6

Fjölbreytt námsumhverfi sem er hvetjandi og styðjandi fyrir nemendur er ein forsenda þess að nemendur eigi þess kost að ná þeim þáttum lykilhæfni sem til dæmis lúta að sjálfsþekkingu, sjálfstæði, frumkvæði og skapandi hugsun. Starfshættir við nám og kennslu geta einnig haft mikil áhrif við mótun nemenda og ýtt undir að þeir tileinki sér gagnrýna hugsun, virðingu og umburðarlyndi, lýðræðislega virkni, jafnrétti og ábyrgð í samskiptum og umgengni við umhverfi og náttúru. Viðfangsefni sem tengja nám við daglegt líf og starfsvettvang stuðla að auknu læsi nemenda á umhverfi sitt.

  • Starfsnám fer yfirleitt bæði fram í skóla og á vinnustað. Stór þáttur námsins felur í sér að nemendur þjálfist í að beita mismunandi aðferðum og verklagi. Þjálfunin fer annars vegar fram í verklegu sérnámi skóla undir leiðsögn kennara og hins vegar í vinnustaðanámi eða starfsþjálfun á vinnustað.

    Um starfsnám á vinnustað eru ýmist notuð hugtökin vinnustaðanám eða starfsþjálfun. Hér er gengið út frá því að í vinnustaðanámi séu alla jafna gerðar meiri kröfur um markvissa, skipulagða fræðslu, leiðsögn og eftirlit en þegar um starfsþjálfun er að ræða. Í starfsþjálfun er lögð áhersla á að nemendur fái tækifæri til að þjálfa frekar verkþætti og verkferla sem þeir hafa þegar fengið kennslu í. Það er því gert ráð fyrir að þeir geti sýnt meiri ábyrgð og sjálfstæði í vinnubrögðum en þegar um vinnustaðanám er að ræða.

    Vinnustaðanám og starfsþjálfun veita nemendum mikilvæg tækifæri til að hagnýta þekkingu sína og leikni og öðlast þar með hæfni til þátttöku í atvinnulífinu. Til að stuðla að markvissu vinnustaðanámi og starfsþjálfun á vinnustað er lögð áhersla á notkun námsferilsbóka. Um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað eru gerðir samningar í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.