólastjórnendur, sérkennarar og námsráðgjafar til kennarastéttarinnar. Gæði menntunar og árangur skólakerfisins byggist fyrst og síðast á vel menntaðri og áhugasamri fagstétt kennara á öllum skólastigum.

    Fagmennska kennara byggist á sérfræðilegri starfsmenntun, þekkingu, viðhorfum og siðferði starfsins. Fagmennska kennara snýst um nemendur, menntun þeirra og velferð. Markviss samskipti og góð kennsla stuðlar að námi og aukinni hæfni barna og ungmenna. Á kennurum hvílir ekki aðeins sú skylda að miðla þekkingu til nemenda heldur einnig að veita þeim tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni, örva starfsgleði þeirra og efla frjóa hugsun. Kennarar leiðbeina börnum og ungmennum í námi og mati á því og vinna að því að þeir tileinki sér heilbrigða lífshætti. Þeir leitast við að skapa góðan skólabrag, réttlátar vinnureglur og hvetjandi námsumhverfi.

    Í upphafi 21. aldar hafa orðið gagngerar breytingar í íslensku samfélagi sem hafa bein og óbein áhrif á skólakerfið og þá um leið nám nemenda og störf kennara. Hvort sem litið er til efnahags og atvinnumála, félagsmála og fólksflutninga, tækni og samskipta má finna deiglu og breytingar sem hafa áhrif á menningarlíf og þekkingu, menntun og uppeldi. Það má til sanns vegar færa að breytingar í íslensku samfélagi undanfarin ár hafi verið mjög hraðar og því aukast kröfur til skóla um að aðstoða samfélagið við að átta sig á breytingunum og takast á við nýjar aðstæður. Allt þetta eykur kröfur til kennarastéttarinnar, bæði til að greina samfélagsbreytingar og til að fella starfsemi skólanna að þeim á ábyrgan hátt.

    Kennarar vinna í samráði við skólastjórnendur að þróun skólanámskrár í samræmi við aðstæður og sérstaka áherslu á hverju skólastigi. Það er á ábyrgð kennara að útfæra á faglegan hátt í kennslu sinni og öðru skólastarfi fyrirmæli menntalaga og þá stefnu sem birtist í aðalnámskrá.