6

Fjölbreytt námsumhverfi sem er hvetjandi og styðjandi fyrir nemendur er ein forsenda þess að nemendur eigi þess kost að ná þeim þáttum lykilhæfni sem til dæmis lúta að sjálfsþekkingu, sjálfstæði, frumkvæði og skapandi hugsun. Starfshættir við nám og kennslu geta einnig haft mikil áhrif við mótun nemenda og ýtt undir að þeir tileinki sér gagnrýna hugsun, virðingu og umburðarlyndi, lýðræðislega virkni, jafnrétti og ábyrgð í samskiptum og umgengni við umhverfi og náttúru. Viðfangsefni sem tengja nám við daglegt líf og starfsvettvang stuðla að auknu læsi nemenda á umhverfi sitt.

  • Þekking, leikni og hæfni eru hugtök sem notuð eru við gerð námsbrautalýsinga og áfangalýsinga. Tengsl hugtakanna birtast í því að hæfni nemenda byggir á þekkingu þeirra og leikni auk sjálfskilnings, viðhorfa og siðferðis. Ekki er nóg að búa yfir þekkingu, heldur þurfa nemendur að geta greint hana og miðlað. Á sama hátt birtist leikni nemenda ekki einungis í því að læra aðferðir. Þeir þurfa að geta valið á milli og beitt viðeigandi vinnubrögðum, verkfærum og aðferðum hverju sinni. Bæði þekking og leikni tekur til alls náms hvort sem það er á sviði bóknáms, listnáms eða starfsnáms.

    Hæfni nemenda felur í sér yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu sína og leikni í samræmi við aðstæður hverju sinni. Nemendur þurfa einnig að búa yfir hæfni og getu til að afla sér nýrrar þekkingar, leikni og hæfni þegar skóla lýkur. Í því ferli skiptir námshæfni, upplýsingalæsi, skapandi hugsun og hagnýting þekkingar lykilmáli. Nánari skilgreining á hugtökunum þekking, leikni og hæfni kemur fram í mynd hér fyrir neðan.

    ÞEKKING

    er safn staðreynda, lögmála, kenninga og aðferða. Hún er bæði fræðileg og hagnýt.

    • Þekkingar er aflað með því að horfa, lesa, hlusta á, ræða eða með upplifun og reynslu í gegnum athafnir.
    • Þekking er greind með því að ræða, flokka og bera saman.
    • Þekkingu er miðlað með fjölbreyttum tjáningaformum svo sem munnlega, skriflega eða verklega.

    LEIKNI

    er bæði vitsmunaleg og verkleg. Hún felur í sér að geta beitt aðferðum, verklagi og rökréttri hugsun.

    • Leikni er aflað með notkun á aðferðum og þjálfun í verklagi.
    • Leikni felur í sér greiningu með vali milli aðferða og skipulag verkferla.
    • Leikni er miðlað með því að beita vinnubrögðum, verkfærum og aðferðum mismunandi tjáningarforma.

    HÆFNI

    felur í sér yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu og leikni.

    • Hæfni gerir kröfur um ábyrgðartilfinningu, virðingu, víðsýni, sköpunarmátt, siðferðisvitund og skilning einstaklingsins á eigin getu. Einnig skiptir sjálfstraust og sjálfstæði í vinnubrögðum máli.
    • Hæfni felur í sér greiningu nemandans á eigin þekkingu og leikni með því að bera saman, finna samband, einfalda, draga ályktanir og rökstyðja. Hæfni til að greina byggist á gagnrýninni hugsun og faglegri ígrundun.
    • Hæfni er miðlað með margvíslegum tjáningarformum þar sem vitsmunalegri, listrænni og verklegri þekkingu og leikni er fléttað saman við siðferðilegt og samfélagslegt viðhorf einstaklingsins. Hæfni gerir kröfu um sköpunarmátt, ábyrgð og virkni.