16

Framhaldsskólar bera ábyrgð á að starf þeirra sé í samræmi við aðalnámskrá en hafa jafnframt víðtækar heimildir til þess að laga námskrá að þörfum fatlaðra nemenda, langveikra og þeirra sem eiga við námsörðugleika að etja. Ýmsar aðrar ástæður geta gefið tilefni til að skólastjórnendur veiti undanþágur frá aðalnámskrá. Á prófskírteini nemenda skal ávallt gerð grein fyrir undanþágum frá námsframvindu eða námsmati.

  • Komið skal til móts við afreksfólk á þann hátt að fjarvera þess á námstíma vegna keppnis- og/eða æfingaferða reiknast ekki inn í skólasóknareinkunn þeirra. Komið skal til móts við afreksfólks á þann hátt að fjarvera þess á prófatíma vegna keppnis- og/eða æfingaferða útiloki ekki nemendur frá því að gangast undir námsmat í lok skólaárs eða námsannar. Leitast skal við að gefa nemendunum tækifæri til að ljúka prófum eða lokaverkefnum eftir því sem við verður komið.

    Afreksmaður telst sá sem valinn hefur verið í unglingalandslið eða landslið viðkomandi íþrótta-, keppnis-, list- eða starfsgreinar eða sá sem hefur verið valinn til þátttöku og/eða undirbúnings fyrir Norðurlandamót, Evrópumeistaramót, heimsmeistaramót, Ólympíuleika eða önnur sambærileg mót í sinni grein.

    Þegar staðfesting á fyrirhugaðri þátttöku nemandans liggur fyrir er mælt með því að skólastjórnandi geri sérstakan samning við hann um þær undanþágur sem á þarf að halda, svo sem um skólasókn nemandans, verkefnaskil og próftöku. Viðkomandi sérsamband/landsliðsþjálfari/landsliðsnefnd skal leggja fram staðfesta áætlun um þátttöku í verkefnum fyrir upphaf skólaárs eða námsannar. Leitast skal við að gefa nemandanum tækifæri til að ljúka prófum eða lokaverkefnum eftir því sem við verður komið.