12

Skólameistari veitir framhaldsskóla forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans.

  • Mikilvægt er að framhaldsskólar vinni að skipulegri samvinnu heimilis og skóla.

    Framhaldsskólar sinna bæði lögráða og ólögráða einstaklingum og breytist því samstarf heimilis og skóla við 18 ára aldur. Samstarf milli framhaldsskóla og foreldra ólögráða nemenda er mikilvægur liður í að draga úr skilum milli skólastiga, veita nemendum nám og ráðgjöf við hæfi og efla forvarnir. Ólögráða nemendur eru undir forsjá foreldra eða annarra sem hefur verið falin forsjá þeirra samkvæmt lögum og er skólum skylt að upplýsa þá um námsframvindu barna þeirra svo og mál sem upp kunna að koma varðandi skólagöngu þeirra. Leyfi lögráða nemenda þarf til að afhenda foreldrum gögn er varða nám þeirra.

    Foreldraráð skal starfa í hverjum skóla og eiga forsjárforeldrar/forráðamenn allra nemenda skólans rétt á aðild að því. Stjórn foreldraráðs tilnefnir áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Hlutverk ráðsins er samkvæmt lögum að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann.