Til að tryggja samfellu og stuðla að velferð nemenda er mikilvægt að milli grunnskóla og framhaldsskóla séu virk tengsl og miðlun upplýsinga eigi sér stað. Grunnskólanemendur geta hafið nám í framhaldsskóla samhliða grunnskólanámi ef fyrir liggur samkomulag milli viðkomandi grunnskóla og framhaldsskóla um framkvæmdina. Jafnframt þarf að gera samning milli ríkis og sveitarfélags þar sem m.a. kemur fram að nemendur og skipulag náms sé á ábyrgð grunnskólans.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á sveigjanleg skil milli grunn- og framhaldsskóla. Ef nemendur í grunnskóla uppfylla hæfnikröfur í einstökum greinum framhaldsskólans eiga þeir rétt á því að fá nám sem þeir hafa lokið metið til eininga, enda fellur námið að námskrá og námsbrautalýsingum viðkomandi framhaldsskóla og námskröfur eru sambærilegar. Forsenda fyrir námsfyrirkomulagi af þessu tagi er formlegt samstarf á milli grunnskóla og framhaldsskóla.
-
Fyrsta hæfniþrep framhaldsskóla skarast á við unglingastig grunnskólans á þann hátt að lýsing á fyrsta hæfniþrepi framhaldsskóla er jafnframt lýsing á þeirri hæfni sem stefnt er að við lok grunnskóla.
Við lok grunnskóla hafa verið sett fram sameiginleg viðmið í námsmati og samræmdum matskvarða og eru þau birt í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla. Samræmdum matskvarða við lok grunnskóla er ætlað að tryggja sams konar lýsingu á hæfni nemenda við lok grunnskóla, óháð skóla. Hann gerir kleift að leggja mat á lykilhæfni nemenda í tengslum við mismunandi greinasvið. Framhaldsskólar nýta einkunnir nemenda við lok grunnskóla meðal annars til leiðsagnar um í hvaða námsáföngum á fyrsta eða öðru hæfniþrepi þeim hentar að hefja nám.
Viðmið um mat á lykilhæfni í grunnskóla eru í takt við lýsingar á lykilhæfni í framhaldsskóla og lýsingu á einkennum fyrsta hæfniþrepsins. Þessi viðmið, ásamt lýsingum á mati við lok grunnskóla innan mismunandi námssviða, nýtast framhaldsskólum við skipulag námsbrauta sem ætlað er að brúa bil milli grunn- og framhaldsskóla.
Grunnskólastigið mun nota neðangreind viðmið og matskvarða við mat á hæfni nemenda við lok grunnskóla í íslensku, ensku, dönsku (norsku/sænsku), stærðfræði, skólaíþróttum, list- og verkgreinum, náttúrugreinum, samfélagsgreinum og upplýsinga- og tæknimennt.
Viðmið um mat á lykilhæfni í grunnskóla eru sett fram í fimm liðum:
- Hæfni nemanda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir munnlega, skriflega og á annan hátt. Hæfni til að miðla þekkingu og leikni sinni og flytja mál sitt skýrt og áheyrilega og taka þátt í samræðum og rökræðum.
- Skapandi hugsun og frumkvæði í efnistökum og úrvinnslu. Hæfni nemanda til að nota þekkingu og leikni, draga ályktanir, áræðni til að leita nýrra lausna og beita gagnrýninni hugsun og röksemdafærslu.
- Hæfni til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn.
- Hæfni nemanda til að nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun og nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt.
- Hæfni nemanda til að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu.
Samræmdur matskvarði er skilgreindur innan hvers námssviðs og ber grunnskólum að nota hann við brautskráningu nemenda úr grunnskóla. Kvarðinn hefur fjórar einkunnir, A, B, C og D.
Kvarði Námssvið Lykilhæfni A Framúrskarandi hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs. Framúrskarandi hæfni með hliðsjón af viðmiðum um lykilhæfni. B Góð hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs. Góð hæfni með hliðsjón af viðmiðum um lykilhæfni. C Sæmileg hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs. Sæmileg hæfni með hliðsjón af viðmiðum um lykilhæfni. D Hæfni og frammistöðu í námi ábótavant með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs. Hæfni með hliðjsón af viðmiðum um lykilhæfni ábótavant. Grunnskólar eru ábyrgir fyrir því að um réttmætt og áreiðanlegt mat sé að ræða við lok grunnskóla og að matið veiti nemendum, foreldrum og framhaldsskólum sem besta leiðsögn varðandi næstu skref nemenda í framhaldsskóla. Námsáfangar í framhaldsskóla eru skilgreindir á hæfniþrep og hefja nemendur úr grunnskólum nám ýmist í áföngum á fyrsta eða öðru hæfniþrepi eftir forkröfum áfanga og hæfni nemenda.
Mat á því hvaða þrep hentar best hverjum og einum er í höndum viðkomandi framhaldsskóla en miða skal við að nemendur, sem fengið hafa einkunnina A í íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku, geti að jafnaði hafið nám í framhaldsskóla á öðru hæfniþrepi í þeim greinum.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á sveigjanleg skil milli skólastiga og á það einnig við um skil milli framhaldsskóla og háskóla. Menntastofnunum er falin aukin ábyrgð á að þróa námsframboð á mörkum skólastiga til að auka sveigjanleika og möguleika nemenda við flutning þeirra milli skólastiga. Þannig geta fjölbreyttir námsáfangar á fjórða hæfniþrepi skarast við nám á háskólastigi. Samstarf milli aðliggjandi skólastiga er forsenda þess að möguleiki gefist á mati á námi milli skólastiga.
Samkvæmt lögum um framhaldsskóla er skólunum heimilt að bjóða upp á nám í framhaldi af skilgreindum námslokum á þriðja hæfniþrepi. Námið er skilgreint sem viðbótarnám við framhaldsskóla á fjórða hæfniþrepi og gefið upp í framhaldsskólaeiningum.
Nám á fjórða hæfniþrepi getur verið metið til eininga (ECTS) á háskólastigi, sbr. lög nr. 63/2006. Það er þó á forsendum hverrar háskólastofnunar fyrir sig, innlendrar sem erlendrar. Framhaldsskólar skulu alltaf auglýsa nám á fjórða þrepi í framhaldsskólaeiningum en ef fyrir liggur samstarfssamningur um mat á náminu við háskólastofnun má geta þess í upplýsingum um námsframboð.
Comments:
|