3

Mat er órjúfanlegur þáttur í starfi skóla og námi barna og ungmenna. Námsmat veitir upplýsingar um árangur barna og ungmenna við að uppfylla markmið náms, örvar þau til frekari dáða og nýtist kennurum og starfsfólki við að stuðla að frekari framförum í námi. Mat á starfi skóla hefur þann tilgang að tryggja að réttindi barna og ungmenna séu virt og þau fái þá menntun og þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum. Mat á skólastarfi er tvíþætt: Annars vegar er um að ræða mat sem skólar framkvæma sjálfir og er hér kallað innra mat. Hins vegar er um að ræða mat sem utanaðkomandi aðili vinnur á vegum sveitarfélags, ráðuneytis mennta- og menningarmála eða annarra aðila og er nefnt ytra mat.

  • Mat á skólastarfi er liður í lögbundnu eftirlitsstarfi skóla og skólayfirvalda sem hefur þann tilgang að tryggja réttindi nemenda og stuðla að skólaumbótum. Markmið mats og eftirlits er einkum þríþætt. Í fyrsta lagi að fylgjast með að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskráa. Í öðru lagi að auka gæði skólastarfsins og stuðla að umbótum, tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum. Í þriðja lagi að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.Skólarnir bera sjálfir ábyrgð á innra mati sínu en ráðuneytið og eftir atvikum sveitarfélög annast ytra mat á skólum. Ytra mat felst m.a. í úttektum á skólastarfi í heild eða einstökum þáttum þess, stofnanaúttektum, úttektum á námsgreinum og námsþáttum og eftirliti með innra mati skóla. Ráðuneytið ber jafnframt ábyrgð á því að fylgjast með því að sveitarfélög uppfylli lögbundnar skyldur sínar gagnvart skólum þar sem við á. Þá ber ráðuneytinu að fylgjast með stöðu og þróun menntakerfisins. Í þeim tilgangi safnar ráðuneytið margvíslegum upplýsingum um skólahald, m.a. með þátttöku í alþjóðlegum könnunum á námsárangri og öðrum þáttum skólastarfs.Ráðuneytið gerir áætlun um úttektir á öllum skólastigum og birtir þær á vef sínum. Einnig gefur ráðuneytið út ítarlegar leiðbeiningar um innra mat sem skólar geta nýtt sér kjósi þeir það.Aðalnámskrá myndar grunn viðmiða sem mat á skólastarfi hvílir á en í skólanámskrá útfærir skólinn nánar þau markmið og viðmið sem sett eru fram í aðalnámskrá og eftir atvikum í skólanámskrám. Mikilvægt er að innra og ytra mat á skólum nái til allra lögbundinna markmiða skólastarfisins, þ.m.t. hlutverks skóla að styrkja nemendur til þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi, efla frumkvæði og sjálfstæða hugsun nemenda, samskiptahæfni og fleiri atriði sem m.a. tengjast grunnþáttum menntunar.

    • Í vinnu við innra mat skal gerð grein fyrir tengslum við þau markmið sem sett eru fram í skólanámskrá. Hver skóli þróar aðferðir sem taka mið af sérstöðu skólans til að meta hvort og að hve miklu leyti markmiðunum hefur verið náð. Aðferðir við innra mat taka mið af þeim viðfangsefnum sem unnið er að hverju sinni.

      Innra mat hvers skóla byggist á kerfisbundinni aðferð sem lýst er í skólanámskrá. Í starfsáætlun skólans fyrir hvert skólaár kemur síðan fram hvaða þættir eru viðfangsefni innra mats. Innra mat skóla er markvisst fléttað saman við daglegt starf og nær til allra þátta skólastarfsins, s.s. stjórnunar, kennslu, námskrafna, námsmats og samskipta innan og utan kennslustofunnar. Leggja skal áherslu á virka þátttöku starfsfólks, nemenda, foreldra og annarra hagsmunaaðila eftir því sem á við.

      Til að leggja megi raunhæft mat á skólastarfið þarf að afla upplýsinga um það með margvíslegum hætti. Á grundvelli fjölbreyttra gagna er lagður grunnur að innra mati skólans. Þær upplýsingar og þau gögn, sem eru lögð til grundvallar matinu, taka mið af þeim viðfangsefnum sem unnið er að hverju sinni.

      Leggja þarf mat á markmið og leiðir með reglubundnum hætti. Innra mat veitir upplýsingar um styrkleika í starfi skólans og það sem betur má fara. Með hliðsjón af niðurstöðum innra mats eru umbætur síðan skilgreindar og skipulagðar. Skóli birtir opinberlega upplýsingar um niðurstöður innra mats og áætlanir um umbætur. Persónulegar upplýsingar eru þó undanþegnar birtingu.