15

Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á að við allt mat sé fyrst og fremst litið til hæfni nemenda. Öllu námi framhaldsskólans er raðað á hæfniþrep. Þar sem framhaldsskólar skipuleggja sjálfir námsbrautir sínar er gert ráð fyrir að þeir geri nemendum kleift að velja ólíkar leiðir til að ná hæfniviðmiðum hvers þreps. Að jafnaði skal viðtökuskóli miða við mat þess skóla sem nemendur koma úr þegar litið er til þess hvort viðkomandi hæfniþáttum sé náð.

  • Nemandi sem flyst á milli skóla, sem starfa samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla, á rétt á því að fá nám sem hann hefur lokið með fullnægjandi árangri, metið til eininga á sama hæfniþrepi í viðtökuskóla enda falli námið að námskrá og námsbrautalýsingum viðkomandi skóla.

    Framhaldsskólum ber að setja fram skýrar verklagsreglur um mat á námi nemenda er skipta um námsbraut eða koma úr öðrum skóla. Eftirfarandi reglur um mat gilda en gert er ráð fyrir að framhaldsskólar útfæri framkvæmd þeirra í skólanámskrá.

    • Viðtökuskólar skulu meta áfanga á sama hæfniþrepi og þeir eru skilgreindir í fyrri skóla nemenda, óháð kennslufyrirkomulagi.
    • Heimilt er að láta þess getið á prófskírteini ef nám er metið úr öðrum skóla.