Framhaldsskólar skulu koma til móts við þarfir nemenda af erlendum uppruna með íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og menningu, liðsinni við heimanám, jafningjastuðningi og öðrum þeim ráðum sem að gagni mega koma. Hver skóli skal setja sér móttökuáætlun þar sem fram koma helstu atriði um skólastarfið á máli sem nemendur og forráðamenn ólögráða nemenda geta skilið. Í móttökuáætlun felst að gerð sé einstaklingsnámskrá sem tekur mið af bakgrunni og tungumálafærni viðkomandi, að þróa námsaðferðir til að mæta viðkomandi nemendum, að skipuleggja samráð nemenda og starfsmanna skólans og upplýsa með skýrum hætti hvaða stuðning skólinn veitir til dæmis við heimanám og túlkun. Sérstaklega skal huga að þeim nemendum sem íslenskir eru en hafa dvalið langdvölum erlendis. Margir þeirra þurfa á hliðstæðri aðstoð að halda og nemendur af erlendum uppruna.
Framhaldsskólum er heimilt að meta móðurmál nemenda til eininga í frjálsu vali eða til eininga í stað annars erlends tungumáls.
Miða skal við að nemendur með annað móðurmál en íslensku fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu sem valgrein óski þeir þess. Framhaldsskólar geta boðið upp á slíkt nám í staðnámi eða fjarnámi eða metið nám sem stundað er annars staðar. Viðkomandi framhaldsskóli þarf þá að veita samþykki fyrir náminu óski nemendur eftir að fá slíkt nám metið til eininga. Framhaldsskólar eru ekki ábyrgir fyrir náminu en geta verið tengiliðir, t.d. við gagnasöfn, bókasöfn, félög og annað það sem veitir nemendum aðgang að kennslu í eigin móðurmáli.
Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku. Sama gildir um heyrnarskerta nemendur. Nemendur sem hafa dvalið utan Norðurlanda á grunnskólaaldri, geta sótt um að taka annað tungumál í staðinn fyrir Norðurlandamál. Nemendur sem fengið hafa undanþágu frá námi í Norðurlandamáli í grunnskóla, geta einnig fengið undanþágu frá Norðurlandamáli í framhaldsskóla. Þeir skulu þó taka aðra grein í staðinn.
Komið skal til móts við afreksfólk á þann hátt að fjarvera þess á námstíma vegna keppnis- og/eða æfingaferða reiknast ekki inn í skólasóknareinkunn þeirra. Komið skal til móts við afreksfólks á þann hátt að fjarvera þess á prófatíma vegna keppnis- og/eða æfingaferða útiloki ekki nemendur frá því að gangast undir námsmat í lok skólaárs eða námsannar. Leitast skal við að gefa nemendunum tækifæri til að ljúka prófum eða lokaverkefnum eftir því sem við verður komið.
Afreksmaður telst sá sem valinn hefur verið í unglingalandslið eða landslið viðkomandi íþrótta-, keppnis-, list- eða starfsgreinar eða sá sem hefur verið valinn til þátttöku og/eða undirbúnings fyrir Norðurlandamót, Evrópumeistaramót, heimsmeistaramót, Ólympíuleika eða önnur sambærileg mót í sinni grein.
Þegar staðfesting á fyrirhugaðri þátttöku nemandans liggur fyrir er mælt með því að skólastjórnandi geri sérstakan samning við hann um þær undanþágur sem á þarf að halda, svo sem um skólasókn nemandans, verkefnaskil og próftöku. Viðkomandi sérsamband/landsliðsþjálfari/landsliðsnefnd skal leggja fram staðfesta áætlun um þátttöku í verkefnum fyrir upphaf skólaárs eða námsannar. Leitast skal við að gefa nemandanum tækifæri til að ljúka prófum eða lokaverkefnum eftir því sem við verður komið.
Comments:
|